Finnski vodkinn gengur í endurnýjun lífdaga

Pekka Pellinen er einn litríkasti kokteilgerðarmeistari í heimi. Hann er …
Pekka Pellinen er einn litríkasti kokteilgerðarmeistari í heimi. Hann er sendiherra Finlandia og ferðast um allan heim í því skyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann talar með þéttum og ákveðnum finnskum hreim. Það er enda viðeigandi. Pekka Pellinen er ekki aðeins Finni, hann er sendiherra Finlandia, vodkans þekkta. Slíkur maður hlýtur að vera afgerandi í öllu sínu.

Hann hefur þann starfa að ferðast um heiminn og boða fagnaðarerindið varðandi gæði þessa kraftmikla vökva og þeir eru fáir í heiminum sem blanda jafn marga kokteila á degi hverjum og einmitt hann.

Áður en við snúum okkur að þeirri ljúfu iðju setjumst við niður yfir kaffibolla og ræðum um framleiðsluna.

„Þú veist kannski ekki að Finnar drekka meira kaffi miðað við höfðatölu en nokkur önnur þjóð í heiminum,“ segir hann við mig og brosir. „Við erum afgerandi í því sem við gerum, líka þegar kemur að vodkanum.“

Fyrsta sérhannaða vodka-flaskan

Þar hefur Pekka á réttu að standa og raunar voru það einmitt hans menn sem ruddu brautina á vodka-markaði á sínum tíma. Finlandia var fyrsta fyrirtækið í heiminum til þess að markaðssetja vöru sína í sérhannaðri flösku og það var enginn annar en Tapio Wirkkala sem var þar að verki. Íslendingar þekkja glösin hans vel en þau eru seld undir merkjum iittala og einkennast af dropa- eða klakakenndri lögun sinni.

„Finlandia á sér nokkuð langa sögu þótt vodkinn frá fyrirtækinu hafi ekki verið framleiddur undir því merki fyrr en árið 1970 og þá aðeins til útflutnings. Það var svo tveimur árum síðar sem hann var einnig settur á innanlandsmarkað,“ útskýrir Pekka.

Finlandia vodkinn er þekktur um allan heim. Tær og tiltölulega …
Finlandia vodkinn er þekktur um allan heim. Tær og tiltölulega hlutlaus sem hentar mjög vel í alla kokteila þar sem önnur innihaldsefni þurfa að njóta sín. En hann kemur einnig með ýmsum spennandi bragðtegundum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Sagan hófst árið 1888 þegar gerframleiðslu var komið á fót í bænum Rajamaki. Það var gert til þess að þjóna eftirspurn eftir hvítu brauði sem var lúxusvara í þá daga. Gerframleiðslunni fylgdi sá möguleiki að eima vodka og heimild fékkst fyrir því.“

Pekka bendir á að bannár með áfengi hafi verið við lýði á árunum 1919 til 1932 í Finnlandi og þá hafi öllum eimingarstöðvum verið lokað... nema þeirri sem starfrækt var í Rajamaki. Ríkisstjórnin keypti starfsemina þar.

„Það var að sögn gert til þess að tryggja spíra til heilbrigðiskerfisins,“ segir Pekka en hann glottir við tönn eins og Skarphéðinn í brennunni forðum og bendir það til þess að forsvarsmenn finnska ríkisins hafi talið sig þurfa að hafa góðan vodka við höndina þegar mikið lá við. Líkt og áður sagði hefur Finlandia farið sigurför um heiminn frá árinu 1970 og í dag framleiðir fyrirtækið rúmlega 25 milljónir flaskna á ári hverju og 99% af þeim fara til útflutnings. Fyrirtækið er í 10. sæti yfir stærstu vodkaframleiðendur heims. Þar kemst enginn með tærnar þar sem Rússar hafa hælana þótt það kunni að breytast vegna illvirkjanna í Úkraínu.

„Vodkinn okkar nýtur mikilla vinsælda því hann er hlutlaus. Hann yfirtekur ekki bragðið sem kokteilgerðarmeistararnir eru að kalla fram með hráefnunum sem þeir eru að leika sér með. Þau eru oft sótt í nærumhverfið á hverjum stað og þurfa að fá að njóta sín.“

Eftir spjall um Finlandia, vatnið tæra sem framleiðslan byggist á og tækifærin á markaðnum sem Pekka segir að liggi við hvert fótmál tekur hann til óspilltra málanna og blandar hvern stórkostlega kokteilinn á fætur öðrum. Það myndi æra óstöðugan að fara yfir allt sem fyrir augu bar í þeim sjónleik en það verður þó ekki komist hjá því að nefna nokkur atriði.

Eplakjarna Sour

Pekka er mjög umhugað um sjálfbærni og hann telur að matar- og vínmenningin í heiminum muni í æ ríkari mæli færast inn á það svið. Þess vegna hefjast leikar á drykk sem hann heldur mikið upp á og snýst um að nýta hráefni sem alla jafna endar í ruslinu, hvort sem er á veitingahúsum eða heimavið. Þar á hann við um kjarnann af eplinu sem annað hvort er búið að skera utan af eða naga (kjarninn sem hann notaði var skorinn).

Eplakjarninn er lykilhráefni í þessum ferska og skemmtilega kokteil.
Eplakjarninn er lykilhráefni í þessum ferska og skemmtilega kokteil. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann tekur kjarnann og kremur hann af miklu afli með einum sjúss af Finlandia. Þá bætir hann við hálfri teskeið af sítrónusýru og hálfum sjúss af Aqua faba (eða kjúklingabaunasoði) og öðru eins af hunangssýrópi. Þá fylgir dash af salti. Allt er þetta hrist saman og miklum móð og að lokum síað vandlega í fallegt glas. Ekki skemmir svo fyrir að skreyta drykkinn með hýði af epli.

Kokteill fyrir Tinder-stefnumót

Flest af því sem bar fyrir augu við gerð eplakjarna-kokteilsins er eitthvað sem maður kannast við. Og það var ljóst að Pekka ætlaði ekki að sleppa blaðamanninum svo auðveldlega úr húsi. Í næstu törn brá fyrir hráefnum sem maður á ekki að venjast.

„Þetta er kokteill sem gott er að grípa til ef maður lendir í lélegu Tinder-stefnumóti í bíósal. Þá verður maður að geta fengið sér góðan kokteil án þess að nokkur taki eftir,“ segir Pekka með sínum finnska hreim og hlær hátt.

Það er ekki nóg með að Poppkorns Sour líti sérlega …
Það er ekki nóg með að Poppkorns Sour líti sérlega skemmtilega út. Hann bragðast afar vel og getur því jafnvel reddað lélegu stefnumóti. Mbl.is/SES

Þarna er á ferðinni Poppkorns Sour. Það er kokteill sem er í dulargervi. Og uppskriftin er jafn einföld og hugsast getur. Maður grípur kokteilahristara, hellir í hann einum sjúss af Finlandia Cranberry. Svo bætir maður við 3/4 hlutum af ferskum sítrónusafa og hálfur sjúss af sýrópi. Þá kemur 1/3 af eggjahvítu og þrjú hindber. Að lokum skellir hann svo nokkrum poppkornum, fagurhvítum og brakandi ferskum út í. Og þetta hristir hann saman.

Hann skellir kokteilnum að lokum í plastglas með loki og fallegu röri, skellir því ofan í poppkornsskál af gömlu gerðinni og hylur glasið með poppi. Glæpurinn er fullkomnaður!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert