Fagurkeri sem eflir konur

Hrafnhildur Hafsteinsdóttir er framkvæmdastjóri FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu. Mesta …
Hrafnhildur Hafsteinsdóttir er framkvæmdastjóri FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu. Mesta hluta starfsævinnar hefur hún unnið að því að efla fólk í gegnum menntun, stjórnun og félagsstörf. Ljósmynd/Aðsend

Hrafnhildur Hafsteinsdóttir er framkvæmdastjóri FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu. Mesta hluta starfsævinnar hefur hún unnið að því að efla fólk í gegnum menntun, stjórnun og félagsstörf. Hrafnhildur hefur fjölhæfa menntun frá ólíkum heimshornum og mikla víðsýni eftir að hafa búið erlendis og ferðast um heimsálfurnar sjö. Hún er fagurkeri fram í fingurgóma og kann að njóta lífsins.

Hrafnhildur er skipulögð og jarðtengd en líka ævintýramanneskja sem fer í teygjustökk, hoppar í fossa, syndir í köldum sjó og Meðalfellsvatninu þar sem hún býr í sveitasælu með fjölskyldunni. Hún er framkvæmdastjóri FKA, eins af öflugustu félagasamtökum hér á landi sem samanstendur af 1200 félögum en segir þó að mikilvægasta hlutverkið sitt sé að vera mamma.

Hvað er FKA?

„FKA eru félagasamtök fyrir allar konur í atvinnulífinu sem eiga eða reka fyrirtæki eða eru í stjórnenda- og leiðtogastörfum og vilja stórefla tengslanetið sitt, styrkja sjálfa þig og hafa áhrif til eflingar íslensks atvinnulífs.“

Hrafnhildur, Íris og Freyja Kristjánsdóttir.
Hrafnhildur, Íris og Freyja Kristjánsdóttir. mbl.is/Stella Andrea

Af hverju eru konur í kvennasamtökum eins og þessum?

„Fyrst og fremst til að efla sjálfar sig, stækka tengslanetið og ekki síst til að hafa það gaman. Gríðarleg breidd er af konum í samtökunum og koma þær úr öllum greinum atvinnulífsins. Í FKA gefst konum tækifæri til að koma sér á framfæri, gera sig sýnilegar, gefa af sér af reynslu og miðla til þeirra sem eru óreyndari eins og við gerum í gegnum„mentor“-prógrammið okkar með FKA Framtíð. En samstaða er enn gríðarlega mikilvæg og í krafti fjöldans er FKA hreyfiafl sem sameinast í mikilvægum verkefnum til að ná fram jafnvægi þar sem við þurfum að ná frekari árangri eins og við höfum gert varðandi konur í stjórnir, konur í stjórnendastöðum og sýnileiki kvenna í fjölmiðlum. Allt okkar starf stuðlar að því að íslenskt atvinnulíf einkennist af fjölbreytileika öðrum löndum til fyrirmyndar.“

Áhugaverð námskeið sem þú mælir með?

„Að vera framkvæmdastjóri þessa flotta félags er í raun eitt stórt námskeið því FKA stendur fyrir um 100 viðburðum á ári sem samanstanda af; fræðslufundum, námskeiðum, fyrirtækjaheimsóknum, ferðum og ráðstefnum.“

Hvert er besta námskeið sem þú hefur farið á?

„Ef það er eitthvert eitt námskeið sem hefur haft afgerandi áhrif á það hvernig ég vinn sem stjórnandi þá er það án nokkurs efa, markþjálfunarnámskeiðið sem ég bætti við mig þegar ég vann hjá Háskólanum í Reykjavík. Þar lærði ég meðal annars virka hlustun, spyrja spurninga á ákveðin hátt og það er mjög mikilvægt tól í stjórnendakassann minn.“

Hvað gerir þú til að dekra við þig?

„Að rækta líkama og sál. Byrjaði síðasta vetur að mæta aftur reglulega í ræktina að lyfta og það er í raun algjört dekur að hugsa vel um sig og fá smá „ME TIME“.“

Hvert er uppáhaldstískumerkið þitt?

„Ég spái lítið í fatamerkjum, horfi frekar á flíkina en þegar kemur að töskum þá er Michael Kors í uppáhaldi.“

Hvaða hönnuð heldur þú upp á?

„Ég elska allt frá skartgipalínunni VERA DESIGN – ótrúlega fallegar vörur með sögu og þjóðlegum bakgrunni.“

Rose Gold skartgripir frá Vera Design eru í uppáhaldi hjá …
Rose Gold skartgripir frá Vera Design eru í uppáhaldi hjá Hrafnhildi. Ljósmynd/skjáskot alnetið.

Hvað þýðir tíska fyrir þig?

„Tíska er alls konar – mér finnst mikilvægast að finna sinn stíl og vera bara þú sjálfur. Auðvitað koma oft tískubylgjur sem maður hleypur með – en persónulegur stíll stendur ávallt upp úr.“

Hver er uppáhaldsliturinn þinn?

„Fjólublár, bleikur og turkís eru uppáhaldslitirnir mínir en þegar kemur að fötum þá er hinn klassíski svarti allsráðandi en ég er hrifin af húðlituðum fötum og laxableikur hefur síðan verið að detta aðeins inn í hinn svarta fataskáp undanfarið.“

Laxableikur litur er í uppáhaldi hjá Hrafnhildi.
Laxableikur litur er í uppáhaldi hjá Hrafnhildi. Ljósmynd/skjáskot Instagram

Uppáhaldsíþróttafatnaður?

„„BEFIT & KUSK Collection“ buxurnar eru í algjöru uppáhaldi hjá mér. Þetta er íslensk hönnun og saumað af Hrönn Sigurðardóttur. Ég nota buxurnar alltaf í ræktinni því þær eru þægilegar, með háum streng og mjög klæðilegar.“

BEFIT og KUSK Collection buxurnar koma vel út á líkamanum.
BEFIT og KUSK Collection buxurnar koma vel út á líkamanum. Ljósmynd/skjáskot alnetið

Hvaða hlutur er ómissandi?

„Enginn hlutur er að mínu mati ómissandi en ég sný hiklaust við heim ef ég gleymi símanum mínum.“

Hver er mest notaða snyrtivaran í snyrtitöskunni?

„MAC varaliturinn – Myth.“

Hver er uppáhaldsverslunin þín?

„Veit ekki, sakna þó Karen Millen.“

Hver er uppáhaldsborgin til að versla í?

„Ég fer aldrei í sérstakar verslunarferðir...gerði síðustu stóru fatakaup á Egilsstöðum í Sentrum þegar ég var stödd á Íslandsmeistaramótinu í fimleikum með dóttur minni. Sætar búðir geta leynst á ýmsum stöðum.“

Áttu þér uppáhaldsflík?

„Get ekki verið án Canada Goose úlpunnar minnar né grænu Cintamani dúnúlpunnar þegar það verður kalt í Kjósinni á veturna en mamma og pabbi gáfu mér Canada Goose úlpuna þegar ég varð fertug – ein besta og hlýjasta flíkin mín.“

Hver er besti veitingastaðurinn á Íslandi að þínu mati?

„Verð að segja „PAMA“ en það köllum við systkinin að vera boðin í mat til mömmu og pabba. Mamma býr til heimagerðar pizzur sem toppa allt og pabbi er einn sá mesti listakokkur sem sögur fara af. Annars er indverskur í uppáhaldi og Austur-Indía félagið.“

Uppáhaldsmorgunmaturinn?

„Á morgnana fæ ég mér yfirleitt „smoothie“ sem ég geri fyrir alla fjölskylduna eða þá gríska jógúrt með jarðarberjum, bláberjum og múslí. Á sunnudögum bakar Bubbi „Ömmu Grétu“ skonsur sem eru bestar í heimi.“

Uppáhaldssmáforrit?

„Pinterest “

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu?

„Hamingjan felst í að vera til í núinu og njóta allra litlu hlutanna sem stundum virðast vera svo sjálfsagðir en eru í raun stærsta gjöfin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál