Meðalgesturinn drekkur 2 til 3 bolla af kaffi og 2 til 3 glös af gosi

mynd með viðtali um praktísk atriði f. fermingarveisluna. Jenný Jóakimsdóttir …
mynd með viðtali um praktísk atriði f. fermingarveisluna. Jenný Jóakimsdóttir veit hvað þarf mikið af veitingum í veisluna. Kristinn Magnússon

Þegar kemur að veisluhöldum getur margborgað sig að leita ráða hjá Leiðbeiningastöð heimilanna. Um er að ræða þjónustu á vegum Kvenfélagsambands Íslands þar sem sérfræðingar svara spurningum um allt sem viðkemur matseld, þrifum og góðu heimilishaldi.

Vill oft verða annasamt hjá Leiðbeiningastöðinni þegar styttist í fermingarveislutímabilið enda getur það verið heljarinnar áskorun að halda stórt boð.

Jenný Jóakimsdóttir starfar hjá Kvenfélagasambandinu og segir hún að stundum þurfi fermingarveislur að hafa meira en árs aðdraganda: „Á það við ef að fólk hyggst leigja tiltekinn sal undir veisluna að vissara er að vera mjög tímanlega á ferðinni. Við erum með veislusal hér á Hallveigarstöðum og erum núna strax byrjaðar að taka við pöntunum fyrir fermingarveislur á árinu 2024, og hingað hringir fólk í örvæntingu sem fór of seint af stað og er núna að leita að lausum sal undir veislu sem er handan við hornið.“

Einnig er vissara að bóka veisluþjónustu tímanlega, vilji fólk ekki annast matreiðsluna sjálft. „Þar er slagurinn ekki jafn harður og í veislusölunum en vitaskuld eru veisluþjónustunum takmörk sett með það hversu mörgum fermingarveislum þær geta sinnt á sama deginum.“

Það borgar sig að panta fermingarsalinn snemma.
Það borgar sig að panta fermingarsalinn snemma. Brooke Lark/Unsplash

Reikni með 12 til 15 bitum á mann

Að sögn Jennýjar er allur gangur á stærð fermingarveislna og undir hverjum og einum komið að ákveða hvort látið er nægja að bjóða nánustu ættingjum, eða öllum fjölskylduvinum og frændgarðinum eins og hann leggur sig. Þarf þó að muna að eftir því sem gestunum fjölgar verða veisluföngin dýrari og segir Jenný gott að fylgja ákveðnum þumalputtareglum hvað viðkemur skammtastærðunum:

„Ef boðið er upp á smárétti er eðlilegt að miða við 12 til 15 bita á mann, en 10 bitar gætu dugað ef það er boðið upp á kransaköku með,“ útskýrir hún. „Haldi fólk í staðinn hefðbundið kaffihlaðborð má gera ráð fyrir 2 til 3 skömmtum af heitum eða köldum réttum á hvern gest og 2 til 3 tertusneiðum. Erfitt er að færa þessar þumalputtareglur yfir í grömm en til að hafa betri tilfinningu fyrir því hve mikið magn þarf þá má miða við að einn skammtur af brauðrétti sé nóg til að fylla einn fjórða af kökudiski.“

Má jafnfrant miða við að hver gestur drekki á bilinu 2 til 3 bolla af kaffi og 2 til 3 glös af gosdrykkjum og er hvert glas 2,5 til 3 desilítrar. „Síðan gæti þurft að endurskoða magnið í samræmi við samsetningu gestahópsins. Ef stór hluti gestanna er börn má minnka viðmiðin en ef von er á mörgum stórum karlmönnum sem taka vel til matar síns gæti þurft að bæta við.“

Það getur reynst vel að reikna magn á mann eins …
Það getur reynst vel að reikna magn á mann eins og Jenný gerir. Junior Reis/Unsplash

Fari ekki fram úr sér í fjölbreytninni

Mörgum þykir ágætt að eiga mikið af matarafgöngum að veislunni lokinni en Jenný segir þó mega greina merki um breytt við horf og að það þyki ekki endilega óheppilegt ef maturinn í veislunni klárast heldur til marks um að vera með á nótunum og forðast matarsóun. „En ef fólk sér fram á að mikill matur verði afgangs þá er ágætt að það séu réttir sem auðvelt er að setja í frysti svo að veisluréttirnir fari síður til spillis,“ segir hún. „Þá er góð regla að vera ekki með of fjölbreytt veisluborð: ef ótal réttir og kökur eru í boði sjá gestirnir sig knúna til að smakka sem mest og meiri líkur á að matur fari til spillis. Betra væri að hafa færri rétti og svo einfaldlega bæta á borðið eftir þörfum.“

Spurð hvaða rétti væri sniðugt að bera fram segir Jenný að möguleikarnir séu endalausir. Oft er fermingarbarnið haft með í ráðum og þá þarf að gæta þess að taka tillit til sérþarfa sumra gesta s.s. ef þeir vilja ekki neyta dýraafurða, hafa fæðuóþol eða ofnæmi. „Í dag er algengt að fólki sé boði til veislunnar í gegnum Facebook og getur þá tiltekið þar hvers kyns sérþarfir. Veisluþjónusturnar eru alvanar að leysa úr þessum málum og bjóða upp á heppilega kosti.“

Ekki hafa of margar kökutegundir.
Ekki hafa of margar kökutegundir. Brooke Lark/Unsplash

Ekki geyma lax á borði í langan tíma

Jenný bætir því við að gott sé að fá aðstoðarfólk til að hjálpa við framkvæmd veislunnar. Oft fylgi starfsmenn með veislusölum og iðulega er vinafólk boðið og búið að leggja hönd á plóg. Þarf m.a. að skreyta fyrir veisluna, raða á borð, halda veisluborðinu snyrtilegu og bæta á eftir þörfum, og að lokum ganga frá, þrífa og klára uppvaskið. „Að fá þessa hjálp þýðir líka að foreldrarnir hafa betra tækifæri til að njóta dagsins og eru ekki á jafnmiklum þeytingi og ella,“ segir Jenný og bætir við að ágætis sparnaðarráð sé að endurnýta skraut úr eldri fermingarveislum. „Það þarf ekki endilega að kaupa allt nýtt og má t.d. nota fermingarveisluhópa á Facebook til að auglýsa eftir skreytingarefni eða skiptast á notuðu skrauti.“

Það getur líka hjálpað fólki að spara að sjá sjálft um matseldina og baksturinn, að hluta eða í heild, og algengt í fermingarveislum að blanda saman heimagerðum réttum og mat frá veisluþjónustu. Jenný segir að ekki skyldi vanmeta þá vinnu sem fer í að elda ofan í stóran hóp gesta og gæti þurft að leggja nokkra daga undir innkaup og matseld. „En gestgjafarnir geta líka stytt sér leið og margt sem hægt er að kaupa tilbúið út úr búð, sem gerir það mun einfaldara að galdra fram veislurétti.“

Loks minnir Jenný á að passa vandlega upp á hreinlætið, gæta að hættunni á krossmengun og að halda veisluréttunum köldum. „Þarf fólk að fara sérstaklega varlega ef boðið er upp á lax eða skelfisk og mega slíkir réttir ekki standa lengi á veisluborðinu við stofuhita. Gott er að miða við að hafa reyktan eða grafinn lax frammi í að hámarki tvo tíma.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál