Með þunnt hár og svitnar hryllilega í hársverði - hvað er til ráða?

70 ára gömul kona hefur áhyggjur af svitamyndun á höfði.
70 ára gömul kona hefur áhyggjur af svitamyndun á höfði. Ljósmynd/Thinkstock

Ragna Hlín Þorleifsdóttir, húðlæknir á Húðlæknastöðinni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá þunnhærðri konu sem hefur áhyggjur af svitamyndun í hársverði. 

Góðan daginn.

Í kjölfar spurningarinnar um mikla svitamyndun, langar mig að spyrja um svitamyndun á höfði, þ.e. enni og hársverði. Ég er tæplega 70 ára og hef svitnað mjög mikið á höfði í um það bil 20 ár. Er með frekar þunnt og fíngert hár og virðist stundum eins og ég hafi verið að koma úr sturtu, mjög óþægilegt og gerist við ýmsar aðstæður. Til dæmis stundum þegar ég drekk kaffi og ef heitt eða loftlaust er í húsum, á veitingahúsum, flugstöðvum og víðar og auðvitað við áreynslu, eins og í Rope yoga, sést ekki sviti á öðrum stöðum, og ég svitna yfirleitt ekki undir höndunum.

Kveðja, María

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Sæl María.

Að svitna mikið á enni og hársverði er algengt vandamál. Réttast er að byrja hjá heimilislækni sem getur farið yfir vandamálið með þér og útilokað undirliggjandi heilsufarsvandmál. Þegar því er lokið er hægt að skoða möguleika til að meðhöndla svitavandamálið. Eins og ég nefndi í fyrra svari mínu um svitameðferðir er alla jafna byrjað á svitaeyðum sem innihalda álklóríð. Manni dettur kannski ekki í hug að prófa þessar vörur í hársvörð eða á enni, en það er hægt. Margir þessara svitaeyða eru þunnfljótandi lausnir sem er auðvelt að setja í hársvörð. Þessi efni geta hins vegar verið ertandi fyrir húðina og ekki allir sem þola þau og því mæli ég með að þú prófir á lítil húðsvæði í einu. Lyfjameðferð með andkólínergum lyfjum er einnig valmöguleiki sem hægt er að skoða en sökum aukaverkana er þetta oft á tíðum ekki langtímalausn. Stundum eru lyfin notuð tímabundið t.d. í tengslum við mikilvæga atburði eins og stóran fyrirlestur eða brúðkaup. Í þriðja lagi getur bótox virkað vel á svitaframleiðslu í andliti og endist um það bil 4 mánuði. Þú mátt hins vegar vera viðbúin því að hrukkur á enni minnki einnig við bótox-meðferðina!

Gangi þér vel!

Ragna Hlín húðlæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Rögnu Hlín spurningu HÉR. 

mbl.is