„Þú ákveður alltaf sjálf hversu langt þú vilt ganga“

Ingibjörg Birna Ársælsdóttir lifir og hrærist í heimi bardagaíþrótta.
Ingibjörg Birna Ársælsdóttir lifir og hrærist í heimi bardagaíþrótta. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Birna Ársælsdóttir fékk svarta beltið í brasilísku jiu jitsu á dögunum, fyrst íslenskra kvenna. Ingibjörg Birna fann sig í íþróttinni 19 ára gömul en fyrir það vissi hún ekki alveg hvað hana langaði að gera eða hverju hún hefði gaman af. 

Ingibjörg Birna segir það ólýsanlega tilfinningu að fá svarta beltið. „Ég hafði sett stefnuna á þetta í mörg ár en það er erfitt að setja tilfinningarnar í orð hvernig það var að ná áfanganum. Ég finn helst fyrir gríðarlegu stolti og þakklæti. Þetta er alveg ótrúlega stór áfangi fyrir mig eins og sást einna helst þegar ég fékk beltið. Ég varð ansi meyr, með allt yndislega fólkið í kringum mig sem ég hef verið samferða í íþróttinni í gegnum árin.“

Þú ert fyrsta íslenska konan til þess að ná þessum árangri í greininni. Af hverju hafa ekki fleiri konur komist eins langt?

„Við erum ennþá mun færri konur en karlar í íþróttinni og það er alveg hægt að segja að þetta hafi verið mjög karllæg íþrótt hingað til en það er að breytast. Hægt og rólega eru að koma inn fleiri og fleiri ótrúlega flottar og öflugar konur bæði hér heima og erlendis. Íþróttin hentar að sjálfsögðu alveg jafnvel báðum kynjum og ég er alltaf að sjá fleiri konur byrja að æfa eftir því sem fleiri prufa að mæta.“

Ingibjörg Birna Ársælsdóttir er með svarta beltið í brasilísku jiu …
Ingibjörg Birna Ársælsdóttir er með svarta beltið í brasilísku jiu jitsu. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Birna byrjaði að stunda íþróttina fyrir tæpum níu árum þá 19 ára gömul. 

„Ég var á tímapunkti í mínu lífi þar sem ég var ekki með neina skýra stefnu og vissi í rauninni ekki alveg hvað mig langaði til að gera eða hverju ég hafði gaman af. Eftir fyrstu æfinguna breyttist það heldur betur en ég fann strax að bardagaíþróttir höfðuðu sterkt til mín. Bæði íþróttin sjálf, hreyfingarnar og tæknin en ekki síður félagsskapurinn og allt samfélagið í kringum glímuna,“ segir Ingibjörg Birna. Í dag starfar hún sem yfirþjálfari Reykjavík MMA auk þess að vera ÍAK einka- og styrktarþjálfari og næringarþjálfari frá Precision Nutrition. 

Andlegi þátturinn mikilvægur

Í glímunni hefur Ingibjörg Birna ekki bara lært líkamlega færni en það skiptir líka miklu máli að huga að andlega þættinum og vera með höfðuð skrúfað rétt á. Hún segir glímu stundum líkt við skák og finnst henni heillandi að læra inn á hvernig hægt er að nota útsjónarsemi og tækni á móti stærri og sterkari einstakling. 

„Það að lenda í slæmri stöðu og læra að anda í gegnum það, finna leiðir til að komast úr stöðunni á yfirvegaðan hátt eða jafnvel gefa upp leikinn og byrja upp á nýtt þegar ég finn að ég er komin í stöðu sem er mér um megn er eitthvað sem ég yfirfæri beint yfir í mitt daglega líf. Mér þykir líka einstaklega fallegt að íþróttin er kölluð „the gentle art“ og þú ákveður alltaf sjálf hversu langt þú vilt ganga og gefur upp leikinn þegar þú vilt ekki ganga lengra í óþægilegri stöðu,“ segir Ingibjörg Birna og segir þetta bæði gott fyrir egóið og kennir holla auðmýkt og virðingu. 

Ingibjörg Birna sést hér glíma við Bjarka Þór Pálsson sem …
Ingibjörg Birna sést hér glíma við Bjarka Þór Pálsson sem fékk svarta beltið á sama tíma og hún. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Birna stundar jóga, fer í kakóserímóníur í Andagift, gerir öndunaræfingar, les bækur og hlustar á hlaðvörp til þess að þjálfa andlega þáttinn. Það fer eftir dögum hvað hún gerir hverju sinni en hún reynir alltaf að hugleiða á morgnana og á kvöldin. Hún passar að eiga stund fyrir sig og reynir að eiga í uppbyggilegum samskiptum. Góðir vinir hjálpa líka og koma margir af hennar bestu vinum úr glímunni.  

Mataræði og svefn skipta máli

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér? 

„Þeir eru svolítið misjafnir en eins og staðan er núna þá er ég að vakna milli sjö og átta, tek þá hugleiðslu og rólegheit þar sem ég bý mér til einhvern huggulegan morgunmat, fer svo í framhaldi að þjálfa. Upp úr hádeginu drilla ég, horfi á tækniatriði eða lyfti. Á svo nokkuð rólega stund, þjálfa og æfi seinnipartinn svo er það yfirleitt kvöldmatur og rólegheit með fjölskyldunni.“

Venjulega æfir Ingibjörg Birna glímu fimm til sex sinnum í viku, fer yfir ákveðin tækniatriði tvisvar til þrisvar í viku og lyftir einu sinni til tvisvar í viku. Þetta eru mikið af æfingum en hún segir mataræðið skipta miklu máli til þess að ná árangri. Sömuleiðis segir hún svefn, öndun og hugleiðslu skipta máli. Þegar þetta er í lagi finnur hún mun á afkastagetu og líðan sinni. 

„Ég hef prófað allskyns með mataræðið en það sem ég aðhyllist er að borða þar sem er næst náttúrunni. Ég sleppi því að borða mat með innihaldsefnum sem ég þekki ekki og svo er ég að vísu með ákveðnar matarsérþarfir sjálf út frá því hvað ég hef fundið út að fer vel í minn kropp en það er auðvitað eins mismunandi og við erum mörg hvað hentar hverjum og einum. Ég elda mikið sjálf og hef mjög gaman að því að prófa mig áfram með uppskriftir.

Ég borða alltaf vel af grænmeti og hugsa um fjölbreytni í fæðuvali. Alltaf vel af fiski og eggjum, svo kjöt svona inn á milli. Ég hef haldið mig að mestu frá glúteni, mjólkurvörum og sykri en eins og ég segi þá þarf hver og einn að finna það fyrir sig hvað hentar.“

Ingibjörg Birna Ársælsdóttir fann sig í glímunni.
Ingibjörg Birna Ársælsdóttir fann sig í glímunni. mbl.is/Árni Sæberg

Settu þér markmið

Það eru ekki allir sem setja stefnuna á svarta beltið eins og Ingibjörg Birna en það skiptir þó máli að vera með skýrt markmið að mati Ingibjargar Birnu þegar blaðamaður spurði hvað meðalmaðurinn þarf að hafa í huga til að ná árangri. 

„Ég myndi segja að það fyrsta væri að setja sér markmið. Hvaða markmiði langar þig að ná og af hverju? Þá fer að verða auðveldara að setja upp plan í framhaldi, hvernig þú kemst þangað af því að sýnin er orðin skýr. Mín ráðlegging er alltaf að setja þér hófleg og minni markmið sem þú veist að þú nærð að framkvæma á leiðinni í átt að stærra markmiðinu. Og hugsa um að markmiðin séu fólgin í því sem þú hefur stjórn á í staðinn fyrir utanaðkomandi aðstæður. Svo er auðvitað aðalatriðið að njóta ferðarinnar því það er hún sem skiptir máli. Ég veit þetta er algjör klisja að segja það en það er klisja af ástæðu.“

mbl.is