Hvetur fyrirtæki og vinnustaði til að taka þátt

Ljósmynd/Aðsend

Hin árlega góðgerðarpítsa Domino’s er komin í sölu og sem fyrr er það Hrefna Sætran sem sér um hönnun pítsunar. Í ár er um sannkallaða bragðlaukaveislu að ræða en á pítsunni er hvítlaukssósa, tvær tegundir af pepperóní, rauðlaukur, truffluostur, timjan og hunang. 

Að þessu sinni mun allur ágóði af sölunni renna til Einstakra barna sem fagna 25 ára afmæli um þessar mundir. Fjármunirnir munu fara í að byggja upp nýtt aðstandendasetur sem á eftir að skipta sköpum í þjónustu við langveik börn og aðstandendur þeirra.

Hin árlega góðgerðarpítsa Domino’s hófst árið 2014 og síðan þá hafa safnast 45 milljónir króna sem hafa runnið til ýmissa góðgerðamála. Síðast var safnað fyrir Píeta samtökin en þar söfnuðust tæpar 10 milljónir króna. Markmiðið í ár er að safna fimm milljónum hið minnsta en þá er 50 milljón króna múrinn rofinn.

Hrefna Sætran sér um hönnun pítsunar eins og undanfarin ár en hún segir það mikinn heiður og ómetanlegt sé að sjá afraksturinn með eigin augum. „Ég vil hvetja alla til að kaupa pizzu og vinnustaði til að kaupa pizzu fyrir starfsfólkið sitt. Pizzan í ár er einstaklega ljúffeng þó ég segi sjálf frá. Það er svo gaman að breyta til og prufa pizzu með hvítum botn.“

Guðrún Helga hjá Einstökum börnum tekur í sama streng og segist afar þakklát fyrir að samtökin hafi orðið fyrir valinu í ár.

„Við hjá Einstökum börnum - stuðningsfélagi barna með sjaldgæfa sjúkdóma eða heilkenni erum afar þakklát Dominos fyrir að velja að styrkja Einstök börn með sölu á góðgerðarpizzunni 2022. Opnun aðstandandaseturs félagins i apríl er umfangsmikið verkefni fyrir félagið en nauðsynleg vegna gríðalegra fjölgunar i félaginu. Félagið varð 25 ára þann 13. mars og hefur vaxið hratt undanfarin ár og stór aukið þjónustu sína við börnin í félaginu og fjölskyldur þeirra á starfstíma sínum,“ segir Guðrún Helga en salan á pítsunni hófst í gær og stendur yfir til 17 mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert