Komst ekki í gegnum daginn án verkjalyfja

Fithian hefur misst 68 kíló á tveimur árum.
Fithian hefur misst 68 kíló á tveimur árum. Skjáskot/Instagram

Lacey Rene Fithian var 130 kíló þegar hún var sem þyngst. Hún glímdi við matarfíkn frá unga aldri og þegar hún var barn faldi hún mat í herberginu sínu fyrir foreldrum sínum. Enginn kúr virkaði fyrir hana og hún þyngdist og þyngdist. Í dag hefur hún losnað við 68 kíló og lifir heilbrigðum lífsstíl. 

Þegar hún var aðeins 32 ára var hún á fjölda lyfja til að takast á við þunglyndi, kvíða, lifrarsjúkdóm, bakverki og verki í hnjám. Hún fann stöðugt til og komst ekki í gegnum daginn án þess að taka verkjastillandi lyf. 

Í pistli á Women's Health segir Fithian að hún hafi lent á botninum 23. desember árið 2017. Jólunum fylgdi aukið álag og þennan örlagaríka dag komst hún ekki á fætur til að hugsa um börnin sín. 

„Þetta lenti á mér eins og múrsteinsveggur, ég var lent á botninum. Ég var búin að éta mig inn í svarthol yfir jólahátíðirnar og leið ömurlega. Allir í kringum mig voru að setja sér áramótaheit og tala um allar breytingarnar sem þeir vonuðust til að gera á næsta ári. Ég var ekki búin að hugsa um framtíð mína fram að þessu,“ skrifar Fithian. 

Hún ákvað því að hún þyrfti að setja sjálfa sig fremst í forgangsröðina og vinna að því að bæta heilsuna. Sem fyrr segir hafði hún prófað fjöldann allan af megrunarkúrum sem höfðu ekki gengið. 

Fithian leitaðist við að breyta lífsstíl sínum og hugarfari gagnvart því sem hún lét ofan sig. 

Fithian tókst á við matarfíknina.
Fithian tókst á við matarfíknina. Skjáskot/Instagram

„Ég ákvað að verða mín eigin matarlögga. Ég einbeitti mér að því að setja máltíðirnar mínar rétt saman og í réttu magni og passa þannig upp á að borða næringarríkan mat en ekki næringarsnauðar hitaeiningar. Ég vildi að hitaeiningarnar væru þess virði og myndu vinna með mér en ekki gegn mér.“

Hún hóf líka að fylgjast með öllu. Hún fylgdist með þyngdinni, hvað hún borðaði, hvað hún drakk mikið vatn og hvernig henni leið á hverjum degi. Þannig fékk hún skýra mynd af því hvað virkaði og hvað ekki. 

Samhliða því fór hún að hreyfa sig og byrjaði á að hreyfa sig í 30 mínútur á hverjum degi. Hún byrjaði á að fara út að ganga og synda. Þegar hún hafði lést aðeins færði hún sig yfir í erfiðari hreyfingu. Í dag æfir hún heima í gegnum netþjónustu þar sem hún getur valið æfingar sem henta henni. 

Með þessu hefur henni tekist að léttast um 68 kíló. Flestallir kvillarnir sem hún glímdi við fyrir eru horfnir og tekur hún engin lyf í dag, bara vítamín. 

Í dag tekur hún engin verkjalyf.
Í dag tekur hún engin verkjalyf. Skjáskot/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál