Bein tenging við náttúruna

Anna G. Sverrisdóttir.
Anna G. Sverrisdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Það sem er einstakt við staðinn er það hvernig einn af hverunum sem standa við vatnsborð Laugarvatns er nýtanlegur beint til gufubaða,“ útskýrir Anna. „Hann hefur verið nýttur sem slíkur í rúmlega hundrað ár svo vitað sé með vissu, og vafalaust lengur, en fyrstu húsin voru reist yfir hann árið 1929. Og þarna er maðurinn að nýta enn eina gjöf jarðar, sér til vellíðunar og heilsubótar.“

Beinn jarðhiti - engin rör

Að Laugarvatni Fontana fá gestir heilnæma gufuna í góðum skömmtum, en bæði gufan og hitinn hafa góð áhrif á mannslíkamann, bæði andlega og líkamlega, að sögn Önnu. „Í gufunni að Laugarvatni Fontana er bein tenging milli manns og jarðhita, því hitinn fer ekki um nein rör eða annars konar tæki til að stýra honum; gestir stýra hitanum inni í gufu sjálfir með því að hleypa inn lofti um gluggana og gera rifu milli stafs og hurðar. Hér eru engir takkar til að snúa heldur er frágangur allur með náttúrulegum hætti. Efnainnihald í vatni og gufu getur skipt máli og fólki líður afskaplega vel eftir gufuböð hjá okkur. Jafnvel eftir eina einustu heimsókn finnur fólk hjá sér góð áhrif. Að bregða sér nokkrum sinnum í gufuna og kæla sig á milli hefur margvísleg áhrif. Gufuböðin eru góð fyrir húðina og í reynd er um að ræða afeitrun gagnvart ýmsu óhreinu sem fer inn í líkamann,“ bætir Anna við. „Hitinn er einnig mjög góður fyrir liði, stoðkerfi og vöðva. Auk gufunnar erum við einnig með sánu að finnskri fyrirmynd, sem nefnist Ylur, ásamt þremur laugum; Sæla nefnist langa setlaugin sem skartar mörgum fallegum steinlistaverkum með rennandi vatni eftir Erlu Þórarinsdóttur; Lauga er dýpst af þeim og þar er fyrir bragðið hægt að hreyfa sig enda bjóðum við stundum upp á vatnsleikfimi í henni. Loks er Viska, heiti potturinn, þar sem allir eru jafnir þegar sest er niður; þar ræðum við og leysum málin, skiptumst á skoðunum og viskan fær að njóta sín. Fyrir því er jú hefð um land allt og heiti potturinn er okkar heimavöllur þegar taka þarf brýn mál til kostanna.“

Fögur eldfjallasýn

Laugarvatn Fontana býður upp á fleira en bara gufurnar, eins og Anna bendir á. Þar er aukinheldur að finna laugar sem henta ákaflega vel til slökunar. „Þá má ekki gleyma því að laugarnar eru allar undir berum himni svo gestir njóta þess ennfremur að fá heilnæmt og frískt loft í leiðinni. Á flestum dögum njóta þeir þess líka að hafa gott útsýni yfir Laugarvatnið sjálft og veðursældin er mikil hér á svæðinu.“ Þegar gestir láta fara vel um sig í einni af þremur laugum staðarins, Laugu, Sælu og Visku, sést jafnan yfir að eldfjöllunum nafnkunnu, hinni víðfrægu Heklu og nýstirninu Eyjafjallajökli sem kom sér rækilega í fréttirnar árið 2010, bendir Anna á. „Einkum er gaman að sjá Heklu frá degi til dags; stundum er hún nærri, stundum fjarri, en alltaf er hún breytileg. Þá eru ótvíræð lífsgæði fólgin í því fyrir okkur Íslendinga að geta slakað á og látið fara vel um okkur í heitu vatni jafnvel þótt snjór sé yfir öllu. Fá lönd geta leyft sér þann munað því heitt vatn er bara notað í innilaugum, víðast hvar. En við njótum lífsins undir berum himni, jafnvel á köldum árstímum. Sú nýting heita vatnsins er sérstaða út af fyrir sig, og þó við Íslendingar séum vön þessu þá er þetta gríðarlega sérstakt sem upplifun fyrir útlenda gesti. Veturinn er nefnilega ekki síður sérstæður í upplifun hér í Fontana – að liggja í ljúfum hita og vellíðan í ljósaskiptunum, jafnvel í frosti og undir dansandi norðurljósum, það gefur ekki svo lítið.“

Ögrandi nánd við náttúruna

Anna segist ekki þekkja þess önnur dæmi hérlendis að almenningi sé opinn aðgangur að jarðhitagufu sem sett er upp með sama hætti og hjá Laugarvatni Fontana, þar sem jarðhitinn yljar viðstöddum milliliðalaust. „Það er óneitanlega dálítið ögrandi, bæði fyrir Íslendinga og erlenda gesti, að komast í þessa beinu snertingu við náttúruna. Maður heyrir jú í hvernum undir fótum sér, og finnur lyktina af efnaríku vatninu. Við endurbyggingu á gufuklefunum var ákveðið að hafa í heiðri stærðina sem var á gömlu klefunum, svo þeir eru fyrir bragðið með dálítið hráu og jafnvel drungalegu yfirbragði. Allt er í sama anda og var í gömlu klefunum.“ Anna bætir því við að gömlu klefarnir hafi óneitanlega haft sinn sjarma enda séu sumir sem sakni þeirra. Engu að síður hafi lengi staðið til að bæta þá aðstöðu; fyrstu hugmyndir um úrbætur á þeim hafi komið fram árið 1969, í blaðagreinum í Morgunblaðinu. Sumarið 2011 hafi svo endurbætt aðstaða loks verið opnuð almenningi.

Sagan lifir á Laugarvatni

Sem framar greinir stendur menning heitra baða á gömlum merg á Laugarvatni. „Hér við hliðina á okkur höfum við Vígðulaug, sem er ekki eins heitur hver eða um 38°C, og þangað fóru höfðingjarnir af Þingvöllum árið 1000 til að skírast til kristinnar trúar. Þeim leist ekki á að láta skírast í vatninu að Þingvöllum því það er svo kalt. Svo þeir gerðu sér ferð til Laugarvatns þar sem þeir vissu af hinni heitu Vígðulaug. Svo klárlega hefur staðurinn verið notaður til baða frá landnámsöld. Reyndar hefur laugin fallið svolítið saman og er sjálfsagt enn eitt dæmi um fornminjar sem við þurfum að sinna betur,“ segir Anna. „En í kringum laugina er mikil saga, bæði í kringum kristnitökuna en einnig kemur hún við sögu í kringum siðaskiptin, þegar hálshöggvin lík Jóns Arasonar og sona hans voru flutt frá Skálholti til Akureyrar; þá var áð við Laugarvatn og líkin lauguð í Vígðulaug. Svo það er rík saga sem býr í heitu laugunum að Laugarvatni.“ Anna rifjar ennfremur upp að Vígðalaug hafi gegnum aldirnar haft á sér orð fyrir að búa yfir lækningarmætti, einkum fyrir augun. „Svo fólk sem kemur að Vígðulaug dýfir í hana fingri og strýkur yfir augun á sér, í þeirri trú að vatnið sé heilnæmt og bæti sjónina.“

Hitinn nýtist á ýmsa vegu

Þá minnist Anna á annað notagildi sem felst í jarðhitanum að Laugarvatni. „Fyrir utan að sjá byggðarlaginu fyrir upphitun þá notum við jarðvarmann til að baka hér brauð á hverjum degi, bæði fyrir íbúana og eins fyrir ferðamenn. Þetta geta gestir Laugarvatns Fontana séð á hverjum degi kl. 15:00 þegar við tökum upp brauðin, og það finnst útlendingum alveg hreint magnað – að sjá brauðin tekin upp og fá svo að smakka. Til þess notum við sandinn sem liggur að hvernum; við gröfum aðeins ofan í sandinn og þar er brauðið bakað. Þarna er komið annað dæmi um náttúruundur sem okkur Íslendingum þykir kannski ekki ýkja merkilegt en útlendingum þess frekar því þetta þekkist ekki í mörgum öðrum löndum. Eins var þessi sami hver lengi notaður sem almenningsþvottahús þar sem fólk úr bæjarfélaginu og nærsveitum þvoði sinn þvott.“

Margt á döfinni hjá Laugarvatni Fontana

Meðal þess sem er á dagskránni hjá Önnu og félögum hjá Fontana er hjólreiðamót sem haldið verður 1. september en keppendur ljúka keppni á því að slaka á í baði í Laugarvatni Fontana. „Við erum einnig oft með lifandi tónlist hjá okkur, upplestur fyrir erlenda ferðamenn og fleira í þeim dúr; við höfum alltaf áhuga á að bæta við slíkum viðburðum.“ Þegar talið best að frekari uppbyggingu aðstöðunnar verður Anna leyndardómsfull á svip. „Ég veit til þess að eigendur hafa áhuga á því að bæta enn meira við af vatnstengdri aðstöðu en hvað það verður er leyndarmál um sinn. En það er ýmislegt spennandi á prjónunum til að gera staðinn enn betri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »