Innkaupalistinn gamaldags og fullur af kolvetnum

Viðar Freyr Guðmundsson.
Viðar Freyr Guðmundsson. Ljósmynd/Aðsend

Viðar Freyr Guðmundsson rafeindavirki er stofnandi hópsins Ketó-Iceland á Facebook. Viðar Freyr býr í Danmörku þar sem hann undirbýr sig undir háskólanám í haust en þrátt fyrir það hefur umræða um innkaupalista fyrir fjögurra manna fjölskyldu í sóttkví ekki farið fram hjá honum. Hann gagnrýnir innkaupalistann, kolvetnisinnihaldið og hversu gamaldags listinn er. 

„Það er í sjálfu sér skondið að það þurfi að gefa út innkaupalista fyrir fullorðið fólk sem er vant því að versla í matinn sjálft. Má því deila um gagnsemi þess. En ljóst er að þessi listi er nokkuð gamaldags, bæði í matarvenjum, viðhorfum og því sem vísindin hafa að segja. Það er áhyggjuefni að opinber stofnun gefi út slíkar leiðbeiningar sem stuðla að óheilbrigðu líferni og sjúkdómum. Eða gefi í skyn að neysla á miklu magni einfaldra kolvetna sé heilsusamlegur lífsstíll. Það eru því miður margir sem vita ekki betur,“ segir Viðar Freyr þegar hann er spurður út í gagnrýni sína. Með gagnrýninni er Viðar ekki endilega hvetja alla til þess að fara á ketó eins og hann gerði enda segir hann mataræðið ekki henta öllum. Hann leggur þó áherslu á að ofneysla á sykri sé nokkuð sem allt fólk ætti að leiða hugann að. 

Hvað nákvæmlega er það sem finnst bagalegt við listann? 

„Ef matvörur sem eru að meginuppistöðu einföld kolvetni eða með viðbættum sykri væru tekin út af þessum lista, þá er fátt eftir. Fjöldi rannsókna sýnir tengsl milli ofneyslu á sykri og einföldum kolvetnum við sjúkdóma. Meiri inntaka sykurs eykur líkur á hjartasjúkdómum. Lifrin er líka viðkvæm fyrir þessu. En sykur hefur samskonar áhrif á lifrina og áfengi. Óhófleg neysla veldur lifrarbólgu. Svo eru bólgur í líkamanum, hækkaður blóðþrýstingur, hætta á offitu og sykursýki 2. Þetta er allt vel skjalfest og rannsakað,“ segir Viðar og bendir á rannsókn á vef Harvard-háskóla máli sínu til stuðnings. 

„Þetta er gríðarlegt magn af sykri og blóðsykurshækkandi kolvetnum í þessum innkaupalista. Fljótt á litið er þetta meira en 70% kolvetni. Þarna eru hlutir eins og heilt kíló af þurrkuðum ávöxtum (580 g sykur) og fimm lítrar af ávaxtasafa (450 g sykur). Sem er sennilega fljótlegasta leiðin til að innbyrða of mikið af sykri. Fólk ætti að borða ferska ávexti og grænmeti. Eða frosið, ef þannig árar. Það er mun erfiðara að fá of mikinn sykur úr matnum þannig.“

Viðar Feyr tók skjáskot af listanum, litaði hann gult það …
Viðar Feyr tók skjáskot af listanum, litaði hann gult það sem hann segir vera að stofninum til kolvetni eða innihalda innihalda viðbættann sykur/hveiti Ljósmynd/Aðsend

Viðar býr í Danmörku en segist ekki hafa séð svipaða innkaupalista þar í landi. 

„Hér í Danmörku er fólk beðið að vera í heimasóttkví í 14 daga. Heilbrigðisyfirvöld hér mæla með að fólk noti vini eða nágranna til að versla fyrir sig í matinn og skilja innkaupapokann eftir fyrir utan húsið. Svo er líka hægt að panta mat úr mörgum verslunum gegnum netið.

Þessi innkaupalisti frá Almannavörnum á Íslandi er hins vegar meira í takt við sex mánaða einangrun, án ísskápa í hitabeltisskógi og fjarri öllum mannabyggðum þar sem menn þurfa að stunda mikla hreyfingu. En jafnvel þá væri hægt að kaupa mat sem byggðist meira á prótínum og fitu. Og er ekki 70% kolvetni.“

Viðar veit ekki til þess að kórónuveiran sé komin til Suður-Jótlands þar sem hann býr. Hann segir það þó sennilega tímaspursmál. Aðspurður segist hann ekki vera vera með áhyggjur af innkaupum ef hann lenti í sóttkví. 

„Ég myndi bara kaupa það sama og vanalega. Hollan mat þar sem kolvetnin koma að megninu til úr grænmeti. Ég reyni að hafa kjöt- eða fiskmáltíð á hverjum degi og kaupi oft stórar einingar sem ég skipti upp og frysti. Flestar matvörur hafa að minnsta kosti 14 daga geymsluþol svo að þetta er ekki flókið verkefni. Plássleysi í ísskáp gæti verið það erfiðasta. En margar matvörur þurfa ekki að vera í kæli. Svo má líka frysta mjólkurvörur, kjöt og fisk til að eiga.“

Viðar Freyr segir að líf sitt hafi stórbatnað á ketómataræðinu. Hann grenntist, úthald batnaði og hann fór að taka inn minni skammt af blóðþrýstingslyfjum. 

„Ég hef mest farið niður um 30 kíló. Svo er líka árangur í sjálfu sér að fitna ekki. Það má ekki gleymast. Sama farið getur alveg eins valdið því að menn verði enn feitari. Þannig að það er líka árangur að halda sér frá því að fitna aftur eða fitna meira. En ég er um það bil 20 kílóum frá því sem ég var þyngstur í dag. Ég gat helmingað skammtinn af blóðþrýstingslyfjum. Er léttari á fæti og bakverkir hafa minnkað mikið. Úthald er líka mjög gott. Get gengið á fjöll.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál