Lykillinn að velsæld er að vita hver maður er

Sólveig Þórarinsdóttir jógakennari.
Sólveig Þórarinsdóttir jógakennari. mbl.is/Styrmir Kári

Í jógasetrinu Sólum er boðið upp á hugleiðslu, gong-slökun og jóga, meðal annars í heitum sal, ásamt næringarráðgjöf, markþjálfun, vinnustofum og viðburðum. Með vorinu er von á þekktum erlendum gestakennurum úr jógaheiminum og í ágúst leiðir Jimmy Barkan hot yoga-kennaranám í Sólum, það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

„Við Íslendingar erum almennt mjög opnir fyrir nýjungum en höfum þó alltaf verið ákaflega líkamsmiðaðir þegar kemur að heilsurækt og ekki horft á stóra samhengið – mikilvægi þess að sameina andlega og líkamlega iðkun,“ segir Sólveig Þórarinsdóttir, jógakennari og eigandi jógasetursins Sólir vestur á Granda. „Mér fannst sárvanta hér vettvang fyrir heilsurækt í víðum skilningi og það varð kveikjan að stofnun Sóla síðastliðið vor.

Í Sólum bjóðum við upp á mismunandi tegundir af jóga, en líka hugleiðslu, gong-slökun, markþjálfun og næringarráðgjöf og allar veitingar eru frá Systrasamlaginu, lífrænar og heilnæmar. Við höfum náð að skapa hér ákaflega friðsælt og fallegt samfélag, í orkustöð sem nærir bæði líkama og sál, og erum afar þakklát fyrir þær frábæru viðtökur sem við höfum fengið. Umgjörðin á sinn þátt í upplifuninni en það fylgir því ákveðin stemning að iðka jóga í húsnæði þar sem áður var unninn fiskur.“

Aukin sjálfsþekking

Sólveig er menntaður viðskiptafræðingur og starfaði við verðbréfamiðlun þegar hún ákvað fyrir nokkrum árum að snúa við blaðinu og einbeita sér að jóga. Hún er með kennsluréttindi frá Absolute Yoga Academy, með áherslu á hatha- og ashtanga-jóga, og kennir absolute jóga í Sólum í heitum sal, fimm daga vikunnar. „Mér finnst lykilatriði að vera alltaf til staðar og ef ég er ekki sjálf að kenna eða sinna einhverjum verkefnum sæki ég tíma hjá öðrum í Sólum. Þegar ég var sjálf að byrja mína jógaástundun hefði ég gjarnan vilja njóta meiri stuðnings og ráðgjafar og því legg ég mikið upp úr því að við sem tilheyrum Sólateyminu séum jógaiðkendum til halds og trausts. Starfsemin stendur auðvitað ekki og fellur með mér, heldur byggir hún á frábærum kennurum og starfsfólki Sóla sem allt hefur lyft með mér grettistaki.“

Spurð út í hugrækt og jógaiðkun okkar Íslendinga segir Sólveig mikla vitundarvakningu hafa orðið hér hin síðari ár um ávinninginn af því að stunda hugleiðslu og jóga og það sé ekkert skrýtið að þessi heilsurækt höfði til svo margra. „Jóga er mögnuð leið til þess að hlúa að líkama og sál og sjálf stunda ég heitt jóga vegna þess að ég get ekki án þess verið. Jóga hefur breytt mér til hins betra og hjálpað mér á ótal vegu við að segja skilið við svo margt í mínu lífi sem gerði hvorki mér né öðrum gott. Tilvera mín er nú hlýrri og betri og lífið innihaldsríkara og einfaldara. Það er laust við átök og um leið streitu, sem er ein mesta heilsuvá okkar tíma.

Mér finnst eins og ég hafi öll „stækkað“ í jákvæðum skilningi með aukinni sjálfsþekkingu en í mínum huga er það lykillinn að velsæld og hamingju að vita hver maður er. Umburðarlyndi gagnvart sjálfri mér og öðrum hefur líka aukist til muna, núna myndi ég ekki láta mér detta í hug að rífa sjálfa mig niður, hvorki með neikvæðum hugsunum né orðum. Við erum mörg hver afar óvægin í eigin garð, dæmum okkur hart, og í mínu tilviki jaðraði það við ofbeldi. “

Sólveig Þórarinsdóttir.
Sólveig Þórarinsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

364 daga á ári

Í Sólum eru jógaiðkendur á öllum aldri, bæði byrjendur og lengra komnir, og daglega tínist inn nýtt fólk sem er forvitið að prófa, að sögn Sólveigar. „Það er ótrúlega gaman og gefandi að fylgjast með fólki uppgötva jóga. Hingað kemur þverskurðurinn af þjóðinni; atvinnuíþróttafólk, öryrkjar og allir þar á milli. Viðkvæðið hjá þeim sem eru að byrja er mjög oft „æ, ég er svo stirð/ur“, en svo kemur undantekningalaust í ljós að fólk getur mun meira en það heldur. Hér eru allir á sínum eigin forsendum og fara eins langt og þeir treysta sér til. Það er svo skemmtilegt að upplifa hve fólk er óhrætt við að blanda saman ólíkum tegundum jóga og þannig dýpka þekkingu sína.“

Sólveigu finnst mikilvægt að bjóða upp á jóga alla daga vikunnar – og að lágmarki 364 daga á ári. „Frá því að jógastöðin var opnuð í maí í fyrra höfum við bara haft lokað einn dag og það var á jóladag. Á rauðum dögum hefur fólk einmitt tíma til að sinna sjálfu sér og gera eitthvað uppbyggilegt og hvað er þá betra en að fara í jóga. Í Sólum leggjum við áherslu á fjölbreytnina, þar liggur okkar helsti styrkur, og við fáum reglulega til okkar gestakennara, höldum vinnustofur og efnum til spennandi viðburða, tengda hugleiðslu og jóga. Meðal þeirra má nefna Sólardjamm; mánaðarlegan viðburð þar sem fólki gefst tækifæri til að iðka jóga undir kynngimögnuðum áhrifum frá fullu tungli. Þetta eru mjög kraftmiklir og heilandi tímar þar sem við sleppum tökunum og leyfum jóga oftar en ekki að flæða yfir í seiðandi dans.“

Ævintýri á Taílandi

Aðspurð segir Sólveig margt spennandi framundan í Sólum á nýja árinu. „Við byrjum með því að leiða hóp jógaiðkenda í jóga- og heilsuferð til Taílands um miðjan janúar, þetta verður sannkallað ævintýraferðalag um eitt fegursta svæði heims. Í janúar munum við líka auk nýrra jóganámskeiða bjóða upp á hópnámskeið í markþjálfun, fyrir þá sem vilja setja sér markmið í byrjun árs og ná meiri árangri í lífi og starfi.

Í lok apríl fögnum við eins árs afmæli Sóla með ýmsum hætti og þá kemur í heimsókn Lucas Rocwood, stofnandi Absolute Yoga Academy. Hann er einn af stóru nöfnunum í jógaheiminum og við erum afar spennt að fá hann hingað til lands til að kenna í Sólum. Annar þekktur gestakennari, sem von er á á næstu mánuðum, er Eddie Stern, ashtanga jógi frá New York.

Síðast en ekki síst ber að nefna að í ágúst næstkomandi bjóðum við upp á kennaranám í hot yoga, RYT200, og er það í fyrsta sinn sem kostur er á slíku námi á Íslandi. Það er enginn annar en Jimmy Barkan sem leiðir hot yoga-kennaranámið í Sólum og við erum ákaflega stolt af því samstarfi.“

Jóga í Sólum

Absolute-jóga

„Heitt jóga. Í seríunni eru 50 fremur hefðbundnar hatha-jógastöður, sem nánast allar eru framkvæmdar í kyrrstöðu, og því hentar þessi sería sérstaklega vel fyrir byrjendur. Unnið er á víxl með jafnvægi og stöðugleika, styrk, teygjur og slökun, með virkri öndun allan tímann.“

Barkan-jóga

„Heitt jóga. Lögð er meiri áhersla á flæði (vinyasa). Farið er í helstu stöður úr hatha-jóga og þær tengdar saman með sólarhyllingum eða vinyasa. Þótt vinyasa sé líkamlega krefjandi hentar það einnig þeim sem eru nýlega byrjaðir að stunda jóga þar sem hægt er að aðlaga tímann að iðkendum og gera hann auðveldari.“

Jóga nidra

„Áreynslulaus, útafliggjandi slökun og leidd hugleiðsla sem krefst engrar þekkingar á meðal iðkenda. Það er ekki síst af þessum sökum sem jóga nidra hefur notið vaxandi vinsælda í hinum vestræna heimi á undanförnum árum.“

Yin-jóga

„Lögð er megináhersla á aukinn liðleika og einbeitingu. Í tímanum er hægur taktur þar sem farið er í fjölmargar teygjur og þeim haldið í lengri tíma en venja er í hefðbundnum jógatímum. Uppröðun æfinga er með þeim hætti að unnið er með öll svæði líkamans, frá fótleggjum að miðju, út í axlir, handleggi og úlnliði.“

Ashtanga-jóga

„Kraftmikil, öguð jógasería sem samanstendur af jógastöðum og djúpri öndunartækni. Iðkendur eru leiddir í gegnum sólarhyllingar, standandi stöður og nokkrar sitjandi stöður, lokastöður og endað á góðri slökun. Ashtanga-jóga hentar bæði byrjendum og lengra komnum og er iðkað í léttupphituðum sal.“

Kundalini-jóga

„Mjög markvisst og kröftugt jógakerfi með eflandi jóga, öndunaræfingum, hugleiðslu, möntrum og slökun. Kundalini-jóga hentar bæði byrjendum og jógaiðkendum sem hafa reynslu af öðru jóga.“

Pilates

„Klassískar pilatesæfingar á dýnu samkvæmt æfingakerfi sem Joseph Pilates hannaði á síðustu öld. Æfingarnar byggjast á samspili hugar og líkama og kallaði Pilates sjálfur æfingakerfið contrology, eða art of control.“

Mömmujóga

„Styrkjandi og nærandi hreyfing fyrir mæður og ungbörn frá aldrinum sex vikna. Áhersla er lögð á jóga fyrir móðurina, styrkingu eftir fæðingu, teygjur og slökun með barninu.“

Fjölskyldujóga

„Gæðastund fyrir foreldra og börn með leik, jóga og slökun. Tímarnir eru byggðir upp eins og krakkajógatímar, farið er í leiki og jógastöðurnar eru léttar þannig að allir geti verið með. Fjölskyldujóga er fyrir börn á aldrinum 2-12 ára og foreldra þeirra.“

Sólveig Þórarinsdóttir.
Sólveig Þórarinsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál