Dýrðleg pavlova með sumarlegu ívafi

Dýrðleg pavlova með sumarlegu ívafi. Skreytt með hindberjum, mintu og …
Dýrðleg pavlova með sumarlegu ívafi. Skreytt með hindberjum, mintu og granateplafræjum sem eru safarík og sæt. Unsplash/Artur Rutkowski

Pavlovur njóta ávallt mikilla vinsælda og hver og einn getur bragðbætt þær og skreytt með sínu nefi. Hægt er að skreyta þær eftir árstíðum og stemningu að hverju sinni. Hér er á ferðinni ótrúlega ljúffeng og fersk pavlova með sumarlegu ívafi sem gleður bæði auga og munn. Pavlovan sjálf er klassísk og síðan er hún skreytt með hindberjum og mintu sem passa vel saman ásamt granateplafræjum sem eru safarík og sæt. Svo eru þau líka svo fallega bleik á litinn. Meðan við njótum sumarblíðunnar er um að gera að gera sér dagamun og bjóða upp á þessa dýrðlegu pavlovu með hindberjum, mintu og granateplafræjum.

Pavlova með hindberjum, mintu og granateplafræjum

  • Botn/ar
  • 8 stk. eggjahvítur
  • 500 g sykur
  • 1 ½ tsk. edik
  • ½ tsk. vanilludropar
  • ½ tsk. salt 

Rjómakrem á milli

  • 2 dl rjómi
  • 3 msk. flórsykur
  • ½ tsk. vanilludropa eða vanillusykur
  • Hindber eftir smekk

Skreyting ofan á

  • 1 p hindber
  • 1 stk. granatepli, fræin innan úr
  • ½ búnt fersk minta

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 100°C hita.
  2. Þeytið eggjahvíturnar vel.
  3. Bætið við sykrinum hægt og rólega saman við, ásamt ediki, salti og vanilludropum.
  4. Þeytið þar til sykurinn er vel uppleystur og marengsinn er orðinn stífur og fallegur.
  5. Smyrjið marengsinum á bökunarpappír á plötu, mótið tvo kringlótta botna úr marengsnum. Megið líka gera einn botn, valkvætt.
  6. Bakið við 100°C hita í 2 klukkustundir.
  7. Slökkvið þá á ofninum og látið kólna í honum.
  8. Þegar marengsinn hefur kólnað þeytið þá rjóma og blandið flórsykri og vanilludropum eða vanillusykri saman við.
  9. Að lokum bætið við hindberjum eftir smekk og hrærið varlega með sleif eða sleikju.
  10. Setjið rjómablönduna á milli og ofan á. Ef það eru einungis einn botn, setjið þá alla rjómablönduna ofan á.
  11. Skreytið marengstertuna með hindberjum, mintu og granateplafræjum að vild.
  12. Berið fram á fallegan hátt og njótið í góðum félagsskap.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert