Eigum við að vera skráð 50/50?

Réttur fólks í óvígðri sambúð er ekki sá sami og …
Réttur fólks í óvígðri sambúð er ekki sá sami og fólks í hjúskap. mbl.is/ThinkstocPhotos

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá lesanda sem veit ekki alveg hvað er best að gera varðandi íbúðarkaup. 

Sæl.

Ég og kærastinn minn erum að fara að kaupa okkur íbúð saman. Við höfum verið saman í fimm ár. Hann átti meira sparifé en ég og vill því vera skráður 75% eigandi að íbúðinni. Ég mun samt greiða allar afborganir af láninu sem við tökum. Hvernig kemur það út fyrir mig ef við ákveðum seinna að hætta saman?

Kveðja, ÓB.

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. mbl.is/Valgarður Gíslason

Sæl ÓB. 

Það er algengur misskilningur að eins fari um eignir sambúðarfólks og hjóna. Fólk í óvígðri sambúð á ekki sömu réttindi gagnvart maka sínum og fólk í hjúskap, komi til skilnaðar. Eignir fólks sem gengið hefur í hjúskap skiptast í hjúskapareignir og séreignir. Hjúskapareignir eru allar þær eignir sem hjón koma með inn í hjónaband nema sérstaklega sé kveðið á um annað, s.s. með kaupmála á milli þeirra.

Sé það hugsun þín að tryggja réttindi gagnvart sambýlismanni þínum ef allt fer á versta veg, þá er leiðin sú að þinglýsa eignarhlutunum jafnt. Það er kannski erfitt að reikna þetta nákvæmlega út en þar sem þú tekur að þér að greiða allar afborganir af láninu væri ekki óeðlilegt að þið væruð skráð 50% eigendur að eigninni hvort.

Ef þið giftið ykkur verður fasteignin hjúskapareign ykkar. Við skilnað á maki þinn rétt á helmingi af hjúskapareign þinni og öfugt.

Svo er annað sem þú skalt hafa í huga. Ef annað ykkar fellur frá þá á hitt engan erfðarétt þar sem þið eruð ekki í hjúskap. Ef kærasti þinn deyr erfir þú því ekki hans hlut í fasteigninni. Fjölskylda sambýlismanns þíns erfir hans hluta í fasteigninni. Nema auðvitað að þið hafið gert erfðaskrá. Ef þið eigið barn þá erfir það hins vegar föður sinn eftir reglum erfðalaga. Til að þú eignist erfðarétt á hendur sambýlismanni þínum verðið þið að ganga í hjónaband!

Kær kveðja, 

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. 

Ef þér liggur eitthvað á hjarta þá getur þú sent spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál