Byrjaði í crossfit til að verða betri pabbi

Benedikt Bjarnason.
Benedikt Bjarnason. mbl.is/Eggert

Benedikt Bjarnason , framkvæmdastjóri GlobalCall, er rúmlega fertugur og hefur aldrei verið í betra formi að margra mati. Hann segist vera sterkari en áður, bæði á líkama og sál og þakkar það reglulegum crossfit-æfingum, góðum svefni og heilbrigðu mataræði. 

„Ég ákvað fyrir nokkrum árum að reyna að verða betri útgáfa af mér til að geta verið til staðar fyrir mig og fjölskylduna mína eins vel og mögulegt er,“ segir Benedikt sem er giftur Rannveigu Tryggvadóttur og eiga þau þrjú börn saman. „Við erum með stórt heimili þar sem er talsvert álag. Eitt af börnunum okkar er með einhverfu og kannski erum við bara þetta dæmigerða heimili þar sem verkefnin eru mörg, en það skiptir mig miklu máli að geta unnið fulla vinnu en einnig tekið þátt í því sem þarf að gera á heimilinu. Ég sef betur og hef meiri orku til að fást við alls konar hluti þegar ég mæti í crossfit sem ég geri fimm sinnum í viku, vanalega í hádeginu.“

mbl.is/Eggert

Eyðimerkurgangan mikla

Benedikt útskýrir að hann hafi alltaf verið duglegur að æfa. Hann hafi stundað knattspyrnu þegar hann var ungur og fram á fullorðinsár. „Upp úr þrítugu tók síðan við þessi eyðurmerkurganga þar sem maður fór á milli líkamsræktarstöðva að reyna að finna hreyfingu sem ætti vel við mann. Í crossfit fann ég svo loks aftur klefastemninguna sem ég saknaði út hópíþróttunum. Andinn er einstakur og við erum öll jöfn þarna inni. Við deilum reynslu okkar og fíflumst, síðan þegar við erum búin á æfingu förum við öll í okkar daglegu verkefni aftur. Í klukkustund á dag fæ ég að hreinsa hugann alveg af amstri dagsins.

Það var svo fyrir u.þ.b. tveimur árum að ég fór að taka þetta markvissara. Mig langaði að bæta mig. Þá breytist aðeins hugarfarið og maður fer að gera æfingar sem maður er almennt lélegur í. Og þótt ég sé algjör meðalmanneskja í þessari íþrótt get ég núna ýmislegt sem ég gat aldrei áður. Ég get t.d. gengið á höndum, gert svokallað „muscle-up“ í hringjum og árið 2019 er markmiðið að geta farið heljarstökk aftur á bak. Þetta eru allt hlutir sem mér hefði fyrir nokkrum árum aldrei dottið í hug að ég gæti. Auðvitað er þetta langhlaup en þetta er bara svo skemmtilegt og þolinmæðin verður meiri fyrir vikið.“

Aðalmálið að sögn Benedikts er þó að þegar hann fær þessa líkamlegu og andlegu útrás þá virðist allt annað falla á réttan stað. „Líkaminn vill síður ruslmat og ég sofna þreyttur og sæll fyrr á kvöldin. Auðvitað má bæta ýmislegt í mataræði og ég er að vinna í að bæta svefninn en í heild hefur þessi útrás sem ég fæ í crossfit sjálfkrafa bætt mataræði og svefn. Mestu máli skiptir þó að ég tel mig mæta skemmtilegri heim eftir vinnu og þannig er maður vonandi betri faðir og maki. Þannig er maður vonandi ekki síður að hreyfa sig fyrir börnin sín.“

Hvernig virkar crossfit? „Þetta er í raun og veru blönduð þjálfun þar sem við erum í úthalds-, lyftinga- og fimleikaæfingum. Þetta eru æfingar sem gera mann hæfari líkamlega og koma manni í betra form. Maður verður seint fullnuma en maður verður talsvert flinkari með tímanum.“

mbl.is/Eggert

Allir geta stundað crossfit

Benedikt leggur áherslu á að allir geti stundað crossfit en hann segir hina gullnu reglu þá að maður skyldi fara varlega af stað. „Það hentar mér hversu ólíkar æfingarnar eru. Það er hægt að þreyta mann í crossfit á þúsund mismunandi vegu. Á einni og hálfri mínútu eða 30 mínútum; það fer eftir áreynslu og æfingunni.“

Hvernig hefur mataræði þitt breyst?

„Ég borða meira af grænmeti og prótíni. Líkaminn kallar á efni sem byggja hann upp í svona æfingum. Allt sem er óhollt er á undanhaldi þótt það læðist alveg inn á matseðilinn endrum og sinnum.“

Að mati Benedikts er crossfit fyrir alla. Hann segir iðkendur vera þverskurð af samfélaginu. „Í crossfit er fólk á öllum aldri; börn og eldra fólk og allt þar á milli. Crossfit-samfélagið er svo einstakt. Þeir sem þurfa smá hreyfingu og góðan félagsskap ættu að skoða þennan valmöguleika. Eða bara eitthvað allt annað. Ég hefði alveg eins getað endað í hotjóga hefði stöðin fyrir aftan vinnuna verið jógastöð en ekki crossfit,“ segir Benedikt að lokum og leggur áhersluna á að best af öllu sé að finna sér hreyfingu þar sem félagsskapurinn fær mann til að mæta reglulega.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál