Lærði að hægja á eftir slys

Sólveig Þórarinsdóttir lentu í vespuslysi á Taílandi
Sólveig Þórarinsdóttir lentu í vespuslysi á Taílandi mbl.is/Árni Sæberg

Sólveig Þórarinsdóttir jógakennari og eigandi Sóla - jóga og hjólastúdíós segir hvíldina vera vanmetna meðal Íslendinga en sjálf lenti hún í hjólaslysi á vespu í Taílandi sem fékk hana til að staldra við og hægja á. 

Slys eru mis alvarleg og þessi reynsla mín auðvitað ekkert í samanburði við hvað margir þurfa að ganga í gegnum. Ég held þó að flestir finni fyrir vanmætti í kjölfar þess að lenda í slysi. Þessi vanmáttur litar svo margt í kjölfarið. Ég fann til dæmis fyrir minna sjálfsöryggi þegar ég byrjaði að hjóla á götuhjóli í vor og öðru eins þegar ég fór aftur á vespu hér í Taílandi en ég kæri mig ekki um að ótti komi í veg fyrir nokkuð á minni vegferð í lífinu. Það er bara ein leið og hún er áfram. Lærdómur minn af þessu er í stuttu máli sá að ég þarf að hægja á mér og gera minna. Ég treysti ferlinu, er þakklát fyrir lærdóminn og að ekki skyldi fara verr,“ segir Sólveig um lífreynsluna. 

„Þetta var daginn fyrir heimför og ég vildi endilega komast út að hjóla og gafst ekki upp á að suða í vinkonum mínum fyrr en þær létu undan. Við vorum ekki á miklum hraða en ég var aftast og eitthvað óþolinmóð og ætlaði framúr. Ég missti stjórn á hjólinu á ójöfnum veginum svo það rann undan mér framúr þeim, svo kom ég á flugi á eftir. Þegar ég var í loftinu fannst mér tíminn standa kyrr og ég var í einskonar samtali við sjálfa mig, eða æðri mátt, þar sem ég var beðin um að hægja á sem ég lofaði að gera ef ég kæmist lifandi frá fallinu. Það eina sem ég hugsaði þegar ég lenti í götunni var að koma mér strax út í kant þar sem umferðin þarna er mjög skrautleg. Til allrar hamingju tókst mér það á svipstundu en fyrir aftan mig var stór sendiferðarbíll.“

Sólveig segir að fólk fái tækifæri til að horfast í …
Sólveig segir að fólk fái tækifæri til að horfast í augu við sjálft sig á jógadýnunni. mbl.is/Árni Sæberg

Hvaða áhrif hafði slysið á þig?

„Áhrifin voru margvísileg og meiri en ég kærði mig um. Í fyrstu er svo mikið adrenalínflæði í líkamanum að sársauki bíður á hliðarlínunni, tilhneigingin til þess að bera sig vel er gríðarlega sterk hjá okkur mannfólkinu svo ég reyndi að afþakka sjúkrabílinn en ég var í mjög góðum félagsskap og við einbeittum okkur að því að anda og jafnvel hlægja til þess að draga úr áfallinu. Þegar við komum á sjúkrahúsið tók annað við en þá tók sársaukinn yfir og bráðamóttakan lítið að spá í því enda öllu vön, ég fékk slæm brunasár, bæði yfirborðs og önnur dýpri á alla hægri hlið líkamans en reyndist óbrotin eftir myndatökur en illa tognuð víða. Innlögn kom ekki til greina fyrir mig svo ég var að endingu leyst út með gríðarlegt magn af lyfjum. Ég er ekki vön lyfjatöku en eins illa og það hljómar þá man ég ekki eftir ferðalaginu heim um nóttina eða hvernig ég komst upp í fjórar flugvélar. En ég náði á áfangastað heim í jarðarför elsku Guðrúnar ömmu minnar í Skagafirði, ég hugsa núna að hún hafi fylgt mér svo ég gæti fylgt henni síðustu metrana.“

Hvað gerðir þú til þess að jafna þig?

„Ég lá einfaldlega fyrir fyrstu tvær vikurnar, í hvert skipti sem ég fór af stað fann ég hvernig mér hrakaði aftur. Mér leið illa og fannst ég verða að bregðast sjálfri mér og öllum í kringum mig. Ég var frá kennslu í nokkrar vikur og minni eigin hreyfingu. Það voru mikilvægar tökur skömmu eftir slysið sem ég vildi ekki missa af, ég lét fjarlægja nánast allar umbúðir og við unnum í tíu klukkustundir og létum allt ganga upp en fyrir vikið varð ég rúmliggjandi aftur í viku. Náttúrulegt ástand líkamans er heilbrigði. Jafnvel smæsta fruma hefur það eina líffræðilega takmark að viðhalda og endurheimta heilbrigði. Vitandi það var auðveldara að tala sjálfa mig til í kollinum en ég fann hversu ósátt ég var við að geta mig hvergi hreyft. Það er aldrei of oft sagt, sérstaklega hjá okkur íslendingum sem erum oftar en ekki á hraðferð, að hvíldin er stórlega vanmetin. Við þurfum að læra að treysta sjálfum okkur betur og hlusta á eigin líkama og innsæi. Þegar við náum að byggja upp þetta traust þá áttum við okkur á að við vitum alveg hvað er okkur fyrir bestu hverju sinni.“

Hvernig getur jóga hjálpað okkur eftir slys? 

„Þegar ég kom fyrst á dýnuna aftur þá gerði ég eina sólarhyllingu og grét svo restina af tímanum, bæði yfir vonbrigðunum að vera í svo slæmu líkamlegu ástandi en einnig af þakklæti fyrir að eiga þennan stað til að koma á og geta heilað sjálfa mig aftur. Ég hef verið svo blessuð að sjá uppbyggingu og endurkomu svo margra í gegnum jóga að það er kraftaverki líkast. Að gera jóga, koma á dýnuna, er eins og að koma heim. Þar færð þú alltaf sannleikann hver sem hann er. Það getur verið að þú fáir ekki endilega það sem þú vilt (eins og til dæmis fína handstöðu eða aðrar jafnvægisstöður) en þú færð það sem þú þarft. Þú færð tækifæri til þess að horfast í augu við sjálfa/n þig, þinn sannleika og staðreyndir í lífinu. Líkamlegt heilbrigði, endurheimt eða keppnisform kemur af sjálfu sér með markvissri ástundun, eitt af þessum náttúrulögmálum sem við getum treyst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál