„Hvað um kvenhetjurnar okkar?“

Guðný er um þessar mundir í sumarfríi í Mexíkó. Myndin …
Guðný er um þessar mundir í sumarfríi í Mexíkó. Myndin er tekin á þeim slóðum. Ljósmynd/Aðsend

Guðný Guðjónsdóttir stofnaði nýlega ráðgjafa- og þjálfunarfyrirtækið PROJECTS ehf. ásamt Katrínu Dóru Þorsteinsdóttur. Guðný starfaði áður í tíu ár hjá framleiðslufyrirtækinu Sagafilm, fyrst sem fjármálastjóri og svo sem forstjóri. Fyrir þann tíma vann hún hjá Vodafone í sjö ár sem forstöðumaður á fjármálasviði Vodafone. 

Guðný er menntuð í Bandaríkjunum, tók þar MBA gráðu með áherslu á alþjóðleg viðskipti frá San Diego State University og BS gráðu frá University of Nevada Las Vegas í hótelstjórnun. Auk þess er Guðný lærður markþjálfi.

Út á hvað gengur starfið?

„Starfið er ákaflega fjölbreytt. Við stöllurnar hjá PROJECTS bjóðum upp á fjármála- og rekstrarráðgjöf, mannauðsráðgjöf, ferlagreiningar og breytinga- og verkefnastjórnun. Við erum báðar lærðir markþjálfar og tökum því einnig að okkur hin ýmsu verkefni tengd þjálfun stjórnenda. Nýlega bættum við í þjónustuframboðið og bjóðum við nú upp á þjónustu sem við köllum brúarstjórnun sem snýst um það að leysa stjórnendur af tímabundið ef þeir þurfa að hverfa frá vinnu um sinn. Auk þess bjóðum við upp á bókhald, enda með tvær þrautþjálfaðar konur með okkur í því.

Sjálf hef ég mikla reynslu af því að vinna með hugmyndir, sjá í þeim möguleika til tekjuöflunar, aðstoða við fjármögnun sem og við fjármál og rekstur. Ég hef einnig einstaklega gaman af verkefnastjórnun; það er eitthvað mjög ánægjulegt við að skilgreina verkefni, setja saman teymi og vinna þétt með teyminu við að koma verkefnum í framkvæmd. Ég er markmiðadrifin og legg því mikið upp úr því bæði í markþjálfun og verkefnastjórnun að setja skýr markmið og koma þeim í framkvæmd.

Starfið gengur út á að vinna með fólki, hlusta eftir þörfum viðskiptavina okkar, fara í greiningarvinnu, veita ráðgjöf og að koma verkefnum í framkvæmd. Við leggjum mikið upp úr því að klæðskerasníða þjónustu okkar að þörfum hvers og eins fyrirtækis.

Hingað til hef ég verið svo lánsöm að fá tækifæri til að vinna með fjölbreyttum og ólíkum fyrirtækjum svo sem Tulipop, Valitor, Concept Events, Törutrix, sjónvarpsstöðvum, sjálfstæðum framleiðendum og nýsköpunarfyrirtækjum.“ 

Hvað skiptir máli fyrir konur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnumarkaði?

„Þrautseigja skiptir máli fyrir alla þá sem ætla að ná langt á vinnumarkaði, ekki síst fyrir konur. Ég er mjög hrifin af tilvitnun sem segir „instant success takes about ten years.“ Það að verða góður í einhverju snýst um endalausa þjálfun og vinnu. Það eru ekki endilega þeir gáfuðustu eða hæfileikaríkustu sem ná lengst, heldur þeir sem ekki gefast upp og halda endalaust áfram þótt á móti blási. Auðvitað er einnig mjög mikilvægt að hafa húmor fyrir sjálfum sér og þora að horfa inn á við ef hlutirnir ganga ekki upp. Það er auðvelt að kenna öðrum um þegar illa gengur en ég hef trú á því að við lærum óendanlega mikið af því að gera mistök, skoða þau vel og nýta þau til að byggja upp reynslu og gera betur næst. Það að koma fram við alla sem ég hitti af virðingu er einnig ein af þeim meginreglum lífsins sem ég hef reynt að temja mér.“

Hvernig var þinn ferill?

„Minn ferill einkennist helst af því að hafa fengið mörg, oft óvænt tækifæri sem ég hef nýtt vel. Við erum svo lánsöm hér á Íslandi, vegna smæðar fyrirtækja og markaðar, að fá tækifæri til að spreyta okkur við ýmislegt sem tæki miklu lengri tíma að fá tækifæri til erlendis.

Eftir að ég kláraði mastersnámið ákvað ég að koma heim frá Bandaríkjunum. Ég saknaði fjölskyldu minnar hérna heima, var einstæð með barn og vildi vera nær mínum nánustu. Auk þess var ég ekki tilbúin að vinna sextíu tíma vinnuviku í Bandaríkjunum, ein með barn. Ég var alltaf ákveðin í að ég gæti gert hvorutveggja, sinnt fjölskyldu og byggt upp frama. Mér var boðin góð staða hér heima í hóteliðnaðinum en viku eftir að ég kom heim var árásin gerð á Tvíburaturnana og ferðamannaiðnaðurinn hægðist til muna í nokkurn tíma. Starfið var því ekki lengur á borðinu. Ég fékk sölustarf hjá Halló Frjálsum Fjarskiptum, varð fljótt verkefnastjóri, gekk í gegnum fjöldamargar sameiningar innan fjarskiptageirans og var því nokkru síðar orðinn deildarstjóri og seinna forstöðumaður hjá Vodafone.

Ég lærði mjög margt í starfi mínu hjá Vodafone enda flott fyrirtæki sem bauð upp á ótal möguleika til framþróunar. Ég vann einnig um tíma hjá móðurfélagi Vodafone, Dagsbrún, við að innleiða ný fyrirtæki inn í móðurfélagið sem var einstaklega skemmtilegt starf. Á þeim tíma var Dagsbrún í örum vexti og átti meðal annars Vodafone, 365, Senu, Kögun, Sagafilm og fleiri félög. Þannig kynntist ég fólkinu í Sagafilm. Ég heillaðist fljótt af ástríðunni og eldmóðinum sem þar ríkti sem varð til þess að ég tók við starfi þar sem fjármálastjóri og svo sem forstjóri. Þar vann ég í tíu skemmtileg og viðburðarrík ár en ákvað svo að segja upp vinnunni, láta gamlan draum rætast og fór í heimsreisu með fjölskylduna í hálft ár. Stuttu eftir heimkomu lét ég annan draum rætast og stofnaði ráðgjafafyrirtækið PROJECTS ásamt Katrínu Dóru sem áður starfaði hjá Samtökum Iðnaðarins og ég hafði kynnst í gegnum stjórnarsetu hjá SÍK.“

Fannst þér þú uppskera á einhverjum tímapunkti að þú værir búin að ná markmiðum þínum?

„Ég hef frá unglingsárum sett mér skrifleg markmið fyrir hin ýmsu svið lífsins; vinnu, fjölskyldu, fjármál, áhugamál, heilsu og sjálfsþroska. Það er einstaklega gaman að líta til baka og sjá hve mörg þeirra markmiða hafa náðst, þótt að auðvitað megi endalaust betur gera. Eðli markmiða er að þau breytast í gegnum lífsleiðina út frá auknum þroska og breyttri forgangsröðun. Sem betur fer á ég því eftir að ná fjöldamörgum markmiðum, annars færi mér fljótt að leiðast. Ný markmið verða því til þegar öðrum líkur.“ 

Hvað gefur vinnan þér?

„Fjölmörg tækifæri til að vinna fjölbreytt, krefjandi og skemmtileg verkefni með áhugaverðu fólki í ólíkum atvinnugreinum. Vinnan gefur mér tækifæri til að ögra mér og þroskast utan þægindarammans. Ég þarf að vera snögg að aðlaga mig nýjum aðstæðum, koma mér hratt inn í ólík málefni og greina möguleikana í hverju verkefni fyrir sig. Ég hef einstaklega gaman af því að vinna í mismunandi teymum með fólki sem eru sérfræðingar í sínu fagi. Mér finnst ég endalaust vera að læra og fyrir það er ég þakklát. Það að vera ráðgjafi felur ekki í sér að vita svörin við öllu, heldur að nýta reynsluna til að finna lausnir með öðru reynslumiklu fólki.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Já, algerlega. Ég hef alltaf átt það til að færast of mikið í fang. Ég held að flest okkar séum í stöðugri baráttu við að halda jafnvægi í lífinu. Við getum verið frábær á einu sviði en vantað færni á öðrum sviðum. Þess vegna er markþjálfunin frábært tæki til að skoða lífið í heild sinni og hvar við þurfum að verja meiri tíma og orku til að koma á betra jafnvægi.

Á tímabili var ég í krefjandi starfi, rak auk þess lítið fyrirtæki með manninum mínum, var í mastersnámi í lögfræði, með börn og að byggja sumarbústað. Það var einfaldlega of mikið og ég gerði mér grein fyrir því, þrátt fyrir mína þrjósku, að þetta gæti ekki gengið til lengdar. Ég ákvað því að einbeita mér að vinnunni og fjölskyldunni og láta frekara nám bíða í bili. Hugmyndin um súperkonuna sem heldur öllum boltum á lofti í einu á meðan hún lítur frábærlega út á Facebook er okkur ekki til góða. Það eru eingöngu 24 tímar í sólarhringnum og þótt að hægt sé að nýta tímann mjög vel, þurfum við alltaf að velja og hafna hvernig við nýtum tíma okkar, athygli og orku.“

Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnir stjórnendur í fyrirtækjum en karlmenn?

„Já, því miður. Mér finnst það oft sorgleg staðreynd, að þrátt fyrir að búa í landi sem á að vera einna best sett í heiminum hvað varðar jafnrétti kynjanna eigum við enn þetta langt í land. Hvernig hægt er að réttlæta það að einn fái hærri laun en annar fyrir sama starf eða betri tækifæri til starfsframa eingöngu út frá kyni er mér algerlega óskiljanlegt og engum til góðs. Þannig er það þó enn. Hægt og sígandi tel ég að hlutirnir séu að breytast, en það er að gerast of hægt. Það er mikilvægt að konur séu duglegar að deila reynslu og styðja við yngri konur sem eru að stíga sín fyrstu skref á atvinnumarkaði. Það er mjög gott starf í gangi víða, innan FKA og fleiri samtaka, en við þurfum  einnig að vera meðvitaðar um að styrkja hvor aðra í okkar nánasta umhverfi, daglega.“

Ertu með hugmynd um hvernig er hægt að útrýma  launamun kynjanna fyrir fullt og allt?

„Því miður er engin töfralausn til í því samhengi. Ég tel þó að við þurfum í auknum mæli að horfa til yngstu kynslóðanna, inn í skólana. Sem dæmi er mannkynssagan að mestu skrifuð af karlmönnum, um karlmenn, fyrir karlmenn. Hvað um kvenhetjurnar okkar? Formæður okkar sem börðust í gegnum kalda vetur, erfiðar aðstæður, fátækt og neyð? Af hverju heyrum við ekki meira um þær? Eða samfélög þar sem konur voru stríðsmenn og vörðu sig og afkvæmi sín með öllum tiltækum ráðum? Það er fullt af sterkum konum í sögunni, við þurfum að fjalla meira um þær til að gera ungum stúlkum ljóst að  þær geta verið hetjur í sínu eigin lífi og ráðið örlögum sínum sjálfar. Skilaboðin til þeirra að þeim séu allir vegir færir, viti þær hvað þær vilji, eru mikilvæg skilaboð sem þær þurfa að hafa trú á, allt frá byrjun. Með því sjálfsöryggi munu þær ekki sætta sig við lægri laun eða færri tækifæri í framtíðinni. Þannig sjáum við breytingarnar eiga sér stað.“

Guðný Guðjónsdóttir hefur þá skoðun að ef við ætlum að …
Guðný Guðjónsdóttir hefur þá skoðun að ef við ætlum að verða góð í einhverju þá þurfum við að gefa okkur tíma til að æfa okkur og gefast ekki upp. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Ég skrifa allt niður. Ég tek punkta á öllum fundum og legg áherslu á að fundir séu nýttir til að setja niður skýrar aðgerðaáætlanir með ábyrgðaraðilum og tímasetningum. Í lok dags finnst mér svo gott að setjast niður í nokkrar mínútur og forgangsraða fyrir næsta dag. Þegar ég er komin með langan aðgerðalista er mér mikilvægt að dreifa þeim yfir tíma og hafa þannig yfirsýn yfir næstu viku og jafnvel vikur. Það róar hugann að vita að allt er komið á blað og þannig get ég betur einbeitt mér að öðru. Ég reyni að setja upp blokkir til að vinna án þess að vera stöðugt að lesa tölvupósta eða gera annað sem truflar einbeitinguna.“ 

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Hún er misjöfn. Mér finnst ákaflega mikilvægt að byrja daginn í frið og ró, það setur tóninn fyrir daginn. Mér finnst gott að íhuga á morgnana ef ég fæ tækifæri til eða fara í göngutúr, lesa blöðin og borða hollan morgunmat. Fyrsti kaffibollinn er svo auðvitað algerlega nauðsynlegur snemma morguns; fyrr er dagurinn ekki byrjaður.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Hann vill nú teygjast eitthvað fram eftir þegar mikið er að gera, en ég hef alltaf reynt að vinna ekki um helgar. Helgarnar eru mér nauðsynlegar til að sinna sjálfri mér og fjölskyldunni. Hvíldur hugi vinnur svo miklu betur en tættur hugi. Vel hvíld fæ ég betri hugmyndir og finn betri lausnir en ella.  Það er mér algerlega nauðsynlegt að endurnýja mig. Ég er mjög meðfylgjandi því að vinna ekki of mikla yfirvinnu, við slíkar aðstæður verða til mistök sem oft tekur langan tíma að leiðrétta. Við Íslendingar ættum að taka aðrar norrænar þjóðir okkur til fyrirmyndar í þeim efnum. Það er framleiðnin sem skiptir máli, frekar en langur vinnudagur.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Ég nýt þess best að vera með fjölskyldunni og nánum vinum. Ég er svo lánsöm að eiga góða vini. Ég var á árgangamóti fyrir stuttu, heil þrjátíu ár síðan ég útskrifaðist úr grunnskóla. Þegar ég leit yfir minn frábæra vinahóp fann ég sterkar en nokkru sinni hversu verðmætt það er að eiga vini sem maður hefur deilt ævinni með, bæði góðum og erfiðum stundum.

Fjölskyldan gefur mér kraft og ég er óendanlega stolt af börnunum mínum og þakklát fyrir þolinmæði og ást mannsins míns. Með þeim á ég mínar bestu stundir.“

Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu?

„Við erum hálfgerðir ferðafíklar, ég og maðurinn minn ásamt börnunum. Við ætlum því að halda flakkinu áfram, fara til New York, þaðan til Cancun í Mexíkó, hoppa yfir til Kúbu og enda í Flórída. Get vart beðið eftir sól og sumri á fjarlægum stöðum. Mér finnst ég aldrei læra meira en þegar ég er á ferðalagi, stöðugt í núvitund að upplifa nýja hluti, við nýjar aðstæður með minni yndislegu fjölskyldu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál