Lækka verð á landnámseggjum

Rekstraraðilar Landnámseggja þau Valgeir, Silja, Bára og Kristinn.
Rekstraraðilar Landnámseggja þau Valgeir, Silja, Bára og Kristinn.

Lándnámsegg, eggjabú í Hrísey, hefur lækkað verð á eggjum til verslana. Lækkunin er 15% og tók gildi í síðustu viku. Landnámsegg fást nú í Fjarðakaupum, Hagkaup, Krónunni, Melabúðinni og Verslun Hrísey.

„Við lækkum eggin núna þar sem við getum það með hagræðingu hjá okkur. Við erum samt sem áður mjög lítið eggjabú, með aðeins 700 landnámshænur sem verpa ekki eins mikið og iðnaðarhænur gera. Okkur fannst bara gott að gera þetta núna þegar allt í samfélaginu er að hækka,“ segir Valgeir Magnússon, einn eigenda búsins Landnámsegg.

Góð í baksturinn

Búið er eingöngu skipað landnámshænum sem verpa ekki eins þétt og eru eggin örlítið minni en fólk á að venjast. Hænurnar fá fjölbreyttara fóður og ganga frjálsar. Meira bragð er af eggjunum sem eru ekki öll eins á litinn.

„Þótt eggin séu aðeins minni þá hafa nokkrir góðir bakarar gert tilraunir og allar uppskriftir ganga upp með sama eggjafjölda þegar fólk er að baka. Einnig hvert ég alla sem elska marens að prufa að gera marens úr landnámseggjum. Þá fær fólk marens eins og í gamla daga, mun þéttari og loftkenndari. Hann er bara alls ekki eins,“ segir Valgeir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka