Lax með unaðslegri sósu

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Góður lax stendur alltaf fyrir sínu, enda stútfullur af mikilvægum næringarefnum. Þessi uppskrift er allt í senn, einföld, fljótleg og góð!

Það er engin önnur en Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn að uppskriftinni sem ætti að slá í gegn á hverju heimili.

Lax með sítrónusósu

Fyrir fjóra

Lax:

 • 800 g laxaflök
 • Salt og pipar
 • Ólífuolía
 • Fersk steinselja

Sítrónusósa

 • 1⁄2 laukur, mjög fínt saxaður
 • Safi úr einni sítrónu
 • 60 ml hvítvín
 • 125 ml rjómi frá Gott í matinn
 • 110 g smjör (við stofuhita)
 • Salt eftir smekk

Annað meðlæti:

 • Bakaðar kartöflur með smjöri og salti
 • Ferskt salat að eigin vali. Til dæmis: klettasalat, mangó, avókadó, kasjúhnetur og Dala Feta)
 • Ferskar sítrónusneiðar

Aðferð:

 1. Skerið laxinn í hæfilega stóra bita og raðið í eldfast mót.
 2. Penslið með olíu og kryddið með salti og pipar.
 3. Bakið við um 215°C í 10-15 mínútur (fer eftir þykkt flakanna).
 4. Stráið ferskri steinselju yfir laxinn þegar hann kemur úr ofninum.
 5. Á meðan laxinn er í ofninum er sósan útbúin.
 6. Setjið lauk, sítrónusafa og hvítvín saman í pott og sjóðið niður í 8-12 mínútur eða þar til sósan fer að þykkna.
 7. Hrærið rjómanum saman við og náið upp suðu að nýju.
 8. Takið pottinn þá af hellunni og hrærið smjörinu varlega saman við, þar til það hefur bráðnað (lítinn hluta í einu).
 9. Kryddið til með salti eftir smekk og hafið sósuna í pottinum á lágum hita, þar til bera á matinn fram.
mbl.is