Kakan sem allir lofsama

María Gomez lofar okkur hér stórkostlegri köku og við tökum …
María Gomez lofar okkur hér stórkostlegri köku og við tökum henni á orðinu. mbl.is/María Gomez

Þegar María Gomez gefur okkur uppskrift að köku - þá tökum við vel á móti, enda þekkt fyrir sína snilligáfu í eldhúsinu. Hér sjáum við yndisaukandi appelsínuformköku með súkkulaðibitum og hvítsúkkulaðismjörkremi. María segir; „mín ráð til ykkar er að fara bara alveg 100% eftir uppskriftinni og eiga stórt og gott hringform með gati í miðjunni til að setja hana í.”

Kakan sem allir lofsama

  • 300 g hveiti
  • 1 tsk. fínt borðsalt
  • ½ tsk. matarsódi
  • ½ tsk. lyftiduft
  • 350 g sykur
  • 225 g mjúkt smjör
  • Raspaður börkur af tveimur appelsínum
  • Raspaður börkur af 2 sítrónum
  • Nýkreystur appelsínusafi úr tveimur appelsínum
  • Nýkreystur sítrónusafi úr tveimur sítrónum
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 6 stór egg við stofuhita
  • 225 g grísk jógúrt
  • 1 dl dökkir súkkulaðidropar

Hvítsúkkulaðikrem

  • 250 g ljóma smjörlíki (nota ljóma því það verður mun sléttara kremið og hvítara á lit)
  • 420 g flórsykur
  • 125 g hvítir Candy Buttons hvítsúkkulaðilíki (fæst í Hagkaup m.a.)
  • 1 tsk. vanillusykur (vanilludropar gera kremið gulara, þess vegna betra að nota vanillusykur)
  • 3 msk. rjómi

Aðferð:

Formkakan

  1. Hitið ofninn á 165°C blástur eða 175°C ef þið hafið ekki blástursofn
  2. Smyrjið stórt formkökuhringform sem er með gati í miðjunni og smyrjið það með ríflegu af smjöri og látið svo smá hveiti yfir og hristið umframhveiti af, þannig losnar kakan vel úr forminu eftir bakstur
  3. Hærið saman hveiti, salti, matarsóda og lyftidufti með skeið í meðalstórri skál
  4. Setjið svo sykur í aðra skál og raspið börkinn út í og blandið saman með fingrunum þannig að úr verður eins og blautur sandur
  5. Setjið svo í hrærivél mjúkt smjör og sykurinn með berkinum og hafið t-stykkið á ekki þeytarann og hrærið saman á miklum hraða þar til verður loftkennt í eins og 5 mínútur
  6. Bætið svo út í appelsínu og sítrónusafanum ásamt vanilludropunum og hrærið þar til er vel blandað saman
  7. Lækkið hraðan á meðalhraða og bætið við einu eggi í einu þar til hvert egg er vel blandað saman við
  8. Lækkið nú hraðann á lægsta og bætið við hveitinu saman við í þrennu lagi og svo gríska júgurtinu í tvennu lagi og passið að hræra bara rétt svo saman svo kakan verði ekki seig
  9. Bætið svo súkkulaðidropum út í og hrærið varlega saman með sleikju en ekki í hrærivélinni
  10. Hellið nú í formið og bakið í miðjum ofninum í 55 mínútur en gott er að stinga prjón í kökuna og ef hann kemur hreinn upp úr er kakan til, ef kemur deig á hann er gott að bæta við 3 mínútum í senn þar til prjónninn kemur hreinn upp þegar stungið er í kökuna.
  11. Kælið næst kökuna í 15 mínútur og hvolfið henni þá á rekka og látið kólna alveg áður en kremið er sett á

Hvítsúkkulaðikrem

  1. Setjið mjúkt Ljómasmjörlíki í hrærivélarskál og hrærið í smá stund svo mýkist enn meir og bætið þá flórsykrinum smátt saman við ásamt vanillusykrinum og hrærið þar til er orðið lofkennt, mjúkt og kekkjalaust
  2. Bræðið Candy Buttons hnappana í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði og setjið beint út í kremið ásamt rjómanum og hrærið áfram saman þar til er orðið lofkennt og fallega silkimjúkt hvítt krem
  3. Takið svo sprautupoka og klippið lítið gat á hann og setjið kremið í hann. Sprautið kreminu á kökuna í sama munstri og þið sjáið á myndinni af kökunni
  4. Ég setti síðan lítið glas í gatið á miðjunni og setti blautan eldhúspappa á stilkinn á blóminu og setti ofan í glasið með smá vatni í
  5. Hægt er að nota hvaða blóm sem þið viljið
mbl.is/María Gomez
mbl.is/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert