Óttast að pabbi fari að syngja í veislunni

Það eru margir sem muna eftir Helenu Lapas úr Stundinni okkar þar sem hún stýrir, ásamt fleirum, smáseríum sem snúast um girnilega matargerð, glymjandi rokktónlist og ævintýralegar bækur svo eitthvað sé nefnt. Nú er hún að fara að fermast og er orðin mjög spennt fyrir því. 

Helena Lapas lýsir sér sem hressri fótboltastelpu sem bráðlega fer að fermast.

„Ég er ekki komin langt með sjálfan fermingarundirbúninginn en ég ætla bara að reyna að hafa gaman og hafa alla í stuði. Fermingarveislan verður haldin hérna heima, alveg eins og fermingarveisla stóru systur minnar, og reyndar líka á sama stað og fermingarveislan hennar mömmu var haldin, en hún bjó hér í þessu húsi þegar hún fermdist. Ég ætla bara að fá sem flesta úr fjölskyldunni og kannski einhverjar vinkonur og hafa skemmtilega veislu, þar sem verður borðaður góður matur og ég verð í stuði.“

Hvaða þýðingu leggur þú í ferminguna?

„Það er góð spurning. Mér finnst fermingardagurinn svona eins og að fara upp á næsta stig í lífinu. Svona viðburður þar sem maður getur talað um fyrir og eftir fermingu. Maður er auðvitað ekkert orðinn fullorðinn en þetta er svona ákveðið millistig.“

Er komin á að vera í klassískum fermingarkjól

Ertu búin að finna fermingarkjólinn og hvernig verður hárið?

„Ég er búin að fara svolítið fram og til baka með kjólinn. Fyrst var ég að spá í að vera í svona venjulegum sparikjól. Svo fann ég engan sem mér fannst nógu fermingarlegur, svo ég er eiginlega komin á það að vera í klassískum fermingarkjól, svona hvítum blúndukjól sem ég sá í búð sem heitir Kjólar og konfekt á Laugaveginum.“

Þegar kemur að hárinu langar Helenu að gera smávægilegar breytingar.

„Ég er að spá í að fá mér smávegis strípur í fyrsta skiptið í hárið á mér og láta aðeins klippa það.

Ég er ekki búin að ákveða alveg hvernig hárgreiðslan sjálf verður. Ég held ég vilji vera með krullur og síðan finnst mér mjög þægilegt að hafa hárið aðeins frá andlitinu, svo ég held ég taki svona fremsta partinn frá.“

Hér er Helena ásamt móðir sinni, Jónu Björk Helgadóttur og …
Hér er Helena ásamt móðir sinni, Jónu Björk Helgadóttur og systur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágætur boðskapur að vera góður við náungann

Hvernig hefur fermingarfræðslan verið og hvað hefur þú helst lært?

„Fermingarfræðslan hefur verið skemmtileg, enda höfum við vinirnir verið saman í henni. Ég þekkti auðvitað ekkert allar þessar sögur af Jesú en hef heyrt þær núna. Síðan finnst mér boðskapurinn í fermingarfræðslunni bara sannfærandi; það er almennt ágætisboðskapur að vera góður við náungann.“

Helena er óviss um hvað hana langar í í fermingargjöf.

„Það kemur mér eiginlega á óvart hvað það er erfitt að svara þessari spurningu. Mig langar í ferðalag og er sólarlandaferð með fjölskyldunni langefst á blaði. En svo veit ég ekki hvað mig langar í fleira. Ný tölva væri auðvitað alger snilld en svo má ég kannski búast við því að fá einhvern pening og get þá keypt svona hluti sem mig vantar.“

Helena er opin og skemmtileg og ætlar að halda litla ræðu þegar gestirnir eru mættir í veisluna.

„Ég mun kannski segja þeim líka hvað verður boðið upp á og svoleiðis. Ég er svo sem ekki að fara að vera með neitt uppistand heldur býst ég við að hafa þetta nægilega stutt til þess að mamma fari ekki að gráta! Ég er samt ekkert sérstaklega feimin að standa upp og tala. Ég hélt meira að segja ræðu í fermingu stóru systur minnar fyrir sex árum, þá var ég sjö ára að aldri. Sú ræða snerist meira og minna um það hvað hún væri frábær systir. Ég reikna að sjálfsögðu með að hún borgi mér það til baka í minni veislu.

Mamma og pabbi verða örugglega með einhverja væmna ræðu. Samt hræðist ég mest að pabbi syngi í veislunni eða nái í ukulele og glamri eitthvað á það. Hann er mjög slakur söngvari og enn verri ukulele-leikari, og hann veit það best sjálfur, en hann söng samt í fermingu eldri systur minnar. Bara til að vera fyndinn held ég eða það vona ég.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »