Gengurðu með metsölubók í maganum?

Páll Valsson kennir námskeið hjá EHÍ um ritun ævisaagna.
Páll Valsson kennir námskeið hjá EHÍ um ritun ævisaagna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er ekki endilega eins flókið og fólk heldur að skrifa áhugaverða ævisögu og segir Páll Valsson að oft sé erfiðasta skrefið einfaldlega að setjast niður og byrja skrifin.

Ævisögur og endurminningar skipa sérstakan sess í íslenskum bókmenntum og leika stórt hlutverk við varðveislu sögu og menningar þjóðarinnar. Páll Valsson segir að það blundi í mörgum að rita eigin ævisögu, eða segja sögu annarra, og að verkefnið sé ekki eins óviðráðanlegt og margir vilja stundum halda.

Páll er rithöfundur og útgáfustjóri og hefur um árabil kennt námskeiðið Að rita ævisögur og endurminningar hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Námskeiðið er á dagskrá á vorönn og hefst kennsla 1. febrúar.

Sjálfur hefur Páll bæði skrifað nokkrar vinsælar ævisögur og ritstýrt fjölda þeirra og segir hann að kveikjan að námskeiðinu hafi verið sá fjöldi fyrirspurna sem bárust frá fólki sem dreymdi um að gera bókaskrif að veruleika.

„Það er stundum sagt að sérhver Íslendingur gangi með bók í maganum, og viðtökurnar við námskeiðinu virðast sýna að það er nokkuð til í því. Á námskeiðið hefur komið alls konar fólk sem langar að skrifa eigin æviminningar en einnig fólk sem hefur fengið upp í hendurnar handrit, dagbækur eða slíkt efni og veit ekki hvað það á að gera við þetta. Svo eru aðrir sem langar einfaldlega að taka saman fróðleik um eigið lífshlaup og forfeðra sinna til að geta miðlað til nýrra kynslóða. Síðastnefndi hópurinn stækkar hratt, enda hefur lífið í landinu breyst gríðarlega á undanförnum áratugum og það sem við miðaldra fólkið munum eftir er í huga unga fólksins framandi veröld sem var.“

Vanmeta eigin getu

Að sögn Páls er erfiðasta skrefið yfirleitt að byrja að skrifa. Mikið vinnst með því einu að setjast niður við lyklaborðið og byrja að koma orðum á blað. Hvert verkefni hefur sín sérkenni, og engar tvær ævisögur eru eins, en með leiðsögn getur fólk átt auðveldara með að átta sig á hvaða efnistök og framsetning hentar best.

„Á námskeiðinu fjalla ég m.a. um ævisögur og minningaskrif sem bókmenntaform og miðla af eigin reynslu sem ævisagnahöfundur, og hvernig ég og aðrir höfundar höfum leyst úr ýmsum vandamálum sem við höfum staðið frammi fyrir.“

Reynslan hefur kennt Páli að fólk vanmetur gjarnan eigin getu til að skrifa góðan texta og vanmetur einnig hversu áhugaverða sögu það hefur að segja. „Útkoman úr því sem fer fram á námskeiðinu hefur verið ákaflega góð. Margir nemendurnir hafa reynst mjög vel skrifandi og flestir búa að merkilegri lífsreynslu eða áhugaverðri ættarsögu. Það eru mjög margir á miðjum aldri ágætlega ritfærir og oft þarf ekki mikið meira en að peppa fólk svolítið upp og fá það til að skrifa meira og bæta sig enn frekar.“

Ævisögur og skáldsögur ekki algjörar andstæður

Meðal þess sem höfundur þarf að gera upp við sig er hvort verk hans eigi að vera mjög þröngt afmarkað eða viðamikið. Segir Páll gott að reyna að fá snemma í ferlinu sem besta yfirsýn yfir efni bókarinnar og velja sögunni rétt snið: „Stundum er við hæfi að fylgja þeim sem bókin fjallar um frá vöggu til grafar, en í öðrum tilvikum er kannski gæfulegra að einblína t.d. á ákveðið æviskeið eða tiltekinn mótandi atburð fyrir viðkomandi.“

Einnig þarf fólk að gera upp við sig hvernig það hyggst vinna með heimildir og hvað þarf að gera ef göt eru í frásögninni.

„Oft er talað um ævisögur og skáldsögur sem algjörar andstæður, en það er ekki alls kostar rétt. Skáldskapur, ályktanir og vangaveltur út frá heimildunum geta stundum hjálpað ævisagnaritara að komast nær hinu sanna en ef aðeins væri fylgt hinum beinhörðu heimildum. Við ræðum það vandlega á námskeiðinu hver útkoman getur verið ef menn leyfa sér að ganga aðeins lengra með það efni sem þeir eru að vinna með,“ útskýrir Páll.

„Þetta getur verið vandmeðfarin list en ef vel tekst til kemstu kannski nær þeim sem bókin fjallar um og útkoman getur verið bæði skemmtileg og gagnleg lesandanum.“

„Oft er talað um ævisögur og skáld- sögur sem algjörar …
„Oft er talað um ævisögur og skáld- sögur sem algjörar andstæður, en það er ekki alls kostar rétt,“ segir Páll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bókmenntaform í þróun

Páll segir ævisögur hafa notið sérstakra vinsælda á Íslandi í gegnum tíðina og að þær hafi oft verið með vinsælustu bókum í jólabókaflóðinu. Því miður virðist þetta bókmenntaform núna eiga í vök að verjast. Finna má ýmsar mögulegar skýringar á dalandi vinsældum ævisagna:„Hér áður fyrr var t.d. heimildagildi ævisagna ótvírætt. Með því að eignast ævisögu einhvers frægðarmennis var fólk um leið að eignast heimildarit sem hægt var að nota til að fletta upp alls kyns sögulegum staðreyndum. Í dag er mikið af slíkum upplýsingum komið á vefinn og hægt að finna þær með aðstoð Google,“ segir hann.

Önnur möguleg skýring er sú að fólk notar samfélagsmiðlana í auknum mæli til að segja áhugaverðar sögur úr eigin lífi, skrásetja merkilega viðburði, eða hreykja sér af alls kyns afrekum í einkalífi, starfi, listum eða pólitík. Þetta gæti átt þátt í minnkandi eftirspurn eftir ævisögum enda eiga forvitnir hægt um vik að nota samfélagsmiðlana til að hnýsast um einkahagi fólks. „Ég held að þetta bókmenntaform muni því smám saman taka breytingum og að ævisagnahöfundar muni þurfa að fara nýjar og óhefðbundnari leiðir til að fanga athygli lesenda. Ævisagan verður að hafa upp á eitthvað meira að bjóða en það sem hægt er að finna á netinu.“

Hollt að skrifa

Útgáfuheimurinn hefur líka tekið breytingum og notar Páll námskeiðið líka til að fræða upprennandi höfunda um hvernig best sé að bera sig að til að ná athygli útgefenda, ef fólk sækist eftir slíku. Sumar aðferðir eru þar gagnlegri en aðrar, og stundum er feikinóg að gefa verkið út á eigin spýtur.

„Og eins getur stundum verið upplagt að fá aðstoð frá sérfræðingi, ef efniviðurinn reynist vera mjög áhugaverður en líka krefjandi að eiga við og skrifa um.“

En hvort sem útkoman úr skrifunum er lítið fróðleiksrit fyrir nánustu ættingja, eða handrit að metsölubók og tímamótaverki, þá segir Páll að flestir séu sammála um að það sé mjög gott að skrifa og koma hugsunum sínum og reynslu á blað. „Það getur verið mjög gott fyrir líðan fólks og þroska að fara yfir fortíðina og skrásetja atburði, og það er margsannað að sú athöfn að skrifa leysir úr læðingi einhverja krafta og alls kyns nýjar hugmyndir kvikna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál