Breytti um stefnu þegar hún varð mamma

Matarbloggarinn og áhugaljósmyndarinn Linda Ben leggur mikið upp úr hollustu …
Matarbloggarinn og áhugaljósmyndarinn Linda Ben leggur mikið upp úr hollustu á eigin heimili.

Linda Benediktsdóttir, uppskriftahönnuður og áhugaljósmyndari heldur úti vinsælu heimasíðunni, lindaben.is, þar sem hún deilir ýmiss konar fróðleik. Hún hefur getið sér orð fyrir ofboðslega girnilegar og spennandi uppskriftir og hefur ráð undir rifi hverju þegar kemur að því að útbúa hollan, góðan og girnilegan mat – fyrir stóra og smáa. Í viðtali í Heilsublaði Nettó segir hún frá því hvernig hún fer að því að bjóða börnunum sínum upp á meiri hollustu en hún á von á sínu öðru barni í nóvember.  

Hafa matarvenjur heimilisins eitthvað breyst eftir að þú eignaðist börn, velurðu öðruvísi?

„Það í raun kollvarpaðist allt. Áður en ég varð mamma var ég upptekinn háskólanemi sem var alltaf á hraðferð og hafði engan tíma til að hugsa um mat. Við það að verða mamma hugsaði ég miklu meira um næringu, ekki bara það sem var fljótlegast. Einnig áttaði ég mig á því að ég vildi skapa skemmtilegar matarvenjur þar sem fjölskyldan myndi njóta saman. Maturinn varð heimatilbúinn í meira magni og allra best þegar við náum að elda hann í sameiningu.“

Á hvað leggur þú höfuðáherslu þegar kemur að  mataræði á heimilinu?

„Ég legg áherslu á að allir borði matinn sinn með góðri lyst og næri okkur fjölskylduna vel. Strákurinn minn hefur ekki mikinn áhuga á því að borða, vill frekar vera gera eitthvað allt annað, og því skiptir máli að hver biti sem hann tekur, næri líkamann hans vel.

Ég vel alltaf hollari kostinn, eins og til dæmis heilhveitipasta í stað venjulegs, brún hrísgrjón í stað hvítra og passa að við fjölskyldan séum að neyta fjölbreyttrar fæðu. Ég reyni að láta hverja máltíð innihalda eitthvað úr öllum fæðuflokkunum. Ég legg líka áherslu á að borða alvöru mat, þ.e. engin gervisæta, eins lítið af unnum kjötvörum og hægt er. Ég legg mikið upp úr mikilvægi þess að borða ferska ávexti og grænmeti á hverjum degi.“

Hvað er alltaf til í ísskápnum hjá þér?  

„Ég á alltaf til papriku, banana, ost, hrökkbrauð, skyr/jógúrt og egg. Það er alltaf hægt að redda einhverju á borðið ef þetta er til.“

Er eitthvað sem við myndum aldrei finna í ísskápnum? 

„Ég er alls ekkert fyrir orkudrykki eða sykraða gosdrykki og því er ekki hægt að finna þá í ísskápnum mínum.“

Eru einhverjar fastar reglur, svo sem nammidagur á laugardögum eða?

„Ég er ekki mikið fyrir að setja reglur í matarræðinu, ég reyni að leiða fjölskylduna þennan gullna meðalveg í matarræði. Til dæmis er ekki í boði að fá sér sætindi áður en búið er að borða holla máltíð, ef allir hafa verið duglegir að borða hollt er í lagi að fá sér eitthvað sætt og skiptir þá ekki máli endilega hvaða dagur er. Ég er mikill sælkeri og innilega elska það að fá mér eitthvað sætt inn á milli. Mín trú er að ef maður borðar holla og góða næringu alla daga, hreyfir sig reglulega, þá skiptir ein og ein kökusneið ekki höfuðmáli, við þurfum jú líka að næra andlegu hliðina okkar og gera það sem við elskum.“

Hvað um morgunmat, hvað myndirðu segja að væri hefðbundinn morgunmatur á þínu heimili?

„Týpískur morgunmatur á mínu heimili er grísk jógúrt með ávöxtum, berjum og múslí, stórt vatnsglas með.“

Nokkur góð ráð til að koma grænmeti ofan í smáa kroppa

  • Súpur og pottréttir eru snilldar leiðir til að koma grænmeti ofan í börn (og fullorðna). Það er magnað hversu mikið af grænmeti er hægt að koma ofan í bragðgóða súpu.
  • Eins með smoothie og boozt drykki, það er mjög auðvelt að dulbúa grænmeti í góðum drykk. 
  • Mér finnst mikilvægt að búa til góða bita fyrir krakkana og kenna þeim að raða saman á gaffal. Það gleymist kannski oft að þau fatta ekki að setja grænmetið með á gaffalinn þegar kjöt er í matinn, dýfa svo öllu vel í sósu og kannski hálfan feta ostkubb með. Það finnst mínum strák allavega æðislegt. 
Girnilegar kókóskúlur.
Girnilegar kókóskúlur. Ljósmynd/Linda Ben

Ofur kókoskúlur

  • 1¾ dl möndlur frá Anglamark
  • 1 dl kakó
  • 2 msk hörfræ
  • ¼ tsk salt
  • 3½ dl hafrar
  • 450 g mjúkar döðlur
  • 60 ml kókosolía
  • ½ dl kókosmjólk (meira til að velta upp úr)
  • Aðferð:
  • Ef þú átt matvinnsluvél þá getur þú sett öll innihaldsefnin ofan í hana (muna að fjarlægja steinana úr döðlunum fyrst) og útbúið deigið þannig. Ef ekki þá byrjar þú á því að setja öll þurrefnin ofan í blandara og blandar þar til allt er orðið að fínu hveiti. Setjið þurrefnin í skál.
  • Fjarlægið steinana úr döðlunum og setjið þær í blandarann ásamt kókosolíu. Setjið maukið í skálina og blandið saman við þurrefnin.
  • Takið 1 msk af deigi og myndið kúlu, setjið kókosmjöl í skál og veltið kúlunum upp úr kókosinu. Krökkum finnst þetta mjög skemmtilegt að gera.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál