Tókst á við kvíða og þunglyndi með hreyfingu

Alexandra Sif Herleifsdóttir er hreystið uppmálað.
Alexandra Sif Herleifsdóttir er hreystið uppmálað. mbl.is/Árni Sæberg

Alexandra Sif Herleifsdóttir áttaði sig á því þegar hún var búin með nám í íþróttafræði að andleg og líkamleg heilsan hennar var í klessu vegna erfiðra mála sem höfðu elt hana frá því í æsku. Hún lagði mikla áherslu á að hreyfa sig þegar hún vann í sínum málum og segir andlega og líkamlega heilsu haldast í hendur.

Alexandra Sif miðlar af reynslu sinni í dag sem einn af þjálfurum Ekki gefast upp! þar sem unnið er með ungmennum sem glíma við kvíða og þunglyndi. „Það er svo æðislegt að sjá þessa krakka blómstra, fá sjálfstraust og koma sér á óvart með því sem þau geta gert. Það er oft aðal ávinningurinn,“ segir Alexandra Sif um Ekki gefast upp!.

Alexandra Sif hefur alltaf verið dugleg að hreyfa sig en segir það hafa verið misauðvelt að koma sér á æfingu. Alexandra Sif stundaði lengst af körfubolta en í dag gengur hún mikið, stundar jóga, fer í spinning og lyftir.

„Andleg og líkamleg heilsa er nátengd, ég hef komist að því að það er í raun ekki hægt að hafa eingöngu annað hvort. Þetta helst algjörlega í hendur. Ég varð fyrir einelti sem barn þegar ég bjó í þrjú ár í litlu bæjarfélagi úti á landi og síðan þá hef ég glímt við mikinn kvíða og þunglyndi. Ég áttaði mig samt ekki á því að þetta væru þessir kvillar fyrr en ég var búin með háskólanámið mitt og var í algjörri klessu andlega og líkamlega. Ég var með bullandi kvíða, var mjög þunglynd, glímdi við sjálfsvígshugsanir og var að glíma við meiðsli í hnénu. Það hjálpaði mér gríðarlega mikið að hreyfa mig til að vinna bug á kvíðanum og þunglyndinu þegar ég var svona langt niðri. Það skal þó hafa í huga að þetta er það erfiðasta sem ég hef gert. Að fara í ræktina þegar þú kemst ekki einu sinni fram úr rúminu er stórt og mikið verkefni.“

Alexandra Sif tókst á við vandamál sín með hreyfingu.
Alexandra Sif tókst á við vandamál sín með hreyfingu. Árni Sæberg

Alexandra Sif mælir með því að fólk leggi áherslu á að njóta þegar það hreyfir sig. 

„Hreyfing og íþróttir hafa gert mjög mikið fyrir mig og það er gott að hreyfa sig á fjölbreyttan hátt því mismunandi hreyfing getur gefið manni mismunandi ávinninga. Maður verður hraustari, verkir minnka, fær skýrari hugsun, betri svefn, meira úthald í daglegu lífi, betra hjarta- og æðakerfi, aukið sjálfstraust, sterkari skrokk og aukna afkastagetu. Svo auðvitað góðan félagsskap ef maður er með einhvern með sér sem ég mæli hiklaust með. Það er nefnilega svo magnað að þegar maður fókusar á hvað hreyfing og andleg vinna gerir fyrir mann hvað ávinningurinn er margþættur. Hvað varðar andlegu heilsuna hef ég tamið mér að hlusta á líkama og sál. Ef ég þarf að hvíla mig geri ég það hiklaust, svo notast ég við núvitund sem ég mæli með því að allir prófi.“

Telur þú að fleiri geti nýtt sér hreyfingu til góðs á sama hátt og þú? Mjög oft er talað um hreyfingu í samhengi við útlit, hvað finnst þér um það?

„Það hefur verið margsannað að hreyfing er góð fyrir okkur, lengir lífið og bætir það töluvert. Eins og hreyfing er stillt upp í samfélaginu þá er oft fókusinn með hreyfingu settur á útlitstengda ávinninga, að missa kíló og líta út á ákveðinn hátt. Það segir þó minnst um líkamlega getu og andlega og líkamlega vellíðan hvernig fólk lítur út. Í fyrsta lagi er mjög erfitt að eltast við eitthvað ákveðið form sem segir að lokum ekkert um heilsu. Þetta er bara fyrir fram ákveðið form sem er ákjósanlegt í þjóðfélaginu, já eða á samfélagsmiðlum þessa stundina. Það er ómögulegt að eltast við þetta og ein af aðal ástæðum þess að fólk gefst fljótt upp. Það getur nefnilega verið frekar leiðinlegt að eltast við aukakíló. Þá nennir maður ekki að halda sig við efnið, sérstaklega ef árangurinn er ekki nógu fljótur að koma.

Það er því mikið betra og auðveldara að fókusa á hvað við getum og hvað við njótum að gera. Við getum til dæmis ákveðið að ganga tíu sinnum yfir sumarið eða ákveðið að fara í jóga tvisvar sinnum í viku. Það er auðvelt að mæla það en samt sem áður krefjandi. Það er líka mikilvægt að við höfum gaman af, þar liggur oft vandamálið. Hvað finnst fólki raunverulega gaman að gera? Hvað hentar þér og þínu lífi? Ekki bara að það sé vinsælt akkúrat núna heldur hvað er það sem lætur þig virkilega tikka? Ef markmiðið er að hitta góðan vin, hreyfa sig saman og hafa gaman skiptir ekki máli hversu mörgum kaloríum við brennum vegna þess að það er of gaman til að vera að spá í því.“

Alexandra Sif þjálfar hjá Ekki gefast upp!.
Alexandra Sif þjálfar hjá Ekki gefast upp!. Árni Sæberg

Alexandra Sif mælir einnig með því að fólk skrái sig á námskeið. 

„Þannig er oft auðveldara að halda sig við efnið, sérstaklega ef maður er að byrja eða er með undirliggjandi kvíða eða þunglyndi. Við hjá Ekki gefast upp! erum til dæmis að fara af stað með námskeið sem byrjar 4. september næstkomandi sem er fyrir 18 ára og eldri,“ segir Alexandra en upplýsingar má finna á vef Ekki gefast upp!.

Á meðan félagar Alexöndru Sifjar hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Ekki gefast upp! gekk Alexandra Sif Fimmvörðuháls. Alexandra Sif er meidd og gat ekki hlaupið en gafst ekki upp og safnaði áheitum fyrir Ekki gefast upp! með göngunni. Hægt er að fylgja með Alexöndru á samfélagsmiðlum á Instagram og Snapchat undir Lexaheilsa.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál