Góður stjórnandi þarf að tjá sig af öryggi

Sigríður Arnardóttir eða Sirrý eins og hún er kölluð.
Sigríður Arnardóttir eða Sirrý eins og hún er kölluð. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sirrý Arnardóttir er stjórnendaþjálfari sem á að baki 30 ára farsælan feril sem fjölmiðlakona. Sirrý stjórnaði vinsælum þáttum í beinum útsendingum í sjónvarpi og útvarpi um árabil og ritstýrði tímariti. Á 30 ára starfsafmæli sínu sem fjölmiðlakona ákvað hún að hætta og snúa sér alfarið að því að þjálfa fólk í öruggri tjáningu og að koma fram í fjölmiðlum.

Háskólamenntun mín, starfsnám mitt við bandaríska fjölmiðlasamsteypu, bækurnar sem ég hef skrifað og reynslan af að taka viðtöl í beinum útsendingum árum saman small saman í einn punkt og leiddi mig í þetta starf sem er að efla fólk og þjálfa í samskiptafærni. Oftast eru þetta lokuð námskeið innan stofnana eða fyrirtækja. En svo eru ýmis styttri námskeið í símenntun sem eru opin mörgum. Ég starfa sjálfstætt og í samstarfi við Háskólann á Bifröst. Það hentar mér vel að reka mig sem fyrirtæki og koma með sérsniðin námskeið á ólíka vinnustaði,“ segir Sirrý og heldur áfram.

Hagnýt námskeið í framkomu

„Ég hef kennt við allar deildir Háskólans á Bifröst í 8 ár. Byrjaði að þjálfa laganema í að halda ræður og koma fram í fjölmiðlum og á fundum. Svo hefur þetta vaxið og þróast og ég kenni núna við allar deildir.“

Sirrý segist njóta þess að kenna líka við styttri námslínur, en símenntun er öflug á Bifröst. „Ég kem til dæmis með þjálfun inn í námskeiðin „Máttur kvenna“ og „Rödd byggðarlagsins“.

Hvað getur þú sagt mér um þessi námskeið?

„Þetta eru annars vegar hagnýt námskeið fyrir konur á tímamótum sem margar reka fyrirtæki eða stefna að því og vilja efla sig á rekstrarsviðinu. Og svo hins vegar námskeið fyrir fólk í ferðaþjónustu sem vill taka á móti ferðamönnum af öryggi og efla framkomu og samskiptafærni sína enn frekar.“

Hvernig fólk sérðu fyrir þér að hafi not/ánægju af námskeiðunum?

„Flestallir. Því það er sama hversu góð við erum til dæmis í reikningi, fær í tölvum, vel lesin, vöðvastælt og svo mætti lengi áfram telja. Það er ekki nóg ef við erum ekki fær í mannlegum samskiptum. Við þurfum öll að eiga í beinum persónulegum samskiptum við fólk.

Konur sem ætla að stofna fyrirtæki þurfa að geta kynnt fyrirtækið og tjáð sig af öryggi við viðskiptavini og fjárfesta. Þar kemur námskeiðið „Máttur kvenna“ sér vel.

Eins þeir sem starfa í ferðaþjónustu verða að geta talað við viðskiptavini, komið vel fyrir, verið skýrmæltir, hlustað og sagt frá. Stutta námskeiðið „Rödd byggðarlagsins“ fjallar um þetta.

Viðskiptahugmyndir, heimasíður, samskiptamiðlar, allt skiptir þetta gríðarlegu máli en það er fátt sem er mikilvægara en góð mannleg samskipti.“

Máttur kvenna mikilvægur

Hvert er megininntak námskeiðsins og hvernig er kennt?

„Máttur kvenna er 11 vikna nám fyrir konur sem vilja öðlast þekkingu og færni í rekstri fyrirtækja. Kennsla fer fram í fjarnámi og geta nemendur hlustað á fyrirlestra á netinu og unnið verkefnin hvenær sem þeim hentar. Þar að auki eru kennslustundir á vinnulotum þar sem lögð er áhersla á hópavinnu nemenda. Vinnuhelgi er í upphafi og um miðbik námsins en náminu lýkur með formlegri útskrift. Það myndast mjög skemmtileg stemning á vinnuhelgum enda koma konur víða að af landinu og eru fegnar að geta borið saman bækur sínar og hjálpast að við námið.

Þetta hefur verið vinsælt nám í mörg ár en er í stöðugri þróun. „Máttur kvenna“ er nú skipulagt með nýju sniði. Nýnæmið felst fyrst og fremst í því að nú verður enn meiri áhersla lögð á hagnýtingu námsins, auk þess sem vinsæl námskeið eins og „Framsækni og örugg tjáning“ sem ég er með og fræðsla um nýsköpun og frumkvöðla munu fá aukið vægi í vetur. Jafnframt verða ný fög kennd eins og stofnun fyrirtækja og rekstrarform. Þá hefur einnig verið bætt við vinnuhelgi um miðbik námsins. Nýtt námskeið hefst 7. september 2018 og er skráning í gangi. Fyrir skipulagðar konur er sjálfsagt að taka fram að vinnuhelgarnar verða 7.-8. september og 6.-7. október 2018. Gisting er í boði á Bifröst og eftir kennsludagana er farið í heita pottinn, út í náttúruna, borðað í arinstofunni á Bifröst og mikið spjallað.

Mitt innlegg er í byrjun námskeiðsins til að þétta hópinn, efla og hvetja konur sem eru að fara langt út fyrir sinn þægindahring. Ég byggi þetta upp á fyrirlestrum, umræðum og hópverkefnum. En það að spjalla saman yfir góðum mat er líka mikilvægur partur af þessu.“

En hitt námskeiðið: Rödd byggðarlagsins?

„Það er stutt og hagnýtt námskeið fyrir fólk í ferðaþjónustu sem þarf starfs síns vegna að koma fram og vera í samskiptum við viðskiptavini. Þarf að geta tekið á móti fólki, sagt frá, náð athygli og látið rödd sína hljóma.

Á námskeiðinu verður farið í eftirfarandi þætti: Örugg tjáning, Samskiptafærni, Örugg framkoma, Að koma vöru/þjónustu á framfæri og ná til fólks.

Fyrirkomulag er þannig að námskeiðið er 6 klst. Og er pantað hjá Háskólanum á Bifröst. “

Lærdómur heldur manni ferskum

Hvað er að þínu mati áhugaverðast við að vera alltaf að bæta við sig þekkingu?

„Það heldur manni ferskum og meira lifandi að lesa, læra og hugsa eitthvað nýtt. Einnig að kynnast nýju fólki sem er samferða í áhugaverðu námi. Slíkt getur verið vítamínsprauta fyrir tengslanetið og sálina.“

Telur þú fólk geta lært á öllum aldri?

„Já, ég veit það. Eftir að hafa þjálfað fólk á öllum aldri á ýmsum námskeiðum er ég sannfærð um að besta útkoman fæst þegar fólk á ólíkum aldri kemur saman og lærir hvað af öðru. Öflugustu hóparnir sem ég kenni eru samsettir af fólki á ólíkum aldri og úr ólíkum áttum. Þá er mest gaman. Hver og einn hefur einhverju einstöku að miðla. Þrátt fyrir að ungt fólk sé oft fljótara að tileinka sér tækninýjungar þá er eldra fólk oft sterkara í einhverju öðru sem kallar á reynslu.“

Konur í fjölmiðlum

Nú hefur þú bæði mikla reynslu af að taka viðtöl og ert með námskeið í fjölmiðlafærni. Eru konur tregari til að koma fram í fjölmiðlum en karlar?

„Það er nú mismunandi eftir starfsgreinum, fjölmiðlinum sjálfum og málefnum.

Margar konur í dag eru vel menntaðar, færar í sínu starfi og koma fram í fjölmiðlum af mikilli fagmennsku og öryggi. Samt halda frambærilegustu konur oft að þær séu ekki nóg og aðrir séu betur til þess fallnir að fara í viðtöl. Það þarf oft bara að benda þeim á hvað þær gera þetta vel, sannfæra þær um að þær séu alveg með þetta. Svo má gefa þeim nokkur hagnýt ráð og oft er mjög gagnlegt að opna á umræðu um sviðsskrekk, frammistöðukvíða, reynslu af fjölmiðlaviðtölum og við það vex samkennd og sjálfsöryggi. Það sama má reyndar alveg segja um karlana. Þeir hafa líka gott og gaman af að fá hagnýt ráð, umræðu og hvatningu.

Viðtöl í fjölmiðlum eru oft stutt en áberandi og mikilvægt að nota tækifærið vel.“

Hvað einkennir góðan stjórnanda að þínu mati?

„Mér finnst mikilvægt að stjórnendur tjái sig af öryggi og í því felst ekki síst að hlusta á aðra. Góður stjórnandi þarf að hvíla svo vel í sjálfum sér að hann geti bæði komið með skýr skilaboð og hlustað á sjónarmið starfsfólks. Öruggur stjórnandi talar minna og hlustar meira og leyfir öðrum að blómstra. Starfsfólk þarf að fá að tjá sig um hlutina og hafa áhrif á starfsumhverfi sitt. Það heftir sköpun og vinnugleði að vera í umhverfi þar sem umræða er lítil og allt skotið í kaf eða gagnrýnt. Ég trúi því að kulnun í starfi sé alveg örugglega oft tilkomin vegna þess að starfsfólk fær ekki að vera skapandi, fær ekki að tjá sig og hefur of lítil áhrif á starfið sitt.“

Fjölskyldan í fyrsta sæti

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu?

„Fjölskyldan mín skiptir mig mestu máli. Síðan það að fá að skapa, miðla og gefa af mér með áhugaverðu fólki,“ segir Sirrý og bætir við: „Ég hef mikið að þakka fyrir. Hef verið mjög lánsöm í einkalífi mínu og er núna að byrja að skrifa nýja bók og fæ að vinna að því verkefni með áhugaverðu fólki. Þetta er mikilvægast fyrir mig.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál