Hlustar á Bó og Skálmöld við aksturinn

Guðlaug Fjóla Arnardóttir starfar sem malarflutningabílstjóri.
Guðlaug Fjóla Arnardóttir starfar sem malarflutningabílstjóri. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Lesendur úr Árbæ ættu að þekkja Guðlaugu Fjólu Arnardóttur og jafnvel að sumum hafi þótt hún vera ómissandi hluti af hverfinu á sínum tíma. Gulla, eins og flestir kalla hana, stóð nefnilega vaktina í Skalla-sjoppunni í Hraunbæ og síðar á matbarnum Blásteini og var þar hvers manns hugljúfi. Einnig var Gulla virk í starfi Fylkis þar sem hún tók að sér að vera dómari á knattspyrnuleikjum.

Í dag er Gulla komin í allt annað starf; á bak við stýrið á stórum flutningabíl, og hún er meira að segja komin með nýtt gælunafn. „Þegar ég fór á Facebook komst ég að því að Gullu-nafnið var þegar upptekið svo ég bætti við millinafninu svo úr varð Gulla Fjóla, og festist það alltaf meira og meira við mig – sem er bara ágætt,“ segir hún.

Gulla tók meiraprófið aðeins 21 árs gömul og bar það þannig til að hún hafði unnið sem unglingur í kirkjugörðunum og vörubílstjórinn þar leyft henni að æfa sig við og við. „Ég slapp því mjög vel með verklegu kennsluna og þurfti ekki nema þrjá aksturstíma, þar sem sá þriðji var sjálft bílprófið þar sem við ókum út að Múlakaffi eftir samloku og svo aftur til baka.“

Það kom sér vel fyrir Gullu að hafa aukin ökuréttindi þegar hún skipti um starfsvettvang og færði sig yfir til Osta- og smjörsölunnar. „Þar vann ég á lagernum, mannaði m.a. lyftarann og sá síðar um að afhenda vörur í miðbænum. Þaðan fór ég til Innness og var vörubílstjóri þar uns ég var látin fara í hruninu. Þá kom tímabil þar sem ég tók mér hlé frá akstri, fór í fæðingarorlof og þurfti að jafna mig á vinnuslysi, en undanfarin ár hef ég alfarið unnið við keyrslu, fyrst hjá Verkvögnum ehf. og nú við að flytja jarðvegsúrgang fyrir Lóðaþjónustuna á krókheysisbíl.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Margt gagnlegt við námskeiðið

Gulla er með þeim fyrstu til að ljúka endurmenntunarnámskeiði atvinnubílstjóra en nýlega tóku gildi lög sem skylda fólk með meirapróf til að sitja 35 klst endurmenntunarnámskeið á fimm ára fresti. Frá og með 10. september síðastliðnum geta þeir sem ekki hafa lokið endurmenntun ekki nýtt meiraprófsréttindi sín til atvinnuaksturs.

Að sögn Gullu voru nýju endurmenntunarreglurnar mjög umdeildar meðal atvinnubílstjóra á sínum tíma en þegar á reyndi hafi henni þótt margt gagnlegt við námskeiðið. „Það er gott að skerpa á þekkingunni og t.d. farið yfir þætti á borð við vistakstur, hvernig standa skal að því að festa farminn rétt, og hvaða reglur gilda um hvíldartíma og ökurita. Það mætti alveg stytta námið, og hluti af því var algjör þvæla, en á heildina litið var námskeiðið mjög gott og fræðandi.“

Vinnan hentar Gullu vel og segir hún að fólk sem fæst við þungaflutninga geti oft valið sér vinnustaði og verkefni sem henta lífsstíl þess og skyldum heimafyrir. „Eins og stendur fer vinna mín fram frá átta að morgni til sex að kvöldi og er það mun fjölskylduvænna en þegar ég fékkst við fiskflutninga og þurfti að leggja af stað milli þrjú og fjögur að nóttu. Var ég þá stundum að til fimm á daginn og var sofnuð á undan 10 ára gamalli dóttur minni.“

Góðir ferðafélagar

Gulla er ósköp lukkuleg á bak við stýrið, svo lengi sem færðin er góð og aðrir ökumenn hegða sér sæmilega í umferðinni. „Það skiptir mig miklu að hafa gott útvarp í bílnum og það fyrsta sem ég athuga þegar ég fæ lyklana að nýjum flutningabíl er hvort að útvarpið sé í lagi. Á morgnana hlusta ég á Dodda litla á Rás 2 en eftir hádegið finnst mér vera sama leiðinlega tónlistin á öllum útvarpsstöðvunum. Set ég þá geisladisk í tækið og læt Skálmöld eða Björgvin Halldórsson stytta mér stundir við aksturinn.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál