„Verð á Spáni í haust að dansa flamenco“

Árelía Eydís með barnabarni sínu, Eydísi Ylfu.
Árelía Eydís með barnabarni sínu, Eydísi Ylfu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir sem þekkja Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og rithöfund vita að hún er stöðugt að uppfæra líf sitt og læra eitthvað nýtt. Árelía Eydís er ákaflega glaðlynd og skemmtileg kona. Hún er frumkvöðull í eðli sínu sem þorir að breyta til í lífinu.

Um þessar mundir er hún að leggja lokahönd á nýja bók sem hún er að skrifa.

„Þessa bók skrifa ég með Herdísi Pálu Pálsdóttur mannauðsstjóra hjá Deloitte. Bókin mun bera heitið: Völundarhús tækifærannna og er um framtíðartrend á vinnumarkaði. Við fjöllum meðal annars um markaðstorg þekkingar og reynslu og að hver og einn getur unnið hvar sem er, með hverjum sem er, að hverju sem er. Starfsferill okkar er gerbreyttur og þær breytingar verða stöðugt hraðari.

Hins vegar fer mestur tími minn þessa vikuna í að vera með Eydísi Ylfu barnabarni mínu en ég er amma í barneignarleyfi því dóttir mín og tengdasonur eru farin að vinna og sú stutta ekki komin með dagmömmu. Þetta er dásamlega skemmtilegt og ég er öll í smjöri og borða afganga upp úr gólfinu. Ég var búin að steingleyma hvað maður er upptekinn þegar eins árs gamalt barn er á heimilinu allan daginn.“

Margar á krossgötum á miðjum aldri

Skáldsagan Slétt og brugðið eftir Árelíu Eydísi hefur selst vel frá því hún kom út í byrjun sumars. Sagan er skemmtileg samtímasaga um konur á besta aldri.

„Hún gerist í samtímanum en samt fyrir heimsfaraldurinn. Freyja, aðalpersóna bókarinnar, er 49 ára gömul kona sem vinnur á líknardeild sem hjúkrunarfræðingur. Hún er í saumaklúbbi sem byrjaði að hittast í menntaskóla. Þær eru sex saman og ein af þeim, Edda, er besta vinkona Freyju, sem fékk hana inn í klúbbinn á sínum tíma. Þær hafa vaxið hvor í sína áttina eins og gengur og hittingar þeirra eru orðnir nokkuð fyrirsjáanlegir og kannski smá yfirborðskenndir þegar ein úr saumó fær þá hugmynd að gera eitthvað annað en venjulega. Þær fara að kynna sér gyðjur frá ýmsum tímum og heimshlutum og það verður til þess að ýta þeim út úr sínum þægindahring ef svo má að orði komast. Þær horfast í augu við þrár sínar og langanir og breyta lífi sínu í kjölfarið. Sumar mikið en aðrar feta sig áfram næstu skref eða taka nauðsynleg næstu skref í lífi sínu. Gyðjurnar verða þeim þar með ákveðin „inspírasjón“.“

Árelía Eydís er sannfærð um að við stöndum allmargar á krossgötum á miðjum aldri og gerum þar af leiðandi breytingar á lífi okkar.

„Það er alltaf einhver uppfærsla í gangi hjá mér. Ég er núna í rannsóknarleyfi og ætla að nýta tækifærið þar sem ég sinni rannsóknarvinnu minni á Spáni í haust að læra spænsku og dansa flamenco. Ég hef hvorugt gert áður og hlakka mikið til. Mér finnst mikilvægt að prófa nýja hluti og halda áfram að læra. Þar fyrir utan eru rannsóknarefni mín tilefni til stöðugrar uppfærslu. Ég er núna að skoða hvað verður til þess að sumar konur á miðjum aldri sem eru í forystu í atvinnulífinu kjósa að hætta í starfi og gera eitthvað allt annað. Þessa rannsókn vinn ég meðal annars með meistaranemanda mínum, Írisi Hrönn. Síðan er ég líka að vinna úr rannsóknum á aðstæðum svokallaðra „giggara“ á vinnumarkaði og gögnum um framtíðartrend á íslenskum vinnumarkaði.“

Árelía Eydís Guðmundsdóttir er um þessar mundir í rannsóknarleyfi. Hún …
Árelía Eydís Guðmundsdóttir er um þessar mundir í rannsóknarleyfi. Hún ætlar að dvelja á Spáni í vetur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er góður skóli að eiga skemmtilegar vinkonur?

„Það er ekki bara góður skóli heldur að mínu mati ein af forsendum farsæls lífs. Ég er svo heppin að eiga dásamlegar vinkonur sem hafa borið mig á erfiðum stundum og samglaðst mér þegar vel gengur. Veitt mér kjark til þess að taka næstu skref og reist mig upp þegar ég hrasa. Þær sýna mér hvað er hægt að gera og verða, eru mér fyrirmynd og hvetja mig til þess að vaxa. Vinskapur kvenna er endalaus uppspretta kærleika og hláturs, stundum gráts en oftast gleði. Ég hef framkvæmt mörg af mínum „frægustu“ heimskupörum með vinkonum en líka unnið marga sigra með þær að baki. Hver kona skyldi leggja mikla áherslu á að rækta vinkonur sínar og fjölskyldu.“

Að sveigja starfsferil eftir lífsstílnum

Hvernig er að starfa í háskólanum?

„Ég er dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Í því felst að ég kenni ákveðna kúrsa á mínu sviði sem er aðallega leiðtogafræði og þau svið sem það fræðasvið tengist. Ég kenni mest á meistarastigi, bæði í MBA-náminu og í meistaranámi okkar, en í grunnnámi kenni ég kúrs um framtíðarvinnumarkað. Þar fyrir utan stunda ég rannsóknir eins og komið hefur fram. Mínar rannsóknir eru mest um forystu og starfsferil fólks og um vinnumarkaðsfræði. Ég sinni líka stjórnunarskyldu en við erum jafningasamfélag sem skiptum á milli okkar stjórnunarstörfum. Ég er nýstigin úr stjórn Viðskiptafræðistofnunar þar sem ég er nú í rannsóknaleyfi fram að áramótum. Starfið í hnotskurn snýst því um samskipti í kennslu og stjórnun og rannsóknavinnu en þetta eru ólíkir þættir.“

Hvaðan færðu þennan drifkraft í lífinu og sjálfsvirðingu að eiga svona margt gott skilið?

„Það er góð spurning. Ég er ekki hrædd við að velja rangt og prófa mig áfram og reyni að finna það sem veitir mér ánægju hverju sinni og þannig hef ég fundið út hverjir styrkleikar mínir eru.

Í nýju bókinni minni köllum við þetta að byggja upp færnimöppu í stað ferilskrár.“

Hvaða ráð áttu fyrir fólk sem er að finna sinn farveg í lífinu?

„Ég myndi hvetja fólk áfram að hugsa hvaða lífsstíl það vill lifa og velja út frá því. Starfsferill er orðinn eins og völundarhús og fólk fer inn og út úr stöðu launþega eða á hefðbundnum vinnustað, giggar í einhvern tíma, fer í nám erlendis og verður svo aftur launþegi. Við förum ekki lengur í nám, finnum vinnu og förum síðan á eftirlaunaaldur. Núna eru miklu fleiri tækifæri til þess að sveigja starfsferilinn eftir lífsstíl sínum. Þú getur unnið hvar sem er að viðfangsefnum þínum og vinnustaðir eru að breytast hratt í það sem við köllum samkomustaði. Fólk getur valið að vinna hluta heima, hluta á vinnustað eða í sameiginlegu vinnurými. Ég mæli því með að fólk kynni sér vel hvað er í boði og sé óhrætt við að gera mistök. Þannig lærum við mest um okkur sjálf. Eins þurfum við að hugsa til langs tíma því með auknu langlífi verðum við mjög lengi á vinnumarkaði og við erum algjörlega ábyrg fyrir okkar eigin lífshamingju. Mikilvægast er að finna hvaða merkingu vinnan eða verkefni ljá lífinu. Það er af hverju maður er að gera það sem maður gerir eða ætlar að gera.“

Árelía Eydís er glaðlyndur og skemmtilegur fræðimaður sem fær fólk …
Árelía Eydís er glaðlyndur og skemmtilegur fræðimaður sem fær fólk með sér í lífinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Er sannfærð um að yfir henni er vakað

Hún segir viðskiptafræði við Háskóla Íslands frábært almennt nám sem nýtist vel til þess að opna sýn á atvinnulífið og líka að byggja upp fjármálaþekkingu og þekkingu á stjórnun og markaðsfræði.

„Á þeim vinnumarkaði sem við erum á núna þarf maður stöðugt að vera að læra. Eftir að bók mín, sem heitir Sterkari í seinni hálflfeik, kom út árið 2017 segir fólk stundum við mig að það sé með ónýta kennitölu. Þá spyr ég það hvaða námi það var í síðast. Þekking okkar úreldist hratt ef við erum ekki alltaf að læra. Það er til formlegt nám eins og viðskiptafræði en hins vegar eru líka til allra handa námskeið. Það má viða að sér þekkingu með ýmsum hætti og eru stöðugt fjölbreyttari leiðir í boði.“

Hverju ertu góð í sem enginn veit um?

„Fáir nema þeir sem þekkja mig mjög vel vita að mér finnst gaman að syngja. Ég tel mig hafa hæfileika þar, eða þannig. Mig langar alltaf að syngja í hljómsveit svo ef einhver les þetta og vill stofna hljómsveit þá er ég til! Ég hef sæmilega hæfileika eða auga fyrir myndefni og að raða saman fatnaði og hlutum. Kannski ekki eins og flestir gera. Oftast finnst fólki ég setja of marga liti saman, því ég set saman það sem gleður mig. Svo langar mig að búa til skartgripi.“

Hvað myndir þú segja þér sjálfri 20 ára ef þú gætir gefið þér ráð þá?

„Ég myndi segja henni að fara ekki í megrun aftur. Vera ástúðlegri og kærleiksríkari í sinn garð og reyna að læra sem allra fyrst að bjarga ekki öðrum en sjálfum sér. Ég myndi segja henni að finna leiðir til þess að hætta að reyna að gera öðrum til geðs en reyna í staðinn að finna eigin langanir og þrár. Ég myndi segja henni að tilfinningar séu áttavitinn og það sé mikilvægt að finna fyrir þeim. Ég myndi segja henni að yfir henni sé vakað og þegar lífið verður erfitt þá muni hún sjá seinna að öll lífsreynsla sé til þess að þroskast og vaxa.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »