Forðast leiðinlegt fólk og fýlupúka

Ólafur Örn Ólafsson er mikill stemningsmaður.
Ólafur Örn Ólafsson er mikill stemningsmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Örn Steinunnar Ólafsson veitingamaður nýtur þess að grilla með fjölskyldunni. Þegar Óli dregur fram grilltangirnar fá allir eitthvað við sitt hæfi, sérstaklega unglingarnir á heimilinu. 

Hvernig pabbi ert þú?

„Ég held ég sé bara ágætispabbi með endalaust framboð af hágæðapabbagríni og orðaleikjum.“

Hvað er mest krefjandi við föðurhlutverkið?

„Fyrir utan ábyrgðina sem fylgir því að ala upp drengi til að vera almennilegir, víðsýnir menn og femínistar sem virða mörk og bera virðingu fyrir ólíkum hópum, er það sennilega dræmar móttökur við því endalausa framboði af hágæðapabbagríni og orðaleikjum sem eru í boði.“

Hvert fer fjölskyldan saman út að borða?

„Við förum ekki mikið út að borða öll saman, en öllum finnst gaman að búa til mat heima þótt smekkurinn sé ólíkur. Okkur finnst öllum gaman að borða grillmat og grillum mikið af fiski og grænmeti fyrir suma og kjúklingi og hamborgara fyrir önnur. Sennilega fáum við okkur oftast kebab þegar við borðum saman utan heimilis, svona fyrir utan Brút auðvitað.“

Hvað gerðuð þið saman í sumar?

„Við fórum til Portúgal sem var geggjað! Eyddum nokkrum dögum í Lissabon við að ganga upp og niður brekkur og skoða alls konar fallegt og skemmtilegt. Síðan slökuðum við á í strandbænum Cascais sem er rétt utan við Lissabon og er æði. Mjög róleg og afslöppuð stemning og mikið af góðum fiski og skelfiski og Vihno verde í öll mál.“

Litlu gulu sporvagnarnir eru áberandi í götumynd Lissabon.
Litlu gulu sporvagnarnir eru áberandi í götumynd Lissabon. mbl.is/Ómar Óskarsson

Áttu þér uppáhaldsborg?

„Ég hef alltaf ferðast mikið og finnst mjög gaman að heimsækja nýja staði og borgir. Sennilega er þó New York í mestu uppáhaldi hjá mér af þeim borgum sem ég hef heimsótt oft.“

Ljósmynd/Unslpash/Luca Bravo

Hvað gerið þið skemmtilegt saman um helgar?

„Í mínum bransa eru helgar oftast vinnutími, svo það er ekki mikil dagskrá. Svo eru drengirnir, sem búa með okkur á heimili, orðnir unglingar og þeirra dagskrá er oft ansi þétt. En við höfum öll gaman af kvikmyndum og gerum dálítið af því að horfa á bíó saman. Við förum líka stundum á skíði saman á veturna.“

Hvað borðar þú í morgunmat?

„Ef ég fer í vinnuna snemma er það Flat white með haframjólk og Croissant á Kaffi Ó-le en morgunmatur heima er handuppáhellt kaffi og grísk jógúrt með ávöxtum og hunangi eða ristað brauð með osti og sultu.“

Ljósmynd/Colourbox

Hvernig heldur þú þér í formi?

„Ég geng mikið í vinnunni og þarf oftast að labba upp tröppurnar heima nokkrum sinnum á leiðinni út, því ég gleymi alltaf einhverju. Svo fer ég líka í ræktina og tek harkalega á því með 90's teknó í botni í eyrunum. Svona þegar ég er ekki fótbrotinn.“

Hvað gerir þú til þess að slaka á?

„Ég er mjög góður í að slaka á og finnst ekkert betra en að liggja í sófanum með vínglas og horfa á góðar sjónvarpsseríur eða fótbolta.“

Hvað reynir þú að forðast í lífinu?

„Leiðinlegt fólk og fýlupúka.“

Hvaða bók last þú síðast?

„Af einhverjum ástæðum er ég nánast hættur að lesa bækur. Er reyndar að lesa bók um leiðtogaþjálfun akkúrat núna. En síðasta skáldsagan var Tilfinningar eru fyrir aumingja eftir Kamillu Einars.“

Hvað ert þú að horfa á núna?

„City on a hill er sennilega það sem tekur mest pláss núna og ég get ekki mælt nógu mikið með. En er alltaf með nokkrar seríur í gangi í einu.“

Hvaða snjallforrit notar þú mest?

„Samkvæmt skráningu í símanum mínum er Twitter í efsta sæti í síðustu viku, Messenger í öðru og Woodoku í þriðja.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »