Dans eykur félagsfærni

Guðrún Óskarsdóttir býður upp á dansfjör fyrir þá sem vilja …
Guðrún Óskarsdóttir býður upp á dansfjör fyrir þá sem vilja efla hæfni sína í að dansa.

Guðrún Óskarsdóttir danskennari segir að ballettinn og dansinn hafi gefið sér félagsfærni, líkamslæsi og tækifæri til að vera í núinu. Svo ekki sé minnst á gleðina. Hún tók við Ballettskóla Guðbjargar Björgvins sem nú heitir Óskandi. 

Hver er merkingin á bak við Óskandi?

„Nafnið Óskandi samanstendur af ósk og andi. Ósk er dregið af því að óska sér en einnig vísun í föðurnafnið Óskarsdóttir. Andi er þýðing á „spirit“ og vísun í andrúmsloftið, þar sem eitt af aðalmarkmiðum skólans er að bjóða upp á uppbyggilegt, jákvætt og notalegt andrúmsloft.“

Hvað getur þú sagt mér um skólann?

„Óskandi er dansskóli á Eiðistorgi, Seltjarnarnesi. Skólinn er sjálfstæð eining undir Dansgarðinum og er í nánu samstarfi við Klassíska listdansskólann sem er á Grensásvegi og í Mjóddinni. Óskandi og Klassíski listdansskólinn mynda teymi af góðum kennurum sem vinna saman að því að bjóða upp á faglegt og fjölbreytt dansnám fyrir börn frá þriggja ára aldri. Markmið skólanna er að bjóða upp á danskennslu í þroskandi og uppbyggjandi umhverfi; opna hugann fyrir sköpun og nýrri hugsun, auka félagsfærni, hreyfifærni og sjálfstraust.“

Hvernig er námsleið Óskandi fyrir 12-15 ára börn og 16 ára plús?

„Við hjá Óskanda á Eiðistorgi erum mjög spennt að bjóða upp á námsleið sem heitir dansfjör og er skemmtileg blanda af ballett, nútímadansi og jóga. Kjörið fyrir nemendur sem langar að dansa sér til ánægju og huga að líkamlegri og andlegri þjálfun í faglegu og skemmtilegu umhverfi.“

Hvað hefur ballettinn gert fyrir þig?

„Ég hef stundum hugsað hvað líf mitt hefði verið öðruvísi ef ég hefði ekki byrjað í dansi og fundið áhugamál sem ég brann fyrir. Ballettinn og dansinn gáfu mér félagsfærni, líkamslæsi og tækifæri til að vera í núinu og síðast en ekki síst mikla gleði. Þegar ég hugsa um mig sem ungling þá gaf dansinn mér sjálfstraust til að vera ég sjálf, og það er eitt af því sem ég er svo þakklát fyrir í dag.“

Dans er grunnurinn að svo mörgu að mati Guðrúnar.
Dans er grunnurinn að svo mörgu að mati Guðrúnar.

Af hverju er dans góður fyrir unga krakka?

„Hreyfing er fyrsta tungumál barnsins og gólfið er fyrsti leikvöllurinn þar sem barnið fær tækifæri til þess að finna og þekkja hvar eigin líkami er í rýminu. Dans hvetur til sköpunar, öryggis og forvitni, þátta sem undirbúa nemandann fyrir lífið. Ég tel að ávinningurinn af danstíma sé margvíslegur og lít svo á að hann skili sér þegar litið er til framtíðar. Þegar ég bætti við mig námi í hreyfiþroska barna öðlaðist ég nýja sýn á hvað hreyfing og umhverfi gegna mikilvægu hlutverki við þroskun heilans. Hvernig dans og hreyfing geta stutt barnið líkamlega, andlega og tilfinningalega og haft áhrif á sköpunargáfuna.“

Hvaðan kemur áhugi þinn á ballett?

„Áhugi minn á ballett og dansi byrjaði á stofugólfinu heima þar sem ég dansaði alla daga og var óstöðvandi. Þegar ég var fimm ára fór ég að æfa samkvæmisdans en sjö ára sendu foreldrar mínir mig í fyrsta balletttímann hjá Ballettskóla Guðbjargar Björgvins og eftir það varð ekki aftur snúið. Ég var búin að finna áhugamál og seinna atvinnu sem ég elskaði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál