Kostaríka-ferðin breytti lífi Dísu

Dísa Dungal þjálfari í Hreyfingu er bæði sterk og liðug.
Dísa Dungal þjálfari í Hreyfingu er bæði sterk og liðug.

Dísa Dungal er 26 ára gamall einkaþjálfari og hóptíma- og jógakennari hjá Hreyfingu auk þess sem hún á Topp.is þar sem hún aðstoðar fólk sem er í leit að vellíðan og hamingjusömum lífsstíl. Dísa er nýkomin úr jóganámi á Kostaríka sem hún segir hafa breytt lífi sínu.   

„Frá því ég man eftir mér hef ég alltaf verið mjög líkamlega virk nema á einu tímabili, þegar ég var að skríða inn á unglingsaldurinn og leið alls ekki vel. En um leið og ég fann mig aftur í líkamsrækt lagaðist ástandið og ég áttaði mig á því hversu mikilvægt er að gefa sér vinnu í að hugsa um sjálfan sig,“ segir Dísa um hvort hún hafi alltaf hreyft sig mikið.

Að gleyma sér er ekki leiðin að vellíðan

Spurð að því hvað jóganámið í Kostaríka hafi gert fyrir hana segir hún það hafa breytt miklu. „Það breytti lífi mínu gjörsamlega. Ég lærði svo mikið um sjálfa mig, kynntist líkamanum upp á nýtt og fann hvað það er að vera í fullkomnu jafnvægi á öllum sviðum lífsins, líkamlegum og andlegum. Ég fann loksins styrkinn til að byggja upp það líf sem mig hefur dreymt um.“

Er einhver lærdómur úr náminu sem þér finnst að Íslendingar upp til hópa ættu að tileinka sér?

„Að búa á Íslandi er ekkert grín og mörg okkar eru í baráttu við að finna okkur í þessu þétta samfélagi og hörðu vetrum. Aðstæður okkar hér bjóða ekki upp á mikla sól eða útiveru og við þurfum að glíma við kolniðamyrkur stóran hluta ársins. Því leitum við í aðra hluti á borð við bragðgóðan mat og hafa það kósý við sjónvarpið til að gleyma okkur um stund. En raunin er sú að við erum ekki að bæta úr neinu með því að loka okkur frá umhverfinu og með tímanum fer líkaminn að kvarta og senda skilaboð um vanlíðan sem veldur því að við viljum enn þá meiri mat og vera enn þá meira inni til að gleyma, og ómeðvitað endar þetta á að vera niðurdrepandi vítahringur.

Að gleyma sér er ekki leiðin að vellíðan. Sönn vellíðan krefst athygli og vinnu eins og allt annað sem við viljum að dafni. Á námskeiðinu Árangur og dekur, sem ég byrja með í næstu viku, mun ég leiðbeina konum gegnum öll mikilvægustu atriðin til að brjótast út úr þessum vítahring og færa okkur í átt að betra lífi og aukinni vellíðan.“

Lyftir líka lóðum

Dísa er nautsterk og er það ekki bara jóganu að þakka heldur er hún dugleg að lyfta lóðum. Blaðamanni finnst það sérstök blanda en Dísa fullvissar hann um að svo sé ekki.

„Það passar ótrúlega vel saman. Lyftingarnar kenndu mér hvað líkaminn er öflugur, hvað hann getur aðlagast nánast hverju sem er. Jóga kenndi mér að finna mjúku hliðina. Jógað hefur sýnt mér hvernig ég get tengst andlegu hliðinni með líkamanum. Að vera liðugur bætir þig í lyftingum og að vera sterkur einfaldar þér jóga. Þessir tveir þættir verða teknir fyrir á námskeiðinu jafnt sem þolið því við munum líka hafa einn hjólatíma í viku. Þar með tökum við öll svið líkamlegrar hreyfingar – styrk, liðleika og þol.“

Hversu miklu máli skiptir mataræði þegar kemur að því að ná árangri?

„Ég hef farið út og suður með mataræðið mitt, prófað alls konar mismunandi mataræði og held stöðugt áfram. Það sem skiptir mestu máli fyrir árangur er að vera jákvæð og hætta aldrei að huga að heilsunni. Þegar við breytum um lífsstíl þá fylgir hann okkur hvar og hvenær sem er. Það sem er erfiðast fyrir flesta er að taka fyrsta skrefið af alvöru. Hætta að hlusta á hausinn sem alltaf vill ákveða fyrir fram að eitthvað verði erfitt og flókið. Já, það er vinna að breyta um lífsstíl, þá sérstaklega mataræði, en þú nærð aldrei árangri ef þú ert ekki tilbúin að leggja vinnuna í það. Það er algjör misskilningur að heilsusamlegt mataræði sé leiðinlegt og flókið. Við þurfum bara að leggja vinnu í að læra inn á það, móta okkur rútínu og viðhalda henni svo.“

Margir kenna tímaleysi og háum kostnaði um þegar kemur að því að borða hollt, ertu með einhver góð ráð við því?

„Þessar afsakanir eru löngu úreltar. Ef þú hefur ekki tíma til að hugsa um sjálfa þig þarftu einfaldlega að fara forgangsraða öðruvísi. Margir kaupa sér hádegisverð á matsölustöðum oft í viku. Eitt epli eða banani kostar ekki mikið og er fullkomið millimál og þú þarft ekki að eyða neinum tíma í að elda. Hollur matur þarf alls ekki að vera dýrari kostur, við förum klárlega nánar yfir það á námskeiðinu. En þetta snýst allt um rétta forgangsröðun og skipulag. Svo má líka spá í hvers virði það er að líða betur og hafa heilsuna í toppformi.

Eitt sem ég geri gjarnan er að blanda saman í krukku til dæmis höfrum, möndlumjólk með einhverjum fræjum, hnetum, berjum eða hvað sem þér dettur í hug, smá kanil, vanilludropum og salti til að bragðbæta. Skelli henni inn í ísskáp áður en ég fer að sofa og tek með í vinnuna. Einföld, holl, góð og ódýr máltíð, tilbúin til neyslu hvenær sem er. Það er svo margt einfalt og sniðugt hægt að gera til að bæta heilsuna og lífið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál