Mest seldi hryggurinn 16 ár í röð

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups með hrygginn vinsæla.
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups með hrygginn vinsæla.

Hamborgarhryggur er langvinsælasti rétturinn á borðum landsmanna á aðfangadagskvöld. Léttsaltað og reykt svínakjöt um jólin er orðið rík og rótgróin hefð hér á landi, en hún á rætur að rekja til frænda okkar í Danmörku.

Það eru liðin 16 ár frá því Hagkaup réðst í það verkefni að einfalda eldun á mikilvægustu máltíð ársins. Hefð var fyrir því að sjóða hrygginn fyrst í stórum potti og klára svo eldunina í ofni. Þetta ferli vildi Hagkaup einfalda og hóf vöruþróun sem gekk út á það að salta og reykja hrygginn á nýjan hátt svo sleppa mætti við suðu í potti. Hagkaupshryggurinn er léttsaltaður og með ákveðnu fituhlutfalli sem tryggir mýkt kjötsins. Einnig er hryggurinn reyktur með aðferð sem gerir hann einstaklega bragðgóðan.

„Þessi nýjung sló rækilega í gegn og hefur Hagkaupshryggurinn verið mest seldi hryggurinn okkar í 16 ár samfleytt,“ segir Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaups.

Viðskiptavinir okkar kunna að meta einfaldleikann, en hrygginn þarf einungis að setja í ofnskúffu með smá vatni og elda í 90 mínútur. Þá er hryggurinn tekinn út, gljáa smurt yfir og hann settur aftur í ofninn í augnablik. Við vitum að jólasteikin má alls ekki klikka og því vöndum við okkur sérstaklega við val og vinnsluaðferðir á öllum Hagkaupshryggjum. Við erum ótrúlega stolt af því trausti sem okkur er sýnt með því að fólk velur hrygginn okkar ár eftir ár og oftar en ekki selst hann upp fyrir jólin, við þetta hafa svo komið viðbætur eins og forsoðnar kartöflur, tilbúinn kartöfluglái, gljái á hrygginn og tilbúin hátíðarsósa, lífið er því orðið mun einfaldara fyrir alla sem það kjósa,“ segir Sigurður að lokum.

Ljósmynd/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert