Var alltaf í tveimur vinnum

Hafdís Árnadóttir eigandi Kramhússins.
Hafdís Árnadóttir eigandi Kramhússins. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Hafdís Árnadóttir er töfrandi persónuleiki sem dansar sig greinilega í gegnum lífið. Það er bæði erfitt að ná í hana og smávegis áskorun að halda í hana í viðtalinu, því að dansgólfið og hreyfing er ástríða hennar. Hún vil heldur sýna hvernig hlutirnir virka en tala um þá. Þeir sem þekkja hana hvað best segja hana langt á undan sinni samtíð. Hún sé brautryðjandi þegar kemur að hreyfingu í landinu. 

Þegar Hafdís stofnaði Kramhúsið gat fólk nánast einvörðungu leitað í klassíska danskennslu og/eða ballett. Hafdís vildi breyta því og hefur svo sannarlega lagt fingrafar sitt á menningarlíf borgarinnar frá þeim tíma.

„Ég hafði rekið leikfimiskóla undir eigin nafni frá árinu 1966. En sá skóli var á pínulitlum þvælingi þar til ég fann þetta fallega bakhús í miðborginni þar sem Kramhúsið er í dag. Í upphafi tók ég húsnæðið á leigu af Hrafni Gunnlaugssyni og síðar keypti ég það af honum.“ Hafdís segist aldrei hafa spáð í það á þessum tíma að hún hafi verið á undan sinni samtíð eða hugrökk. „Ég vissi vel að ég var frumkvöðull á mínu sviði. Enda átti Kramhúsið frá upphafi að vera gróðrarstöð nýrra og ferskra hugmynda. Staður þar sem fólk gæti hitt áhugaverða einstaklinga og prófað nýja hluti í heilsurækt,“ segir hún um tildrög Kramhússins. 

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Megrunarkaramellur og Tab

Blaðamaður man vel þennan tíma, þegar hún leit Hafdísi fyrst augum með mömmu sinni í Kramhúsinu. Í tísku á þessum áratug voru megrunarkaramellur, Tab og Jane Fonda svo eitthvað sé nefnt. Allar helstu skutlur bæjarins sóttu Kramhúsið á þessum tíma. Hafdís var ótrúlega svöl og falleg. Er ég ekki að muna þetta rétt? „Já, þú meinar. Örugglega, viðskiptavinir mínir hafa alltaf verið einstakir og þeir sem sóttu Kramhúsið í upphafi eru margir hverjir hjá mér enn. Við erum samt örugglega komin með þriðju kynslóðina til okkar í dag. En húsnæðið var líka smávegis skrítið, kannski hippalegt og við þóttum örugglega líka smávegis hippar þó að ég hafi verið ríkisstarfsmaður á þessum tíma sjálf og ekkert verið að spá mikið í að vera öðruvísi. Ég var í flæðinu. Það er hugtak sem lýsir mér vel. Já, ég er kona í flæðinu.“

Ríkisstarfsmaður, hvað áttu við?

„Ég kenndi nánast alla mína starfsævi við Leiklistarskóla Íslands. Ég sá um líkamsþjálfun og hreyfinám nemenda hjá Sál, sem var undanfari Leiklistarskóla Íslands. Ég kenndi í Leiklistarskólanum allan minn starfsaldur og síðan fylgdi ég leiklistardeildinni eftir inn í Listaháskóla Íslands og hélt áfram að kenna hreyfilist við leiklistardeildina þar til ég komst á aldur. Kramhúsið var ástríðan mín og áhugamálið mitt. En ég var ung kona á þessum aldri með tvo syni að sjá fyrir svo ég gat ekki leyft mér að stökkva alveg út í djúpu laugina og segja upp starfi mínu á daginn fyrir hugmyndina. Þessi störf gengu samt sem áður svo vel saman. Ég hef alltaf verið með framúrskarandi starfsfólk í Kramhúsinu. Kolbrún Halldórsdóttir var sem dæmi fyrsti framkvæmdastjórinn minn. Það sem einkenndi bæði störfin mín var að ég vann mikið með ungu hæfileikaríku fólki sem var listrænt og gefandi. Það gaf mér þennan neista sem er svo mikilvægt að hafa í lífinu og svo voru allir svo jákvæðir. Ég held ég hafi nef fyrir því að velja jákvætt og skemmtilegt fólk í kringum mig.“

Ríkisstarfsmaður í frumkvöðlastarfi

Hafdís var á þeim tíma þegar hún stofnaði Kramhúsið 45 ára að aldri. Hún lýsir þessum tíma sem umbreytingatíma fyrir konur í landinu. „Orkan í loftinu var mikil. Á þessum tíma voru konur að vakna til vitundar. Ég held að það hafi verið framhald af kosningu Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta. Við vorum sterkar konur. Síðan voru engar smávegis kjarnakonur í leiklistarskólanum. Til dæmis Lísa Pálsdóttir og Guðrún Gísladóttir svo einhverjar séu nefndar. En hugmyndin byrjar öll þar. Ég var að ferðast mikið út af starfi mínu fyrir leiklistarskólann, þar sem ég sótti námskeið erlendis og kynntist þannig erlendum dansstefnum og kennurum.“

Bráðlega eru komin 15 ár síðan Hafdís komst á aldur og hætti sem ríkisstarfsmaður eins og hún segir sjálf. Hafdís er tímalaus í útliti. Hún er fædd á fjórða áratug síðustu aldar en lætur tölu á blaði ekki segja sér neitt til um þann lífsstíl sem hún lifir í dag. Hún kennir 6-7 tíma á viku í Kramhúsinu. Býr í miðborginni og fer á milli staða fótgangandi. Hún er innan um orkumikið yngra fólk og segir: „Ef maður er heppinn með heilsuna sína er dýrðlegt að fá að eldast á þennan hátt.“

Er þetta heppni eða vinna?

„Ég er ekki viss. Kannski bland af hvoru tveggja með smávegis kæruleysi og jákvæðni. Bjartsýni skiptir svo miklu máli, enda tengist andleg heilsa alltaf þeirri líkamlegu.“

Hafdís segir að þegar maður hafi kennt dans jafn lengi og hún hefur gert geti maður lesið af því hvernig fólk beri sig hvernig því líður. „Líkamstjáningin er svo mikil í fólki. Það hvernig þú stendur, dansar og berð þig segir svo mikið til um þitt andlega líf. Þetta tvennt er nátengt.“

Gróðurhús hugmynda

Það sem Hafdísi finnst hvað mikilvægast við Kramhúsið er hlutverk þess að vera gróðurhús hugmynda og dansmenningar í landinu. „Fjölmörg verkefni hafa orðið til í húsinu. Sem dæmi hóf kvennakór Margrétar Pálmadóttur göngu sína í þessu húsi. Það sama má segja um Sirkus Íslands.“

Hafdís er um þessar mundir að þjálfa danshóp sem er fyrsta kynslóð viðskiptavina Kramhússins. Hópurinn, sem er 50 ára og eldri, æfir dans sem verður sýndur á Ítalíu í september. „Við verðum við Adríahaf og erum í ströngum æfingum þessa dagana. Tveir hópar fara frá Kramhúsinu. Minn hópur, sem við Ólöf Ingólfsdóttir danshöfundur sjáum um, notar tónlist sem er sérsamin af Halli Ingólfssyni. Einnig fer karlahópur sem æfir undir stjórn Sóleyjar Jóhannsdóttur. Þetta er viku dansráðstefna fyrir dansandi eldri borgara – Golden Gym.“

Hvaða ár voru bestu árin þín?

„Eftir fertugt gengur allt miklu betur að mínu mati. Þá hættir maður að taka sig of hátíðlega, maður hættir að ritskoða sig og fram eftir götunum. En satt best að segja finnst mér sá aldur sem ég er á hverju sinni alltaf bestur. Á meðan maður hefur heilsuna og fær að þroskast á heilbrigðan hátt.“

Gullkorn frá börnunum best

Hvað með mataræðið, skiptir það miklu máli?

„Já, ekki spurning. Hér á árum áður spáði ég ekki mikið í það hvað ég borðaði. Margir í kringum mig eru vegan. Ég er bara svona hófmanneskja í mat. Borða allt sem er hollt og gott fyrir mig. Mikið af grænmeti, ávöxtum, lambakjöti og fiski. Ég held brauði, sykri og hveiti frá mér. Ég hef aldrei verið fyrir það. Ég held að kúnstin sé að hafa allt í hófi.“

Hvaða ráð gefur þú fólki sem vill eiga gott líf?

,,Að rækta garðinn sinn vel. Það hefur alltaf gefið mér mest. Að rækta samband sitt við fjölskyldu, vini og sína nánustu. Að eiga góðar stundir með þeim sem skipta okkur mestu máli. Ég er á þeim stað í dag að ég er að njóta barnabarnanna minna svo mikið. Maður getur lært endalaust af þeim. Þau koma með gullkorn á hverjum degi. Þegar ég var ung kona með börnin mín tvö var ég svo upptekin af því að eiga nóg og gera það sem ég þurfti að gera að ég heyrði ekki þessi gullkorn barnanna á sama hátt og ég geri í dag. Ég held að það sé eðlilegt og ég held það sé hluti af mínu aldursskeiði að fá að heyra þetta betur. Eins erum við með námskeið fyrir börn á sumrin. Á þessum námskeiðum endurfæðist maður. Ég vil vera sem mest í því. Það sem maður tók sem sjálfsögðum hlut hér áður og það sem fór framhjá manni hér áður, þessar heimspekilegu vangaveltur barnanna, eru gullkorn dagsins í dag.“

Tilgangurinn að vakna til lífsins

Hver er tilgangur lífsins að þínu mati?

,,Já, þegar stórt er spurt. Það er spurning. Ætli það sé ekki að skilja eftir okkur fræ sem síðan vaxa og dafna með árunum,“ segir Hafdís og bætir við. ,,Við skuldum börnunum okkar svo mikið og ég tel hluta af tilgangi okkar hér núna að vakna og fara að gera eitthvað varðandi plánetuna okkar. Heiminn sem við arfleiðum börnin okkar og barnabörn okkar að. Bankabókin skiptir ekki öllu máli, heldur minningarnar sem við sköpum.“

Hafdís er greinilega í flæðinu. Hún segir að þegar hún líti yfir líf sitt í dag sjái hún ekki eftir neinu af því sem hún valdi að gera. „Ég hef alltaf verið sjálfstæð kona. Fór ung að heiman. Einungis fjórtán ára að aldri. Ég er alin upp í sveit, svo að til að verða hluti af borginni þurfti ég fyrst að fara í heimavistarskóla og þar fékk ég tækifæri til að taka ábyrgð á mér fljótt. Þessi saga hefur án efa einkennt karakter minn alla tíð.“

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál