Svona tekurðu þurran janúar alla leið

Elínrós mælir með þurrum janúar fyrir alla þá sem vilja …
Elínrós mælir með þurrum janúar fyrir alla þá sem vilja byrja árið 2020 með krafti. mbl.is/Saga Sig

Þurr janúar (e. dry January) er hugtak sem er orðið vinsælt víða. Þegar fólk setur áfengi, sykur eða fólk í fráhald tímabundið.  

Fjölmargir einstaklingar hafa farið þessa leið og jafnvel prófað lengri tíma í fráhald til að vinna úr málum sínum, núllstilla sig og ná heilsunni á betri stað. 

Eftirfarandi leiðir munu aðstoða þig við að ná árangri á þessu sviði næstu fjórar vikurnar: 

Gerðu ráð fyrir því að þetta verði erfitt

Að taka út efni eins og sykur sem maður neytir daglega er alltaf erfitt. Sér í lagi þar sem hvítur sykur er einstaklega ávanabindandi og í mörgu af því sem maður borðar reglulega. Eina leiðin að mínu mati til að ná þessu markmiði, er að skipuleggja matseðil fyrir hvern dag og að borða þrjár máltíðir á dag. 

Ef þú gerir ráð fyrir því að sykurfráhvörfin verði í sjö daga, að þú svitnir eins og svín, fáir þráhyggju sem segir þér að lífið verði ómögulegt næstu fjórar vikurnar og þar fram eftir götunum þá verða þessir dagar auðveldari. 

Ef þú hefur tekið ákvörðun um að setja fólk í fráhald þá máttu gera ráð fyrir því að það verði margfalt erfiðara en að setja efni eins og sykur út af borðinu. Fráhvörfin frá sykri eru sjö dagar, fráhvörf frá fólki getur verið allt upp í 28 daga. 

Hringdu í vin

Ef þú skrifar niður markmiðin þín fyrir mánuðinn og hringir í góðan vin sem er ekki meðvirkur með þér og biður hann um að standa með þér á þessu tímabili, þá eru betri líkur á að þú náir takmarkinu þínu. Ekki hika við að hringja í þennan vin þinn á hverjum degi. Sér í lagi þegar þú stendur þig að því að standa í miðju bakarí að panta uppáhaldskökusneiðina þína. Símtal þar sem þú spyrð hvort þetta sé góð hugmynd, getur fengið þig til að labba út og detta ekki í það, þann daginn. 

Fráhald ætti maður aldrei að taka einn og einagraður að mínu mati. 

Prófaðu 3 mínútna regluna

Ef þú hefur tekið ákvörðun um að taka þurran janúar og þú ferð allt í einu að finna mikla löngum í sykur, áfengi eða fólk, prófaðu þá að stilla símann þinn á þrjár mínútur. Prófaðu svo að fara að gera eitthvað allt annað og frestaðu því að missa þig í þessar mínútur. Á sumum dögum getur þessi regla komið að góðum notum. Sérstaklega þegar fólk er að fara inn í helgi, þegar allir vinirnir eru vanir að hittast í drykk eða þér hefur verið boðið í barnaafmæli, á stefnumót og þar fram eftir götunum. 

Prófaðu að breyta dagskránni

Þar sem þurr janúar varir einvörðungu í fjórar vikur getur verið áhugavert að sleppa því að mæta á staði sem geta reynst þér erfiðir. Ég mæli með þessari aðferð fyrir alla. Hér reynir á meðvirkni, en með þessu móti getur þú séð betur fyrir þér hvaða félagsskap þig langar að rækta í framtíðinni og hvernig lífi þú vilt lifa til lengri tíma. 

Hver veit nema að þér þyki í raun skemmtilegra í sundi á laugardagsmorgun, en að vera á Kaffibarnum til þrjú allar helgar?

Fyrir þá sem eru í fráhaldi frá fólki getur verið nauðynlegt að eyða snjallforritum á borð við Tinder, Instagram og Facebook í fjórar vikur. 

Settu sjálfan þig í fyrsta sætið

Þú getur að mínu mati aldrei farið í fráhald í janúar nema að setja fókusinn á þig. Þess vegna getur þurr janúar orðið frábært tækifæri fyrir þig að læra að ná tökunum á því að rækta sjálfan þig. Passaðu upp á svefninn þinn. Ég mæli með átta klukkustundum fyrir fullorðna. Passaðu mataræðið þitt. Að borða stútfullan disk af hollu grænmeti, fá þér ávöxt eftir í það minnsta tvær máltíðir og borða nóg af próteini og fitu með hverri máltíð. Ég mæli með að drekka 1,5 l - 2 l af vatni á dag. 

mbl.is/Thinkstockphotos

Stundaðu rólega hreyfingu

Að fara í sund daglega í fráhaldi eða út að ganga er algjörlega málið að mínu mati. Reyndu að forðast erfiðar æfingar í viku á meðan að þú ferð í gegnum sykurfráhvörfin. Eins mæli ég ekki með því að hlaupa langar vegalengdir eða að reyna of mikið á líkamann fyrstu vikurnar. 

Málið er að líkaminn þarf að ná tökum á því að búa til eldsneytið sem hann þarf úr hollum og góðum mat. 

Fyrir þá sem eru að setja fólk í fráhald en ekki efni, getur góð hreyfing aðstoðað helling. En farðu varlega. Það er aldrei gott að færa þráhyggjur á milli staða, þó þú viljir að sjálfsögðu allan daginn vera frekar sólginn í hlaup en viðhaldið. 

Notaðu dagbók

Eitt af því sem ég tel algjörlega nauðsynlegt í þurrum janúar er að skrifa dagbók. Það sem ég mæli með að fólk geri er að það skrifi markmiðin sín fremst í dagbókina og síðan topphegðun strax í kjölfarið. Topphegðun er þá sú hegðun sem þú ætlar að ástunda daglega. Botnhegðun er aftur á móti sú hegðun sem þú ætlar að forðast. Það tekur um það bil 21 dag að tileinka sér nýjar hefðir. Hver veit nema að þurr janúar endi með því að vera þurrt árið 2020? 

Notaðu hugleiðslu og bæn

Ef þú ert eins og ég var, í yfirþyngd, sífellt að narta í súkkulaði og drekkur þig fulla/fullan aðra hverja helgi, þá þarftu eitthvað meira en orkuna frá eigin egó-i til að ná árangri í fráhaldi. Prófaðu að fara í lótus-stellinguna á morgnana, eða niður á hnén og biðja kærleikann, ástina í veröldinni eða Guð að vera með þér á þessu ferðalagi. Biddu um stuðning við að ná markmiðum þínum og æðri mátt að leiða þig áfram í fráhaldinu. 

mbl.is/Thinkstockphotos

Haltu áfram þó þú misstígir þig

Það er ekkert eðlilegra en að verða á í fráhaldi þegar maður fótar sín fyrstu skref í átt að betra lífi. Ekki dæma þig eða vera vond/vondur við þig þó þú laumir óvart mola af einhverju upp í þig og kyngir án þess að hugsa. Reyndu frekar að læra af reynslunni og talaðu fallega við þig. Hvað myndir þú segja við besta vin þinn eða elskuhuga í slíkum sporum? Talaðu þannig við þig. 

Mikilvægt er að nota almenna skynsemi áður en tekin er ákvörðun um þurran janúar. Sem dæmi er ekki æskilegt að hætta að drekka áfengi án stuðnings sérfræðings ef þú ert háður áfengi, eða notar það daglega. Eins er mikilvægt að vinna með næringafræðingum eða sérfræðingum um matarfíkn ef þú ert í mikilli yfirþyngd eða ert með átröskun. Það er nóg til af frábærum sérfræðingum í landinu. Ég mæli með að hitta góðan sérfræðing í janúar ef þú þarft til að fá auka stuðning. 

Gangi þér vel!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál