Guðdómlega franska súkkulaðikakan hennar mömmu

Ljósmynd/Linda Ben

„Þessa uppskrift gróf mamma upp úr gamla uppskriftasafninu sínu um daginn. Þessa köku gerði hún fyrir alls konar tilefni þegar ég hef örugglega verið í kringum 12-15 ára gömul en við vorum með algjört æði fyrir þessari köku,“ segir Linda Ben um þessa uppskrift sem hún deilir hér með okkur.

„Mamma rifjaði svo þessa köku upp fyrir okkur um daginn þegar hún bauð okkur í mat og var þá búin að baka hana. Hún var svo rosalega góð að ég einfaldlega varð að fá uppskriftina hjá mömmu og deila henni með ykkur.

Ég ákvað að nota suðusúkkulaðið með karamellukurlinu og sjávarsalti þegar ég bakaði hana og það kom alveg svakalega vel út og verð ég að mæla sérstaklega með því, en klassíska útgáfan er að sjálfsögðu með hreina Nóa-suðusúkkulaðinu.“

Guðdómlega franska súkkulaðikakan hennar mömmu

 • 200 g sykur
 • 4 egg
 • 200 g suðusúkkulaði með karamellu og salti
 • 200 g smjör
 • 100 g hveiti

Krem

 • 200 g suðusúkkulaði með karamellu og salti
 • 70 g smjör
 • 70 g síróp

Skraut

 • 250 g jarðarber

Aðferð:

 1. Kveikið á ofninum og stillið á 180°C, undir- og yfirhita.
 2. Þeytið egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós.
 3. Bræðið smjör í potti á vægum hita, slökkvið undir og setjið súkkulaðið út í, hrærið þar til bráðnað og samlagað. Bætið síðan súkkulaðibráðinni út í eggjablönduna varlega í mjórri bunu á meðan hrært er rólega.
 4. Bætið hveitinu út í og hrærið varlega.
 5. Smyrjið 23 cm form og hellið deiginu í formið, bakið í 30-40 mín eða þar til endarnir eru orðnir stífir en miðjan ennþá svolítið mjúk.
 6. Útbúið kremið með því að setja smjör og síróp í pott og bræða á vægum hita. Slökkvið undir og setjið svo súkkulaðið út í, hrærið þar til bráðnað.
 7. Hellið kreminu yfir kökuna, skerið jarðarberin í fjóra hluta og setjið yfir kökuna.
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is