Veislutertan toppuð með aspasbrauðrétti

Ljósmynd/skjáskot af Twitter

Hver man ekki eftir trifflíinu sem Rachel gerði í Friends? Þar sló tveimur uppskriftum saman og úr varð gjörningur sem markaði tímamót í matreiðslusögunni.

Andri P. Guðmundsson, eða PartýAndri eins og hann kallast á Twitter, deildi uppskrift sem eiginlega toppar gjörninginn úr Friends. Við erum að tala um íslenska fermingarveislu í einum rétti sem lítur líka svona vel út. Neðsta lagið er forláta Rice Krispies botn sem veitir stöðugleika og stendur alltaf fyrir sínu. Síðan sýnist okkur vera súkkulaðikaka á hvolfi með kremi sem lítur út fyrir að vera afar bragðgott. Þar ofan á er svo marengsbomban en ekki er hægt að halda veislu án þess að bjóða upp á marengs. Á toppnum trónir svo stjarnan sem er forláta aspasbrauðréttur.

Útkoman verður fallega litskrúðug og mögulega er þetta handhægasta og snjallasta lausn sem sést hefur. Eins konar nútímahlaðborð.

Hvort margir muni leika þessan bakstur eftir skal ósagt látið en matarvefur mbl á formlega þá ósk heitasta að vera boðið í partý til Andra.

Ljósmynd/skjáskot af Twitter
mbl.is