Hví getur ofurkona farið í veikindaleyfi?

Ásta Hafberg er í veikindaleyfi vegna kulnunar.
Ásta Hafberg er í veikindaleyfi vegna kulnunar.

Ásta Hafberg, viðskiptafræðingur, fimm barna móðir og skáld, segir frá því að það hafi verið mikið sjokk þegar hún komst að því að hún væri komin með kulnun. Hún hélt að hún væri bara með flensu.

„Á vormánuðum skreiddist ég til læknis, búin á því líkamlega og andlega. Ég bjóst við að þarna væri á ferðinni enn ein eitthvað, flensa, gigtin eða bara almennt slen. Þegar ég fékk vottorð í hendurnar sem hljóðaði upp á rúman mánuði í veikindaleyfi fékk ég sjokk. Ég var greind með kulnun.

Það skrýtna við svona hluti er að ég hef fullkominn skilning á veikindum annarra. Ég hef samúð og skilning og óska fólki af einlægni alls hins besta. Skiptir þá engu hvort fólk er veikt í viku eða ár. Ég býst við að allir sem lesa þetta kinki kolli og hugsi já ég líka. Ég hef fullan skilning á veikindum annarra og erfiðleikunum sem það hefur í för með sér,“ segir Ásta. 

Þegar kom að henni sjálfri upplifði hún sig sem algeran aumingja að vera komin með veikindavottorð. 

„Ég var aumingi, þetta var uppgjöf. Það var ekkert að mér nema leti. Ég reif upp 18 hnúta svipuna og hýddi mig huglægt með henni vel og vandlega fyrir aumingjaskapinn. Það má segja að ég hafi notað fyrstu 3 vikurnar í að grenja og vera fúl yfir mínum eigin aumingjaskap og leti.

Eitthvað hefur þó bært á sér ómeðvitað, því á sama tíma fór ég að renna yfir síðustu mörgu, mörgu ár í huganum og að þrem vikum liðnum komst ég líka að þeirri niðurstöðu að staðurinn sem ég er á er bara ekki neitt undarlegur.“

Ásta hefur alltaf lifað annasömu lífi. Hún eignaðist fimm börn, vann, skutlaði börnunum í tómstundir eftir vinnu, sá um heimilið, fór í háskólanám og tók virkan þátt í samfélaginu. Gaf meira að segja út ljóðabók og sat fundi. 

„Ofan á þetta bættust flutningar á milli landa og flutningar á um það bil eins árs fresti vegna þess að ég var á leigumarkaði í nokkur ár á Íslandi. Ég sá líka að í raun hef ég verið með verki og kvilla og andlega búin á því lengi. Maður gerir eins og manni er kennt, bítur á jaxlinn, bölvar hressilega í hljóði og heldur áfram bryðjandi verkjalyf út í eitt til þess að koma sér í gegnum dagana.

Staðan er sú að ég er ekkert að fara út á vinnumarkað næstu mörgu mánuði. Ef ég kemst til vinnu að einhverjum mánuðum liðnum verður það líklega hluta úr degi til að byrja með.“

Ásta segir að það sé erfitt að kyngja því. 

„Það hefur líka verið erfitt að kyngja því að ég verð að skipuleggja dagana vel. Ég verð að velja hvað ég geri á hverjum degi svo ég missi ekki alla orku. Þá erum við að tala um hluti eins og ef ég fæ gesti sem heimsækja mig í tvo tíma þá hef ég ekki meiri orku þann daginn. Þetta er hænuskrefslærdómur. Að læra að ofurhetjur eru ekki ofurhetjur ef þær ná ekki að tanka sig upp. Að læra að vera ekki með stöðugt samviskubit yfir öllu sem ég megna ekki að gera hvort eð er. Að vera þolinmóð og með opinn huga gagnvart því sem liggur fyrir framan mig og taka því af æðruleysi. Að hafa nógu mikla ást á sjálfri mér til að leyfa mér að vera á þessum stað.

Áður en ég upplifði kulnun var þetta orð sem ég hafði heyrt og í mínum huga var þetta einhver tímabundin þreyta og slappleiki sem gengi líklega yfir með góðum göngutúr og meira gingsengi. Mér gat ekki skjátlast meira. Þetta er eins og að verða fyrir valtara sem bakkar svo yfir mann aftur af öllum sínum þunga. Það er engin orka til staðar og allt loft er farið úr manni og það er ekki tímabundið ástand.

Við ykkur ofurfólk þarna úti, sem eins og ég hafið lagt of hart að ykkur í gegnum árin, vil ég segja. Stoppið í 5 sekúndur og hugsið ykkur um. Lífið er meira en ofurhetjur sem brenna í báða enda,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál