Mælir með öryggisnámskeiði BDSM

Sigga Dögg kynfræðingur segir fjölmörg námskeið hafa breytt sýn hennar …
Sigga Dögg kynfræðingur segir fjölmörg námskeið hafa breytt sýn hennar á lífið. mbl.is/Árni Sæberg

Sigga Dögg kynfræðingur er hafsjór af upplýsingum um allt á milli himins og jarðar. Hún er ein þeirra sem setja unað, jafnrétti, húmor og jákvæðni í forgrunn þegar kemur að kynlífi og segir kynfræðslu eitthvað sem eigi við bæði unga sem aldna. 

Á nýju ári eru margir að setja sér markmið og leita leiða til að læra eitthvað nýtt. 

Spurð um besta námskeiðið sem hún hefur farið á segir hún að mörg námskeið í faginu sem hún starfi í hafi kollvarpað sýn hennar á lífið og fólk almennt. Meðal annars öryggisnámskeið hjá BDSM-félaginu. 

„Það eru kannski þrjú námskeið, faglega og persónulega, sem eru ofarlega í huga mér núna. Ég lærði köfun (PADI að 30 metrum) í Taílandi árið 2006 og mér fannst það stórkostlegt. Ég hef alltaf haft sterka tengingu við sjóinn, eins og eflaust margir eyjaskeggjar. En það að  uppgötva þennan ævintýraheim var eins og eitthvað allt annað en ég hef upplifað til þessa. Þar gilda aðrar reglur um samskipti, tíma, hreyfingu og manneskjuna. Mér finnst það mögnuð tilfinning að kafa, það er í senn ein mesta núvitund sem til er en líka eins og að fara eitthvað, þar sem tíminn stendur í stað. Það er eitthvað svo fallegt við köfun þó að köfun flokkist sem jaðarsport! Það er reyndar eitt af nýársheitum mínum fyrir árið 2020 að fara að kafa meira - sama hvað plasti líður í sjónum!

Í sjónum gilda aðrar reglur um samskipti, tíma, hreyfingu og …
Í sjónum gilda aðrar reglur um samskipti, tíma, hreyfingu og manneskjuna.

Á síðasta ári, fór ég svo á draumanámskeið. Nú gubba einhverjir eflaust upp í sig, en mér fannst þetta mjög áhugavert. Enda dreymir mig svakalega mikið og langaði mig að reyna að skilja það betur. Það hefur gagnast mér takmarkað að lesa í Jung-ísk tákn. Þetta námskeið fór lengra og dýpra og mér fannst það hjálpa mér betur í að skilja mig og mínar hádramatísku draumfarir. Þetta er stundum ekkert grín; ég er á fleygiferð út um allt alla nóttina.

Árið 2012 fór ég á öryggisnámskeið hjá BDSM-félaginu og það fannst mér mjög merkilegt. Ég vissi afar takmarkað um BDSM áður en ég fór á námskeiðið en virðingin sem fólk sýnir hvað  öðru, væntumþykjan og leikreglurnar sem gilda sem og þekkingin sem fólk þarf að hafa, fannst mér áhugavert og mjög lærdómsríkt. Ég veit að þetta er í mótsögn við það sem margir halda. En þau fjölluðu svo vel um líkamann, mörk og samþykki, þetta hugarfar og þessi nálgun er til eftirbreytni fyrir fólk sem ekki er fyrir BDSM.“

mbl.is