Borgar sjálfri sér fyrir að æfa

Máney ætlar að ná 200 æfingum á þessu ári.
Máney ætlar að ná 200 æfingum á þessu ári. Ljósmynd/Aðsend

Máney Dögg Björgvinsdóttir byrjaði í ræktinni í fyrsta skipti árið 2015 en hlé varð á því þegar hún eignaðist sitt fyrsta barn í janúar 2017. Þegar hún var að koma sér aftur af stað eftir barnsburð kom hún sér upp árangursríku hvatakerfi en Máney borgar sjálfri sér 500 krónur fyrir hverja æfingu.

„Það gekk ekki vel fyrst. Ég var alltaf að byrja, byrja aftur og byrja aftur en datt alltaf úr gír og nennti ekki. Enda bara að reyna að fara eftir gömlum plönum. Mig langaði samt að koma mér almennilega afstað svo ég ákvað að fara í fjarþjálfun,“ segir Máney um það hvernig það var að koma sér af stað eftir barnsburð. Nú er hún í fjarþjálfun hjá Pálínu hjá True Viking Fitness. „Hún er mjög hvetjandi. Skemmtileg æfingaplön sem manni hlakkar alltaf til að fara eftir. Ég hef náð mjög góðum árangri á þessum rétt rúmlega þrem mánuðum.“

Máney var nýbyrjuð í fjarþjálfun þegar hún fékk hugmyndina að hvatakerfinu á Snapchat. „Ég var að horfa á story hjá lexaheilsa sem ég mæli með, hún er mjög hvetjandi. Hún var að sýna frá dagbók sem hún á þar sem hún var búin að setja um svona „æfinga-tracker“, þar sem hún merkir við þegar hún hefur farið á æfingu. Mér fannst þetta svo sniðugt að ég setti uppí Excel og prentaði út. Mitt markið eru 200 æfingar á ári en fannst ennþá meira hvetjandi að safna mér fyrir verðlaununum.“

Svona lítur Excel-skjal Máneyjar út.
Svona lítur Excel-skjal Máneyjar út. Ljósmynd/Aðsend

Það gengur betur hjá Máney að mæta í ræktina nú en áður með þessu sniðuga hvatakerfi. Þegar hún hefur safnað upp 12.500 krónum eftir 25 æfingar notar hún annað hvort allan peninginn eða hluta hans. „Eftir fyrstu 25 skiptin safnaði ég mér 12.500 krónum. Þá keypti ég mér buxur frá M fitness en átti samt afgang sem ég geymdi bara. Eftir næstu 25 skipti var ég komin með 15.000 krónur og keypti mér þá íþróttatopp og peysu frá M fitness. Núna er ég búin að mæta 60 sinnum og með 5.000 krónur inni á reikningum,“ segir Máney sem er ekki búin að ákveða hvað hún ætlar að kaupa sér þegar hún nær 75 æfingamarkmiðinu.

Þrátt fyrir að æfingarnar geri sitt gagn þá skipir mataræðið ekki síður máli. „Þegar ég var yngri var ég ekkert að pæla í því hvað ég borðaði. Borðaði bara það sem var í boði heima og skyndibita ofan á það. Ég flutti til ömmu þegar ég var 15 ára, þegar mamma flutti til útlanda. Ég fékk nánast alltaf að ráða hvað var í matinn og var það oftast pizza, hamborgarar, pylsur og annað óhollt. Þessi matur hafði ekkert rosalega mikil áhrif á mig meðan ég var á fullu að æfa fimleika og dans en ég bætti rosalega hratt á mig um leið og ég hætti. Ég efast um að ég hefði náð þessum árangri 2015 til 2016 og því sem af er þessu ári nema með því að borða rétt án þess að fara í öfgar. Ég spáði lítið sem ekkert í því hvað ég borðaði a meðgöngu enda bætti ég ágætlega vel á mig þá.“

Í sumar ætlar Máney að halda áfram að fara í ræktina enda segist henni líða svo miklu betur þegar hún hreyfir sig. Hún ætlar þó líka að nýta sumarið í að fara út að hlaupa og vera úti með stráknum sínum og fara með honum í sund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál