„Hollt að sjá leikhúsið lifa af mína fjarveru“

Arnmundur Ernst Backman á ekki langt að sækja hæfileika sína …
Arnmundur Ernst Backman á ekki langt að sækja hæfileika sína því foreldrar hans eru Edda Heiðrún Backman heitin, leikkona og leikstjóri og Björn Ingi Hilmarsson leikari. mbl.is/Saga Sig

Arnmundur Ernst Backman leikari er einlægur og hjartahlýr maður sem hefur starfað sem leikari lengi. Hann var bæði tilnefndur til Grímunnar og Eddunnar í ár en hefur ákveðið að stíga til hliðar úr leikhúsinu í bili til að fara að starfa sem þjálfari hjá Primal Iceland.

Arnmundur er einn af þeim sem leggja mikla rækt við líkama sinn og sál. Þótt hann ætli að setja fókusinn á þjálfun hjá Primal Iceland núna er hann þó hvergi nærri hættur að leika.

„Ég byrja flesta daga á því að minna mig á að því færri skoðanir sem ég hef og því minna sem ég hugsa - þeim mun hamingjusamari er ég. Svo stunda ég líkamsrækt hjá Primal Iceland. Þar er mikið lagt upp úr heilbrigðri og fjölbreyttri hreyfingu, styrk, teygjanleika og öndunaræfingum. Það sem ég læri þar get ég síðan tekið með mér og iðkað nánast hvar sem er, hvort sem það er heima eða á sundlaugarbakkanum. Ég hef sömuleiðis mikið dálæti á sánu og köldum pottum. Fátt gefur mér meira frelsi frá hausnum á mér eins og góð syrpa í heitu og köldu.“

Hvers vegna valdir þú leiklist?

„Verandi sonur tveggja leikara held ég að ég hafi í raun ekki haft mikið um það að segja. Þetta lá ágætlega fyrir, en svo er þetta auðvitað ótrúlega skemmtileg og gefandi vinna.“

Það skemmtilegasta við lífið að vera manneskja

Hvað er það skemmtilegasta við lífið?

„Þegar stórt er spurt. Ætli það sé ekki bara að vera manneskja, læra á og vaxa inn í það hlutverk.“

Hvað er það erfiðasta?

„Að vera manneskja. Læra á og vaxa inn í það hlutverk.“

Er mikilvægt að karlmenn ræði um tilfinningar sínar?

„Nei, ég held að það sé stórlega ofmetið. Næsta spurning takk! Nei, nei, grín. Ég held að það sé alltaf að koma betur og betur í ljós mikilvægi þess að ræða tilfinningar sínar og hvað flækist fyrir manni í lífinu. Það getur verið flókið að vera til og það að einangra sig og gefa engum hlut í sjálfum sér getur aldrei verið jákvætt. Við stækkum og þroskumst með því að endurspegla okkur í öðrum manneskjum. Það hefur allavega mín reynsla kennt mér.“

Áttu þér draumahlutverk sem leikari?

„Nei, það held ég ekki, en öll hlutverk sem eru gerólík mér sjálfum finnst mér hvað skemmtilegast og mest þroskandi að takast á við.“

Ákvað að stíga til hliðar

Hvar sérðu þig fyrir þér eftir tíu ár?

„Það er ofboðslega góð spurning, ég bara hreinlega veit það ekki. Ég var rétt í þessu að taka þá ákvörðun að stíga til hliðar frá Þjóðleikhúsinu og hefja störf við áðurnefnda líkamsræktarstöð, Primal Iceland, sem þjálfari. Nú eru 10 ár liðin síðan ég hóf leikaranámið í Listaháskóla Íslands og ég finn hjá sjálfum mér að þetta er skref í rétta átt. Stemmingin í þessari stöð er alveg ótrúleg og það er svo gaman að sjá frábært fólk ná frábærum árangri. Síðan held ég að það sé ofboðslega hollt fyrir egóið mitt að sjá að leikhúsið lifir af mína fjarveru og ég þess. Það er þó alls ekki þannig að ég sé alfarið hættur að leika. Venjulegt fólk fer aftur af stað í haust og svo er ég auðvitað með tvo frábæra umboðsmenn sem eru að vinna fyrir mig, bæði hana Maríu Hrund í Móðurskipinu hér á landi og svo aðra kraftkonu í London.“

Mættu þér í blíðu

Hvaða ráð mundir þú gefa sjálfum þér tvítugum?

„Mættu sjálfum þér og öðrum í blíðu, vertu heiðarlegur og hugsaðu vel um heilsuna, hún er ekki sjálfgefin.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera með fjölskyldunni?

„Það er án efa risaeðluleikur með syni mínum og að spjalla um hjartans mál við unnustu mína, hana Ellen M. Bæhrenz, sem var einmitt að útskrifast úr leikaranámi LHÍ!

Nú þegar maður hugsar út í það þá lítur ekki út fyrir að sonur minn muni hafa mikið um sinn starfsvettvang að segja, það er ef reynslan hefur kennt manni eitthvað.“

Hvað ætlarðu að gera í sumarleyfinu þínu?

„Hamast við að slaka á og láta mér líða vel, það þarf ekki að vera flóknara.“

Að mæta sjálfum sér og öðru fólki í blíðu er …
Að mæta sjálfum sér og öðru fólki í blíðu er ráð sem hann gæfi sér ungum. mbl.is/Saga Sig
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál