Lítið sjálfstraust ekki til

Alda Karen heldur fyrirlestur í Laugardalshöll í janúar.
Alda Karen heldur fyrirlestur í Laugardalshöll í janúar. Kristinn Magnússon

Alda Karen Hjaltalín 25 ára frumkvöðull er á góðri leið með að fylla Laugardalshöll á nýjum Life Masterclass-fyrirlestri sem hún stendur fyrir 18. janúar. Margt hefur gerst síðan Alda Karen fyllti Eldborg í fyrra og vinnur hún nú með sýndarveruleika í auknum mæli til þess að gera fólki kleift að verða besta útgáfan af sjálfum sér en hún segir mikilvægt að huga vel að andlegri heilsu.

Alda Karen starfrækir ráðgjafafyrirtæki í New York þar sem hún vinnur sem fyrirlesari og ráðgjafi. Hún segir að hugmyndin um sýndarveruleikann hafi komið eftir að hún heyrði af rannsókn vinkonu sinnar við John Hopkins-háskólann í Bandaríkjunum en vinkona hennar Hannah Cohen er sérlærð í sýndarveruleika og er ein af stofnendum Osmos Academy sem sérhæfir sig í sýndarveruleikaupplifunum fyrir langveik börn á sjúkrahúsum til að létta lund þeirra.

Alda Karen lýsir sýndarveruleikanum þannig að fólk setji á sig sérstök gleraugu og heyrnartól og fari inn í ákveðna upplifun. Eins og að stíga inn í miðja kvikmynd. Í rannsókn sem Alda og Hannah tóku eftir í John Hopkins-háskólanum gat sýndarveruleikaupplifun gert fólk klárara og voru áhrifin að endast í allt að sex mánuði. Upplifunin í rannsókninni innihélt að hluta að fólk sá sjálft sig sem Albert Einstein og náði hærri einkunnum á prófunum en fyrir upplifunina. „Sýndarveruleikinn gerði þessa nemendur klárari eftir aðeins tíu mínútna upplifun með Albert Einstein,“ útskýrir Alda Karen sem segir þetta einfalt dæmi um hvernig hægt sé að læra betur inn á huga sinn.

Hafa hjálpað fólki að biðja um launahækkun

„Ég heyrði af þessari rannsókn og fór strax af stað af því að háskólafólkið var ekki endilega að hugsa um þetta sem eitthvað frumkvöðlastarf heldur var bara að rannsaka heilann. Ég hugsaði strax hvað fleira getum við gert? Og ég og Hannah fórum af stað að búa til alls konar upplifanir og fórum að bjóða upp á þetta með fyrirlestunum mínum í New York og þetta sló strax í gegn,“ segir Alda Karen.

Þetta er allt frá tíu mínútna upplifunum upp í 30 mínútna langar upplifanir. Alda Karen segir þær hafa hjálpað konu að biðja um launahækkun og fór hún þá í 30 mínútna upplifun þar sem henni var hjálpað að tala við yfirmann sinn áður en hún fór í launaviðtalið.

„Ímyndaðu þér ef þú gætir æft þig fyrir allar aðstæður sem þú gætir lent í í lífinu. Allt í gegnum sýndarveruleika. Það er eins með lífið og allt annað, æfingin skapar meistarann,“ segir Alda Karen. 

Andleg heilsa er ofarlega í huga Öldu Karenar.
Andleg heilsa er ofarlega í huga Öldu Karenar. ljósmynd/Ástrós Erla

Sýndarveruleikaupplifunin er uppseld á fyrirlestri Öldu Karenar í Laugardalshöll en einnig er hægt að fara bara á fyrirlesturinn sem og fá tíma með hugarþjálfara. Alda Karen lýsir fyrirlestrinum í ár sem óhefðbundnum og hún verður ekki ein. Með henni verður Sigríður Á. Pálmadóttir hjúkrunarfræðingur sem kennir sjálfsdáleiðslu. Guðni Gunnarsson stofnandi Rope Yoga talar um innri hamingju og sjálf talar Alda Karen um hraðan árangur.

„Þetta er svona alhliða nálgun á heilann þinn og hvernig þú virkar. Mitt mottó í lífinu er að sama hversu flókið lífið er þá er heilinn þinn alltaf einfaldur, hann er alltaf sá sami. Málið er að kenna honum að hætta að vinna gegn okkur og byrja að vinna með okkur.“

Erum að stíga inn í tilfinningaöldina

Alda Karen segir hún hafi leiðst óvart út í málefni tengd andlegri heilsu. Þegar hún var 19 ára var hún orðin markaðsstjóri hjá Sagafilm. Þar sem hún var ung og í ábyrgðarfullu starfi byrjaði hún að gefa vinum og vandamönnum sem voru að koma sér á framfæri góð ráð. Þegar hún hætti hjá Sagafilm byrjaði hún að vinna sem sölu- og markaðsstjóri hjá Ghostlamp. Áður en Alda Karen flutti til New York til þess að stofna útibú Ghostlamp þar í borg ákvað hún að halda litla fyrirlestra um allt sem hún hafði lært. Í miðjum fyrirlestri gerði hún merkilega uppgötvun.

„Ég ætlaði bara að segja frá öllu sem ég hafði lært um sölu- og markaðssetningu og flytja svo til New York og það bara einhvern veginn sprakk. Það varð allt brjálað og seldist upp á einhverjum klukkutíma. Ég held ég hafi stækkað salinn þrisvar og alltaf seldist upp. Það var svona merki fyrir mig um að fólk vildi heyra hvað ég hefði að segja og vill vita hvernig ég komst svona langt svona ung.

Svo áttaði ég mig á því í miðjum fyrirlestri að ég var ekkert að tala um sölu- og markaðssetningu. Ég var bara að tala um lífið, heilann minn og hvernig ég horfi á hlutina og áttaði mig bara þá á hvað fólk er miklu meira að pæla í andlegri heilsu núna,“ segir Alda Karen sem segir að mannkynið sé nýkomið inn á tilfinningaöldina.

Alda Karen fór þar með að horfa á sölu-og markaðssetningu á annan hátt en áður.

„Ég áttaði mig á því að sala er að sannfæra bæði sjálfan þig og aðra um ákveðna hluti og markaðssetning er að laða að þér það sem þú vilt. Þannig séð notum við sölu-og markaðssetningu í okkar daglega lífi.“

Lítið sjálfstraust ekki til

„Ég hjálpa fólki að vinna grunnvinnuna að sjálfum sér og þekkja sjálft sig og hvernig heilinn þeirra virkar betur þannig það getur hjálpað þeim að verða besta útgáfan af sjálfum sér á nýju ári,“ segir Alda Karen um Life Masterclass 2.

Hvað gerir það fyrir okkur að þekkja okkur betur?

„Það bæði frelsar okkur frá okkar eigin hugsunum og tilfinningunum. Að þekkja hvaðan hugsanir okkar og tilfinningar okkar koma.“

Alda Karen nefnir dæmi um eðluheilann og hún segir til að mynda að hugtakið lítið sjálfstraust sé ekki til. Þetta séu neikvæðar hugsanir úr heilastöð aftan í hnakkanum. Þessi heilastöð sem er betur þekkt sem eðluheilinn þrífst á fjórum meginþáttum, hræðslu, reiði, fjölgun og hefnd. Sem eru einmitt sömu þættirnir á bak við hugsanir sem okkur var kennt að sé lítið sjálfstraust. Í slíkum tilvikum er gott að þekkja hugsanir sínar vel.

Þegar Alda Karen finnur fyrir þessum tilfinningum eða hugsunum fer hún inn á bað og talar við sjálfa sig í spegli. Hún þakkar heilanum fyrir að búa yfir þessum frumstæðu tilfinningum en eins og hann sjái þá er hún ekki í neinni lífshættu.

Alda Karen talar við sjálfa sig í spegli og segir …
Alda Karen talar við sjálfa sig í spegli og segir það hjálpa. Kristinn Magnússon

Alda Karen segir þetta hafa hjálpað sér mjög mikið og enn í dag talar hún við sjálfa sig í spegli. Hún segir það duga skammt að heyra góða lexíu eins og að lítið sjálfstraust sé ekki til ef heilinn fær ekki þjálfun.

„Ég þarf sífellt að vera að minna mig á þetta,“ segir Alda Karen sem lýsir heilanum sínum sem sínum eilífðarherbergisfélaga sem þurfi að halda áfram að þjálfa til að gera hann betri.

„Heilinn þinn er þín besta klappstýra og þú sjálf ert þinn helsti drifkraftur. Ég upplifði það og þá líður manni eins og maður sé „limitless“. Það er einhvern veginn ekkert sem ég get ekki gert og ég ætla mér að ná sem lengst.“

Aðeins 15 teknir inn á ári

„Ég er í samtökum sem heita Masterminds Talks sem eru samtök með frumkvöðlum sem eru að hafa áhrif á heiminn. Inni á síðunni þeirra taka þau fram að það er erfiðara að komast inn í þessi samtök en Harvard-háskólann. Það eru bara 15 manns sem komast inn á ári og ég komst inn árið 2018. Dæmi um fólk í þessum samtökum eru Tim Ferris, Seth Godin, Gary Vaynerchuck og Tracey Foster sem er ein hægri hönd Richard Branson frumkvöðuls með meiru.“ segir Alda Karen þegar hún byrjar að tala um nýtt verkefni sem hún er að vinna að.

Alda Karen fór á sína fyrstu ráðstefnu á vegum samtakanna í september þar sem hún kynntist Jeff Banman sem hún segir að hafi breytt því hvernig bandarískir hermenn eru þjálfaðir. Þau eru nú byrjuð að vinna saman en hún segir hann hafa hætt að vinna fyrir herinn fyrir nokkrum árum og byrjað með hugleiðslusetur þar sem hann kenndi fólki sérstaka öndunartækni sem hann kenndi leyniskyttum.

Með réttri öndunartækni kennir Banman fólki að hafa stjórn á heilanum og hjálpar fólki að hlusta betur á innsæið sitt. Alda Karen og Banman ætla að flétta sýndarveruleikann inn í þetta og eru núna að skoða hvort að þau geti hjálpað hermönnum með áfallastreituröskun sem er mikið vandamál á meðal bandarískra hermanna sem koma til baka úr stríði.

„Þú ert nóg“

Öldu Karen finnst spennandi að færa þekkinguna til Íslands og nefnir í því sambandi kulnun í starfi sem hefur verið mikið í umræðunni á Íslandi. Hún ræðir einnig hversu mikilvæg andleg heilsa er í sambandi við sjálfsvígstíðni og segir fólk ekki veiklyndara nú en fyrir mörgum áratugum. Fólk sé einfaldlega að opna umræðuna.

„Ég held okkur líði alveg jafn illa og fyrir 50 árum nema þá var bara enginn að tala um það. Eins og fyrir 50 árum ef einhver framdi sjálfsmorð þá var ekkert talað um það. Ég þekki nokkra sem misstu foreldri á þennan hátt þegar þau voru börn en var bara sagt að það væri vegna veikinda og svo í seinni tíð þá allt í einu kom sannleikurinn í ljós, þegar þau voru fimmtug, sextug,” segir Alda Karen og nefnir hversu margir hafa framið sjálfsvíg í ár.

Hún segir að einföld setning eins og „þú ert nóg“ geti hjálpað mjög mörgum.

„Stærsti sjúkdómurinn sem skekur mannkynið er hugsunin; ég er ekki nóg. Það er hún sem drífur fólk yfir línuna. Þess vegna vil ég að við séum öll sífellt að segja „þú ert nóg, þú ert nóg, þú ert nóg“. En það getur bjargað svo ótrúlega mörgum mannslífum. Þess vegna enda ég alltaf, alveg sama hvort ég er að tala í tæknifyrirtæki eða skóla, þá enda ég alla fyrirlestra mína á „þú ert nóg“ af því ég veit aldrei hvað einhver sál er að upplifa inni í herberginu.“

Alda Karen segir að ótrúlega marga sem upplifa að vera ekki nóg og ekki allir séu endilega meðvitaðir um það.

„Ég hef fengið mörg skilaboð, síðan ég byrjað fyrir einu og hálfu ári síðan, að tala um þetta, að þetta hafi bjargað lífi fólks og ekki bara þeirra heldur fjölskyldumeðlima. Það þarf að byrja strax í grunnskóla að hamra þetta inn í fólk, þú ert nóg. Af því strax í grunnskóla er farið að segja þér í hverju þú ekki góður í. Þú þarft að vinna í veikleikum þínum, það er það fyrsta sem skólinn segir þér,“ segir Alda Karen að lokum en sjálf er hún með stúdentspróf en segist þó ekki endilega hafa fundið sig í skóla fyrir utan félagslegu hliðina sem fylgdi skólagöngunni. 

Árið 2019 byrjar með trompi í Laugardalshöllinni hja Öldu Karen sem heldur aftur til New York í lok janúar. Þar segir hún segir jafn eðlilegt að hoppa til sálfræðings og að hoppa út í sjoppu.

Hægt er að nálgast miða á fyrirlesturinn sem Alda Karen stendur fyrir í Laugardalshöll hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál