Vikumatseðill Ragnhildar Öldu steinliggur

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir ljóstrar hér upp vikumatseðlinum sínum sem …
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir ljóstrar hér upp vikumatseðlinum sínum sem er hinn girnilegasti. mbl.is/Árni Sæberg

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi og sérlegur yfirkokkur heimili sínu býður upp á vikumatseðilinn sem er hinn girnilegasti. Matseðill vikunnar er sannkallað matarævintýri og mun gleðja alla matgæðinga.

Ragnhildur Alda skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og henni fylgir mikill öldugangur í pólitíkinni. Hún er gift Einari Friðrikssyni. Saman eiga þau eina 8 mánaða stúlku en einnig á Ragnhildur Alda 12 ára strák úr fyrra sambandi.

„Fimmti fjölskyldumeðlimurinn er mathákurinn og hundurinn Jamie. Hvað vinnuna varðar þá er heilmikill öldugangur alltaf í Borgarstjórn. Með veturinn að baki og vorið komið á fleygiferð eru allir eru að reyna klára eins mikið og hægt er fyrir sumarið. Undanfarið hafa þrjú risamál verið hvað fyrirferðamest, bág fjárhagsstaða borgarinnar, væntanlegt hlutafjárútboð Ljósleiðarans og svo seinast en ekki síst Reykjavíkurflugvöllur og áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flugöryggi þar. Öll þessi mál þarfnast þess að maður sökkvi sér vel ofan í þau enda þverólíkt fagsvið og tæknilegs eðlis. Næst þarf maður að geta komið þessu frá sér á mannamáli og upplýsa fólk enda er það eitt höfuðverkefni borgarfulltrúa að láta fólk vita hvað við erum að gera í vinnunni,“ segir Ragnhildur Alda sem vill örugglega komast í eldhúsið í góða hugleiðslu.

Tók að sér að vera sérlegur yfirkokkur

„Þegar við Einar byrjuðum að búa var ég fljót að taka það að mér að vera sérlegur yfirkokkur heimilisins. Það var gert undir því yfirskini að hafa meiri reynslu af eldamennsku af okkur tveimur en í sannleika sagt hef ég síður gaman að uppvaskinu og sá það sem undankomuleið frá tiltektinni að taka að mér öll önnur máltíðatengd verkefni. Svo er ég líka nautnaseggur heimilisins og elska að prófa nýjar uppskriftir í bland við að enduruppgötva gamlar uppskriftir. Það er ekki bara að hver heimsálfa og hvert land hafi sitt einkennisbragð heldur líka hver áratugur. Mér þykir svo magnað hvað matur getur haft mikil áhrif á okkur. Sumir réttir bera mig samstundis á eldhúsbekkinn hennar ömmu á meðan aðrir senda mann á stéttina fyrir framan götusala í Nýju Delí. Ég elska þetta ferðalag og þess vegna líta vikumatseðlarnir hjá okkur Einari yfirleitt út eins og einhver smakkseðill á allra landa veitingastað.“

Unaðslegur ítalskur fiskréttur.
Unaðslegur ítalskur fiskréttur. mbl.is/TM

Mánudagur – Unaðslegur ítalskur fiskréttur

„Við leggjum upp með að hafa fisk tvisvar viku sem gengur misvel eftir. Þessi réttur hérna er geysivinsæll á okkar heimili enda bragðast hann varla eins og fiskur og er sáraeinfaldur í framkvæmd.“

Þriðjudagur – Kjúklingaréttur sem hittir í mark

„Þemað matur sem bragðast eins og annar matur heldur áfram. Þessi réttur hérna gæti alveg eins heitið Dominos Extra en hann inniheldur sveppi, ólífur, pepperoni og grænar paprikur og gefur pitsunni ekkert eftir.“

Miðvikudagur – TikTok-fetapasta

„Ég passa alltaf að hafa að minnsta kosti einn rétt sem er nánast minni fyrirhöfn en að panta sér mat og lendir sá réttur oft á miðvikudögum. Ef maður er umsetinn af verkefnum á öllum vígstöðvum og barnanna bíður fjall af heimanámi þá mæli ég með þessum rétt.“

Tik tok rétturinn sem Ragnhildur Alda elskar.
Tik tok rétturinn sem Ragnhildur Alda elskar. Ljósmynd/Aðsend

TikTok-fetapasta

  • Kassi af kirsuberjatómötum
  • 3 hvítlauksrif, kramin
  • 1-2 skarlot laukar, skornir í helminga
  • 1/2 bolli ólífuolía
  • salt og pipar eftir smekk
  • 1 kubbur fetaostur
  • 1-2 msk. timían

Aðferð: 

  1. Ofninn stilltur á 200°C
  2. Setjið kirsuberjatómata, hvítlauksrif og skarlot lauka í eldfast mót.
  3. Bætið ólífuolíunni yfir. 
  4. Saltið og piprið eftir smekk og hrærið saman. 
  5. Takið fetaostinn og setjið hann í miðjuna.
  6. Bætið við matskeið af ólífuolíu og setjið yfir fetaostinn. 
  7. Setjið timían yfir. 
  8. Sett inn í ofn og bakað í 40 mínútur. 
  9. Sjóðið pasta að eigin vali eftir leiðbeiningum á pakka á meðan rétturinn bakast í ofninum. 

Fimmtudagur – Japanskar pönnukökur

„Til að jafna út fyrir fyrirhafnarleysi dagsins á undan og senda fólk á japanskan veitingastað í New York heima í stofu kemur þessi ágæta uppskrift. Þú hún hljómi eins og heilmikið vesen er þetta á pari við að skella í egg, beikon og amerískar pönnsur. Geggjað að hafa japanskan bjór með.“

Föstudagur – Fimm stjörnu fiskréttur

„Við miðum við að hafa fisk á mánudögum og föstudögum og fær föstudagsfiskurinn yfirleitt að vera í íburðarmeiri kantinum. Þetta er fiskur fyrir fólk sem með dálæti á mangó „chutney“ en ég „missi“ yfirleitt auka dl af þessari ómissandi indversku sultu ofan í réttinn.“

Ljósmynd/Snorri Guðmundsson

Laugardagur – Lúxus grillspjót með chimichurri

„Með sumarið handan við hornið erum við Einar byrjuð að prófa okkur áfram á grillinu. Grillmatur er eiginlega sérflokkur í allri matarmenningu og við höfum svolítið gleymt honum í okkar tilraunastarfsemi hingað til. Við rákum okkur á þessa yfirsjón í fyrrasumar og ákváðum að nú skyldum við mæta tilbúin til leiks þetta sumar. Þessi uppskrift hér af grillspjóti hitti í mark hjá okkur. Sæmilega einföld uppskrift en mjög bragðgóð og Instagram væn.“

Ljósmynd/Helena Gunnars

Sunnudagur – Aspasbaka með beikoni og rjómaosti

„Á sunnudögum eru yfirleitt afgangar hafðir í kvöldmat, en til öryggis höfum við yfirleitt svona léttan rétt til að enda vikuna. Þessi réttur er kannski ekki léttur en við eigum hann öll skilið á sunnudegi. Þá sérstaklega þar sem árstíð aspassins er gengin í garð og því er þessi aspasbaka fullkomin. Það er reyndar strangheiðarlegur dósaaspas í henni sem að sjálfsögðu má skipta út fyrir ferskan aspas. Við höfum haft hana í hádegismat og svo haldið áfram að narta í hana fram á kvöld og svo sent strákinn með eina sneið í nesti á mánudeginum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert