Þessi hátíðlegu triffli eiga vel við á krýningardaginn

Undursamlega hátíðleg triffli sem gleðja bæði auga og munn.
Undursamlega hátíðleg triffli sem gleðja bæði auga og munn. Ljósmynd/samsett

Það er ekki bara í Bretlandi sem stóru stundarinnar er beðið með mikilli eftirvæntingu þegar Karl III. konungur verður formlega krýndur konungur á morgun. Á Íslandi eru margir royalistar í óðaönn að undirbúa stundina og ekki síður þeir sem hafa ástríðu fyrir konunglegum kræsingum.

Tinna Royal, listakona á Akranesi og Royal-búðingsaðdáandi, og Kristbjörg Smáradóttir Hansen matráður gerðu í sameiningu tvö hátíðleg „triffli“ í tilefni af krýningu Karls III. á morgun. Þær deila hér með okkur uppskriftum þessum undursamlegu trifflum sem er upplagt að útbúa fyrir stóru stundina á morgun og njóta fyrir framan skjáinn meðan fylgst er með krýningunni.

Pipp triffli

 • 1 pakki Pipp Royal búðingur
 • 250 ml rjómi
 • 250 ml nýmjólk 
 • 1 mulinn marengsbotn
 • 400 g jarðarber
 • 1 plata dökkt Pipp súkkulaði

Aðferð:

 1. Þeytið rjóma, mjólk og búðingsduft saman þar til það byrjar að þykkna.
 2. Setjið í sprautupoka.
 3. Skerið jarðarber í sneiðar og saxið Pipp súkkulaðið smátt.
 4. Setjið smá mulinn marengs í botninn á hverju glasi, nokkrar sneiðar af jarðarberjum ofan á og smá Pipp súkkulaði.
 5. Sprautið síðan Pipp búðingnum ofan á.
 6. Setjið svo annað lag af marengs, jarðarberjum, Pipp súkkulaði og búðingi.
 7. Skreytið svo með þeyttum rjóma, jarðarberjum, mintulaufum og söxuðu Pipp súkkulaði.

Saltkaramellu triffli

 • 1 pakki saltkaramellu Royal búðingur
 • 250 ml rjómi
 • 250 ml nýmjólk
 • ½ pakki mulið Homeblest kex
 • 2 stór Snickers
 • 1 grænt epli
 • Karamellusósa að eigin vali

Aðferð:

 1. Þeytið rjóma, mjólk og búðingsduft saman þar til það byrjar að þykkna.
 2. Flysjið eplið, skerið í litla bita og blandið út í búðinginn. Setjið blönduna í sprautupoka.
 3. Skerið Snickers-stykkin í litla bita. Sprautið smá karamellusósu í glas.
 4. Setjið smá Homeblest og nokkra Snickers-bita á botninn á glasinu.
 5. Sprautið síðan búðingi ofan á. Setjið svo annað lag af Homebelst, Snickers og búðingi.
 6. Skreytið með þeyttum rjóma, karamellusósu og Snickersbitum.
mbl.is