„Væri í bankanum að greiða niður námslánin mín“

Edda Björk Ragnarsdóttir, viðskiptastjóri á hugverkasviði Samtaka iðnaðarins, myndi láta …
Edda Björk Ragnarsdóttir, viðskiptastjóri á hugverkasviði Samtaka iðnaðarins, myndi láta það vera sín fyrstu verk að greiða niður námslánin sín ef hún ætti alla fjármuni veraldar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Edda Björk Ragnarsdóttir er nýlega flutt til Íslands frá Genf í Sviss þar sem hún starfaði bæði hjá Sameinuðu þjóðunum og fyrir utanríkisþjónustu Íslands um árabil. Hún hefur nú tekið við starfi sem viðskiptastjóri á hugverkasviði Samtaka iðnaðarins. Edda er lögfræðingur en lögfræðina lærði hún í Háskóla Íslands og við Háskólann í Lundi í Svíþjóð. Spurð um hvað hún væri að gera ef hún ætti alla fjármuni veraldar, væri hún líklegast í bankanum að borga niður námslánin sín.

Hvað gerir þú sem viðskiptastjóri fyrir Samtök iðnaðarins?

„Ég starfa á hugverkasviði Samtaka iðnaðarins og kem þar að mörgum verkefnum sem snerta það svið. Starfið er fjölbreytt og krefst þess að maður eigi auðvelt með að aðlagast. Starfsumhverfið er mjög kvikt og spennandi og mikilvægt að bregðast hratt við breytingum. Innan Samtaka iðnaðarins eru 1.400 fyrirtæki en á hugverkasviðinu eru um það bil 100 fyrirtæki í 6 starfsgreinahópum, leikjaframleiðendur, sprotafyrirtæki, kvikmyndaframleiðendur, líf- og heilbrigðistæknifyrirtæki, gagnaver og upplýsingatæknifyrirtæki. Mitt hlutverk er fyrst og fremst að gæta hagsmuna félagsmanna en í því felst fjöldinn allur af fjölbreyttum verkefnum. Það geta verið einstaka lögfræðileg álitaefni, stærri mál sem snerta umgjörð atvinnulífsins, lagasetningu stjórnvalda og að halda umræðu á lofti um málefni sem skipta félagsmenn máli. Ég fylgist náið með þjóðfélagsumræðunni og vakta þróun mála sem snerta hagsmuni félagsmanna okkar. Þessi verkefni eru unnin í samstarfi við stjórnir viðkomandi starfsgreinahópa og þannig leggjum við línurnar í sameiningu.“

Hvernig notarðu menntun þína í starfi?

Lögfræðimenntunin er gagnleg í þessu starfi. Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir þó jafnvel meira máli að hafa vilja og áhuga á að kynnast fólki, hlusta á fólk og koma erfiðum málum í góðan farveg. Einnig snýst starfið mikið um að hafa skoðun á því hvernig eigi að breyta lögum og reglum og þá kemur sér vel að hafa þekkingu á lögfræði. Reynsla mín á því sviði hefur komið að góðum notum en þá reynslu hefði ég ekki öðlast nema vegna starfa sem ég hlaut í kjölfar lögfræðinámsins. Þetta er eitthvað sem mér finnst ég hafa lært af störfum mínum úti í Genf þar sem ólík menning og viðhorf höfðu áhrif á hvernig unnið var saman að því að finna lausnir. Þetta spilar því allt saman á endanum. Menntun og reynsla.“  

Getur þú bent mér á námskeið sem breytti lífinu þínu?

„Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á að sækjast eftir víðtækri starfsreynslu á mismunandi sviðum. Þegar ég var í laganáminu sinnti ég rannsóknarstörfum fyrir Háskóla Íslands. Þetta var kannski ekki áhugaverðasta viðfangsefni sem ungur laganemi gat hugsað sér, enda var ég með öðruvísi hugmyndir um lögfræðina á þessum tíma. Ég hef þó alltaf trúað því að maður verði að byrja einhvers staðar og þaðan verði leiðin greiðari að þeim markmiðum sem maður setur sér. Eftir að hafa stundað lögfræði í eitt ár við lagadeild háskólans í Lundi bauðst mér að fara sem laganemi á hugverkaréttarsvið Sameinuðu þjóðanna í Genf. Í upphafi áttu þetta bara að vera nokkrir mánuðir í Genf en ég ílengdist í rúm fjögur ár því ég fór að vinna fyrir sendinefnd Íslands í Genf eftir starfsnámið. Ég myndi segja að starfsnámið hjá Sameinuðu þjóðunum hafi breytt lífi mínu og vil ég hvetja ungt fólk sem hefur tök á því að fara í nám eða starfa erlendis að gera það. Því fylgir mikilvæg reynsla. Ég var allt í einu farin að starfa við hugverkaréttarlögfræði alfarið á ensku. Mér var kastað beint í djúpu laugina og ég lærði virkilega margt á stuttum tíma. Starfsnámið hjá Sameinuðu þjóðunum opnaði enn frekari dyr og ég endaði á því að starfa sem sérfræðingur í utanríkisþjónustunni hjá íslensku fastanefndinni í Genf í fjögur ár. Ég sinnti málefnum tengdum mannréttindaráði SÞ, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og EFTA. Þetta var auðvitað mjög skemmtilegur tími en á sama tíma krefjandi. Ég starfaði með frábæru fólki sem hefur kennt mér ómetanlega hluti. Ég held að sú persónulega færni og kunnátta, t.d. víðsýni, sjálfstraust og umburðarlyndi, hafi aukist til muna við dvölina erlendis. Þetta er auðvitað persónubundið og hver og einn finnur sína leið.“

Hvað værir þú að gera ef þú ættir alla peninga veraldar?

„Ég væri í bankanum að greiða niður námslánin mín. Eftir það væru mér ýmsir vegir færir enda dágóð upphæð eftir til eyðslu. Ég væri örugglega að fjárfesta í hugmyndum og nýsköpun sem ég hefði trú á að gætu breytt og bætt heiminn, ekki ósvipað Bill Gates en hann er hugsanlega sá sem kemst næst því að eiga alla peninga veraldar. Af hverju að finna upp hjólið? Ég held að Bill Gates sé löngu búinn að besta hvað er best að gera þegar maður á svona mikinn pening.“

Hvað væri fyrsta verkefnið þitt ef þú værir skipaður fjármálaráðherra landsins í viku?

„Stjórnsýslan hreyfist kannski á ágætum hraða, en ein vika er líklega ekki nægur tími til að koma miklu í verk. Draumastaðan væri sú að ég gæti hækkað þökin á endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar töluvert og auðveldað alla umgjörð fyrir sprotafyrirtæki til þess að vaxa og dafna á Íslandi. Ég held samt að því miður þyrfti ég nokkra daga til viðbótar til þess að ná þeim breytingum í gegn. Ég myndi því eflaust frekar nýta tímann til þess að sannfæra samstarfsfólk mitt í stjórnsýslunni um mikilvægi þessara breytinga og þannig sjá þær gerast í nánustu framtíð.“

Edda Björk segir að umhverfi nýsköpunar í landinu skipti miklu …
Edda Björk segir að umhverfi nýsköpunar í landinu skipti miklu máli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað vonarðu að gerist á Íslandi á næstunni tengt nýsköpun?

„Það sem ég vona að gerist á Íslandi á næstunni tengt nýsköpun byggir í grunninn á því að stjórnvöld haldi vel á spöðunum og leggi enn meira púður í að styrkja alla umgjörð nýsköpunar og skapa fyrirtækjum þannig starfsumhverfi sem stenst samkeppni við nágrannaþjóðir okkar. Þetta er ekki síst mikilvægt nú þegar útlit er fyrir hægan hagvöxt á Íslandi. Fjölmörg fyrirtæki hafa flutt starfsemi sína til útlanda á síðustu árum vegna ósamkeppnishæfs starfsumhverfis. Við þurfum að laða þessi fyrirtæki til Íslands aftur og jafnframt koma í veg fyrir að okkar verðmætustu fyrirtæki flytji úr landi. Ísland verður jafnframt að vera eftirsótt til búsetu og starfsþróunar fyrir mannauð heimsins en án samkeppnishæfs mannauðs verður engin nýsköpun á Íslandi. Án nýsköpunar er hætta á stöðnun og takmörkuðum framförum. Það er mjög mikilvægt að byggja undir nýjar lausnir í takt við breytingar í samtímanum.

Á síðastliðnum árum hafa nokkur mikilvæg skref verið tekin. Viðmiðunarfjárhæðir endurgreiðslna vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar tvöfölduðust og hækkuðu úr 300 m.kr. í 600 m.kr. í janúar 2019. Við viljum sjá stjórnvöld hækka þakið enn frekar enda er rúmt lagalegt svigrúm til þess. Þá þurfum við að auka hvata fyrirtækja til þess að skrá hugverk hér á landi en Ísland er að dragast aftur úr nágrannaríkjum sínum í verndun og skráningu hugverka. Fjölmörg ríki í Evrópu og Asíu hafa á undanförnum áratugum innleitt sérstakar skattaívilnanir til fyrirtækja vegna hagnaðar sem kemur til vegna skráðra hugverka. Fyrirkomulagið gæti hvatt til aukinnar fjárfestingar í rannsóknum og þróun hjá íslenskum fyrirtækjum ásamt því að fjölga einkaleyfaumsóknum þar sem skýr hvati yrði til að skrá hugverk.

Ég er bjartsýn á framhaldið en nú er nýútkomin nýsköpunarstefna fyrir Ísland og Samtök iðnaðarins ætla að tileinka árið 2020 nýsköpun. Við hjá SI væntum þess að þessi aukni kraftur muni loks leiða til þess að mikilvæg skref verði tekin af hálfu stjórnvalda í að efla nýsköpun hér á landi. Aðeins þannig munu verðmæt fyrirtæki sjá hag sínum best borgið með því að stunda rannsóknir og þróun hér á landi.“

Hvert er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Það er ekki hægt að sinna öllum hlutum óaðfinnanlega. Lykilinn er að þekkja sína eigin forgangsröðun og standa við hana. Ef þú forgangsraðar fjölskyldu og vinnu ofar heimilisþrifum og líkamsrækt, þá þýðir ekki að ergja sig á því þótt þvotturinn staflist upp endrum og eins eða hlaupabrettið sé lítið notað á köflum.“

Hvert er versta ráð sem þú hefur fengið?

„Lifðu hvern dag líkt og hann væri þinn síðasti. Það sem þú gerir í dag hefur áhrif á morgundaginn. Ekki bara á sjálfan þig heldur fólkið í kringum þig og í raun samfélagið í heild. Ef allir myndu lifa eftir þessu ráði þá á ég erfitt með að sjá samfélag sem eftirsóknavert væri að búa í.“

mbl.is