Hlupu maraþon í Norður-Kóreu

Almar Örn Hilmarsson, Ari Hermann Oddsson og Haukur Þór Lúðvíksson …
Almar Örn Hilmarsson, Ari Hermann Oddsson og Haukur Þór Lúðvíksson að hlaupi loknu.

Almar Örn Hilmarsson, Ari Hermann Oddsson og Haukur Þór Lúðvíksson eru nýkomnir heim frá Norður-Kóreu þar sem þeir hlupu maraþon. Þeir lentu í miklum ævintýrum í ferðinni og segja að margt hafi komið á óvart. 

„Hugmyndin að því að fara í þetta hlaup kviknaði hjá mér árið 2015 þegar ég hljóp Laugavegshlaupið á Íslandi með Ara Hermanni og Hauki Þór. Ég fór um það leyti að viðra það við þá að fara í þetta hlaup því mér fannst landið áhugavert og langaði til að sjá það með eigin augum en ekki með augum vestrænna fjölmiðla eða stjórnmálamanna. Þeir eru sem betur fer nógu klikkaðir til að segja já við svona hugmyndum og við slógum til síðasta haust og skráðum okkur í hlaupið í gegnum sænska ferðaskrifstofu sem sá um að skipuleggja ferðina og útvega vegabréfsáritun,“ segir Almar í samtali við Smartland. 

Þegar Almar er spurður að því hvort það hafi ekki verið snúið að komast inn í landið segir hann svo ekki vera. 

„Það var í raun frekar létt að komast inn í landið og til dæmis geta landamæraverðir í mörgum öðrum löndum lært kurteisi og viðmót af norðurkóreskum starfsbræðrum sínum. Það er auðvitað líka þannig að í Norður-Kóreu ertu ekki á eigin vegum, þú fylgir bara þínum hópi með þínum leiðsögumanni og því kannski þarf að hafa minni áhyggjur af þeim sem hleypt er inn í landið. Norður-Kóreumenn hafa mestar áhyggjur af því að maður sé að koma með einhverja óviðeigandi hluti (til dæmis bara mynd af manni í sundskýlu) til að menga þeirra menningu. Ef maður bara fylgir þeim fyrirmælum þá er allt í lagi,“ segir Almar.

Ferðin gekk þó ekki slysalaust því fluginu þeirra frá Beijing var aflýst og því þurftu þeir að fara í 21 tíma ferð með rútu, lest og flugi til að komast til Pyongyang, þar sem hlaupið fór fram.

„Við komum á hótelið kl. 01.00 nóttina fyrir hlaup og náðum þriggja tíma svefni – þetta voru því alls ekki kjöraðstæður.“

Ari Hermann og Haukur Þór.
Ari Hermann og Haukur Þór.

Haukur Þór segist hafa fylgst með fréttum af Norður-Kóreu um nokkurn tíma og fannst landið áhugavert, sérstaklega leiðtogi þess, Kim Jong-un.

„Þegar Almar stakk upp á því að hlaupa maraþon þar þá vissi ég samstundis að þarna væri komin snilldarhugmynd og ekki væri hægt annað en að framkvæma hana. Síðasta árið hafa fréttir af Norður-Kóreu breyst frá því að vera stopular fréttir af sérviskulegum símtölum á milli leiðtoga Norður- og Suður-Kóreu á landamærum yfir í að vera daglegar fréttir af viðskiptaþvingunum og yfirvofandi stríði. Við fylgdumst með þróun frétta og sóttum okkur upplýsingar um landið af netinu. Mér fannst líka áhugavert að fá samanburð á vestrænum fréttaflutningi og raunverulegri upplifun. Það má segja að það sé sannleikskorn í flestu því sem maður heyrir um Norður-Kóreu, en mín upplifun er sú að oft eru þær upplýsingar óþarflega neikvæðar og fréttir ýktar. Þarna er samfélag sem er ólíkt því sem við þekkjum og gildin kunna að vera önnur en ég gat ekki séð að þeir Kóreubúar sem ég hitti væru mikið frábrugðnir Íslendingum í hugsun,“ segir Haukur og bætir því við að það hafi verið kuldalegt um að litast þegar þeir lentu í Pyongyang í myrkri og þoku.

„Mér fannst fararstjórinn heldur kuldalegur til að byrja með og maður velti fyrir sér hvort neikvæðustu fréttir af landinu væru réttar og hvernig dvölin yrði. Þegar leið á ferðina öðlaðist fararstjórinn traust okkar og virðingu og reyndist okkur mjög vel sem og aðrir Kóreubúar sem voru með okkur. Öll samskipti voru með vinsemd og virðingu og þegar maður var ekki að fara eftir reglum var kurteislega bent á hvað mætti betur fara. Fljótlega fann ég mig mjög velkominn og öruggan í þessu landi. Það var alltaf margt fólk á ferli, lítið um bíla en flestir á reiðhjóli. Börn voru áberandi og oftast glaðleg í fylgd með foreldrum, ömmum eða öfum. Í sveitunum var fólk úti að vinna við landbúnað, oftast í litlum hópum, líklega af næstu bæjum. Fólk virtist frekar frjálslegt í fasi, tók sinn tíma og naut sólarinnar í og með vinnu. Það kom mér á óvart að tungumálið í Kóreu hljómar töluvert frábrugðið kínversku. Tónar eru lengri og mýkri,“ segir Haukur. 

Almar segir að hlaupaformið á þeim vinunum hafi verið misgott. 

„Við vorum í mismunandi formi og misvel undirbúnir fyrir þetta hlaup. Ari er að fara að keppa í Iron Man í Kaupmannahöfn og Haukur er ofurhlaupari frá náttúrunnar hendi, en sjálfur þarf ég að hafa meira fyrir þessu. Ari æfir mikið en við Haukur æfðum mjög lítið. Ég meiddist í janúar og gat ekki hlaupið nema 30 km á viku sem er 2-3 sinnum of lítið en fyrst maður var búinn að borga og ákveða þetta þá varð bara að láta vaða. Alla jafna þarf maður góða 5-6 mánuði fyrir svona en sá eini af okkur sem hafði verið að æfa vel var Ari,“ segir Almar. 

Haukur segist hafa byrjað hlaupaæfingar í desember en segist hafa farið of geyst af stað eins og vanalega og því hafi hann meitt sig í kálfanum.

 „Ég var því stopp fram í mars. Þá var ég orðinn ágætur svo ég tók 30 km prufuhlaup 11. mars sem heppnaðist vel og hvíldi svo vel fram að maraþoni,“ segir Haukur. 

Hlaupið var ræst eftir opnunarathöfn á Kim Il Sung Stadium að viðstöddum 45.000 áhorfendum.

„Svo var hlaupið í gegnum borgina og meðfram Taedong-ánni og snúið við eftir 21 km og hlaupið sömu leið til baka. Skipuleggjendur keppninnar ákváðu viku fyrir hlaup ad stytta hámarkstímann úr 4 klukkustundum og 30 mínútum í 4 klukkustundir sem þýddi að ég þurfti að eiga mjög gott hlaup til að fá að klára. Þeir sem voru ekki undir 4 klukkustundum urðu að hætta keppni og taka rútu upp á leikvanginn. Það var margt heimafólk að fylgjast með á götunum og yngri kynslóðinni fannst þetta allt saman mjög spennandi. Ég á mér þarna tryggan aðdáendahóp enda ekki á hverjum degi sem þeir sjá tattóveraðan jólasvein að hlaupa. Veðrið lék við okkur og það voru um 18 gráður og sól meðan á hlaupinu stóð,“ segir Almar. 

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég nýt þess að hafa fagnandi áhorfendur á hlaupaleiðinni. Vanalega finnst mér erfitt að einbeita mér og stjórna hlaupatilfinningunni þegar áhorfendur eru að veifa og kalla. En í þetta sinn var stemningin eitthvað svo frábær að ég gat ekki annað en veifað og brosað og gefið high five á áhorfendur. Á fyrri hluta leiðarinnar áttu áhorfendur alla athygli mína,“ segir Haukur. 

Strákarnir náðu allir að klára hlaupið á góðum tíma og enginn þurfti að taka rútuna. 

„Ari hljóp á 3 klukkustundum og 41 mínútu, Haukur á 3 klukkustundum og 24 mínútum og ég á 3 klukkustundum og 57 mínútum. Félagar mínir voru orðnir mjög stressaðir að ég myndi ekki ná að klára. Ég var hins vegar klár á því að loknum 32 km að ég myndi ná þessu og slakaði bara á og naut mín. Ég gaf öllum „high five“ sem vildu og aðstoðaði aðra hlaupara sem voru vatnslausir og svo framvegis. Rétt áður en ég kom yfir endamarkið á pakkfullum vellinum gerði ég „slav pose“ og lýðurinn trylltist. Það var svona hápunktur hlaupsins fyrir mig og vonandi áhorfendur líka,“ segir Almar og hlær. 

„Það var náttúrulega snilld að sjá Almar koma hlaupandi inn á brautina rétt fyrir lokun og heyra fólkið í stúkunni fyrir aftan okkur Ara hrópa „Go Iceland, Go Iceland“ þar sem allir þekktu þennan tattúveraða, skeggjaða víking og auðvitað höfðum við Íslendingarnir verið langlíflegustu gestirnir í hópnum, svo eftir okkur var tekið. Svo þegar Almar er búinn að hlaupa hringinn á leikvanginum stoppar hann fyrir framan lokamarkið og „slavar“ fyrir lýðinn við stórkostlega undirtektir eins og mættur væri á svæðið frægasti Gladiator Rómaborgar,“ segir Haukur. 

„Ég ákvað að hlaupa þetta hlaup eftir tilfinningu. Miðað við prufuhlaupið vikunum áður taldi ég pace 4:45 mín./km hæfilegan hlaupahraða en ég ætlaði að fara hægar af stað fyrstu kílómetrana og láta svo tilfinninguna ráða hvað yrði. Ég treysti ekki fullkomlega kálfanum og var tilbúinn að slá af til að ná 4 tíma tímamörkunum ef hann færi að kvarta. Fyrri hluta hlaupsins kláraði ég á 4:45 mín./km en svo hvessti nokkuð á seinni hlutanum og það reyndist nokkuð erfitt að halda sama hraða. Meðalhraðinn í hlaupinu var 4:51 mín./km og ég var bara mjög sáttur við að halda þeim hraða. Ég missti tvær táneglur og var með töluverðar harðsperrur næstu daga en kom vel út úr hlaupinu og líður vel í skrokknum eftir þetta,“ segir Haukur. 

„Þetta hlaup var í raun andlega mjög létt. Bæði af því að við vorum svo útkeyrðir og svefnlitlir eftir ferðalagið að manni var bara svolítið sama hvernig færi og svo mikið að sjá og svo var merkileg upplifun að hlaupa í gegnum borg sem maður hefur bara heyrt um í einhverjum véfréttastíl. Við myndum allir fara aftur en held að við viljum finna okkur eitthvert nýtt ævintýri í öðru landi. Allir þarna voru gestrisnir og lögðu sig fram um að gera dvöl okkar sem besta. Maturinn var hins vegar ekki neitt spes og þegar maður getur sagt að hundasúpan hafi verið það besta þá er það nokkuð lýsandi fyrir restina,“ segir Almar. 

„Það er eiginlega grundvallaratriði að sofa vel og næra sig fyrir keppni. Þarna var ekkert slíkt í boði og því var ekkert annað hægt en að setja sig bara í gírinn og klára þetta,“ segir Haukur. 

Þegar ég spyr Almar hvort hann hafi hlustað á eitthvað á leiðinni segist hann yfirleitt hlusta á tónlist eða hljóðbækur á hlaupum en hann hafi ákveðið að hlusta ekki á neitt nema í blálokin. 

„Í þessu hlaupi ákvað ég að hlusta ekki á neitt nema í lokin því mig langaði að finna andrúmsloftið,“ segir hann.  

Þegar ég spyr Almar hvort þeir séu ánægðir með hlaupið segir hann svo vera. „Ég held ég geti talað fyrir alla og sagt að við séum stoltir af árangrinum og ánægðir með að hafa kynnst þessu landi með eigin augum. Það var margt sem kom á óvart og þá flest á jákvæðan hátt. Auðvitað er það þannig að okkur er sýnt það sem stjórnendur þarna vilja að við sjáum en við keyrðum þarna um sveitir í fimm eða sex klukkutíma í þessari ferð og þar var ekki möguleiki að ritskoða allt sem fyrir augu bar. Fólk býr þarna við frumstæðan kost, til dæmis hafa bændur ekki vinnuvélar og mest er gert með handafli. Bílar eru færri á ferli og flestir á hjólum. við sáum ekki banka, hraðbanka eða verslanir almennt nema túristabúðir sem við vorum sendir inn í. Ég hef ferðast talsvert og mér finnst þetta minna mig helst á Kyrgystan eða Kazakhstan hvað varðar byggingarstíl og skipulag. Ég hef heimsótt marga betri staði en Norður-Kóreu en líka marga verri. Í landinu eru reglurnar, hvað sem okkur finnst um þær, að minnsta kosti mjög skýrar og reynt að tryggja að fólk hafi til hnífs og skeiðar og geti menntað sig. Það er til dæmis ekki herskylda sem kom mér á óvart. Við vorum sammála félagarnir um að þrír til fjórir dagar væri passlegt þarna. Maður varð svolítið þreyttur á að vera í niðurnjörvaðri dagskrá og geta ekki kynnst landinu á eigin forsendum,“ segir Almar. 

„Mér þætti gaman að koma aftur til Norður-Kóreu en þá vildi ég stjórna ferðinni meira sjálfur. Ég las um hóp sem fór á mótorhjólum um sveitir Kóreu. Hópurinn lagði inn ferðaáætlun og fékk hana samþykkta og ferðaðist svo á eigin vegum. Það má vel vera að ýmislegt megi betur fara í Norður-Kóreu en það má segja um margar þjóðir. Ég vona að þjóðinni takist að þroskast á eigin forsendum og að landið geti opnast meira. Þetta er að mörgu leyti aðdáunarverð þjóð og ég vona að henni farnist vel og takist að færa sig inn í nútímann á friðsamlegum nótum. Þessi heimsókn til Kóreu skilur eftir sig góðar minningar og það situr eftir svolítil væntumþykja til kóresku þjóðarinnar eftir stutt kynni,“ segir Haukur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina