Sippaði 2000 sinnum á dag í heilan mánuð

Cole Baker byrjaði að sippa til þess að brenna fitu.
Cole Baker byrjaði að sippa til þess að brenna fitu. Skjáskot/YouTube

YouTube-stjarnan Cole Baker gerði tilraun á dögunum þar sem hann sippaði 2.000 sinnum á dag í heilan mánuð. Markmið hans í byrjun var að brenna fitu án þess að breyta mataræðinu. 

Þar sem það að sippa er góð brennsluæfing ákvað Baker að reyna að sippa á hverjum degi ásamt því að lyfta. Í byrjun var hann 73 kíló, fituprósentan var 15,1 og vöðvamassinn var 44,1 prósent. Markmiðið var að ná fituprósentunni niður í 13 prósent. 

Í YouTube-myndbandi sem sjá má hér að neðan lýsir Baker ferlinu. Eftir fyrsta daginn var honum til að mynda verulega illt í kálfunum eftir æfingarnar. Þrátt fyrir að ganga betur eftir nokkra daga var hann aðeins búinn að minnka fituprósentuna um 0,4 prósent. Hann ákvað því að taka út óhollt snakk úr mataræðinu og fór þá að ganga betur. 

Eftir 30 daga áskorun var Baker orðinn 69 kíló, vöðvamassinn 45 prósent og fituprósentan var 13,5 prósent. Baker var því örlítið frá því að ná markmiði sínu. Var hann viss um að hann hefði náð því ef hann hefði bætt mataræðið fyrr. Hann bætti sig einnig í lyftingum á meðan áskoruninni stóð.  

mbl.is