Ofurduglega verkjafólkið

Hrefna Óskarsdóttir.
Hrefna Óskarsdóttir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Dugnaður er eitt af því sem samfélagið okkar hampar í hástert. Dugnaður og gott vinnusiðferði er líka eitt af því sem við viljum gefa börnunum okkar í veganesti út í lífið. Í gegnum samfélagsmiðla hefur dugnaður orðið meira sýnilegur öðrum og þar fáum við líka alls konar tákn (©<☺) að launum fyrir dugnaðinn og allt hitt sem samfélagið metur að verðleikum. Það er samt mjög auðvelt að ganga of langt í dugnaði, til að mynda í gegnum fullkomnunaráráttu og ótta við álit annarra. Þessi ofurdugnaður er farinn að slaga upp í alvarlegt lýðheilsuvandamál sem kostar okkur bæði tilfinningalega og líkamlega heilsu,“ segir Hrefna Óskarsdóttir, iðjuþjálfi á verkjasviði Reykjalundar, í nýjum pistli: 

Ofurdugnaður er eitt af því sem ég hef séð einkenna fólk sem býr við verki eða aðra sjúkdóma. Þessir ofurduglegu einstaklingar reyna eftir fremstu getu að gera allt sem þau gátu áður og jafnvel enn betur og af enn meiri krafti til að forðast vorkunn, vera álitin (Guð forði okkur) löt eða full af sjálfsvorkunn. Leti og vorkunn eru það stórir lestir í samfélaginu að við tökum á okkur miklu meira af verkefnum, skyldum og hlutverkum heldur en við ráðum við, við tökum þetta á hörkunni, förum þetta á hnúanum og hættum þessum aumingjaskap.

Að taka þetta á hörkunni og hnefanum getur haft alvarlegar afleiðingar. Hvíld og svefn er oft það fyrsta sem hverfur hjá fólki með verki og ánægja og áhugamál gjarnan það fyrsta sem það fórnar – sérstaklega ef það er enn ekki nægur tími til að standa undir öllum kröfunum sem fylgja því að vera duglegur. Hvað heldurðu að fólk segi ef ég get ekki gert heimilisstörfin eða sinnt vinnunni en gef mér tíma til að gera eitthvað mér til ánægju eða slökunar?

Þegar ánægjan, áhugamálin og hvíldin fer er lítið annað eftir í lífinu heldur en að hlaupa hratt til að mæta öllum kröfunum, forðast verki eða finna leiðir til að draga úr verkjum. Spenna, álag og pirringur fara að einkenna lífið sem getur valdið jafnvel enn meiri verkjum. Á meðan engin ánægja er í lífinu, engin slökun og ekkert sem gefur fullnægju fara verkirnir að taka sífellt meira pláss – yfirtaka jafnvel lífið hjá mörgum.

Ímyndaðu þér að vera með tekjur upp á 600.000 eftir skatt. Þú hefur það alveg fínt. Þannig séð. Svo lendir þú í slysi og verður óvinnufær vegna verkja. Íslenska velferðarkerfið grípur þig á meðan þú ert að vinna í endurhæfingunni þinni og þú færð kannski um 260.000 í endurhæfingarlífeyri eftir skatt. Þetta er umtalsverð skerðing sem þú einfaldlega þarft að sætta þig við og aðlaga þig að ellegar að lenda í skuld sem þú þarft að borga síðar meir.

Það sama á við með fólk sem býr við verki eða aðra skerta færni. Ímyndaðu þér ef allir ættu einhvers konar líkamsorkumæli sem nær frá 0 og upp í 100. Á góðum degi og eftir góðan nætursvefn er líkamsorkumælirinn í 100 hjá flestum. Ef svefninn er tættur og þú vaknar verkjaður kemst mælirinn kannski upp í 60-70 og klárast því fyrr en hjá öðrum. Eins og á öðrum mælum færðu viðvörun áður orkan klárast. Nema þín viðvörun er ekki jafn augljós eins og píp, ljós eða aðvörun á skjá. Þegar við hunsum þarfir líkamans fyrir hvíld og endurnæringu þá heyrum við ekki þessar viðvörunarbjöllur líkamans. Jafnvel þótt við heyrum þær erum við gjörn á að hunsa þær. Af því að dugleg manneskja „ætti“ að geta gert þetta…  Ég vil ekki að fólk haldi að ég sé einhver aumingi.

Þegar við hlustum ekki á þarfir líkamans eftir hvíld, ánægju og lífsfyllingu, þá göngum við hratt á orkubirgðir líkamans. Það er ekki gott fyrir sjálfsmyndina að geta bara brot af því sem maður gat áður, að vera ekki samkeppnishæfur í lífsgæðakapphlaupinu og álíta sig minni háttar. Það kemur skömm. Fólk einangrar sig. Hættir að taka þátt og horfir bara á lífið líða hjá. Þeim fer að verða sama. Það kemur uppgjöf. Stundum alger vanvirkni.

Í dag er alþjóðadagur iðjuþjálfa og er yfirskriftin þetta árið „að endurhugsa hversdaginn“.  Í iðjuþjálfun er fólk endurhæft til heilsu og vellíðunar í gegnum þátttöku í iðju sem hefur tilgang, gefur ánægju og veitir lífsfyllingu. Iðjuþjálfar hjálpa fólki að taka þátt í þeirri iðju sem skiptir það máli, að taka þátt í þeim hlutverkum sem eru einstaklingnum mikilvæg og finna leiðir til að lífsandinn taki meira pláss í lífi hverjar manneskju heldur en verkir og sjúkdómar gera.

Til að hversdagsleikinn hjá fólki með verki eða sjúkdóma geti gengið upp, þarf oft að hugsa nýjar leiðir til að gera og vera. Það þarf stundum að gera minna en gera samt. Gera hægar en gera reglulegar. Gera minni kröfur en gera samt alltaf eitthvað. Hafa markmið en hafa þau raunhæf. Stærsti sigurinn getur verið fólgin í því að segja nei við aðra til að geta gert hluti sem skipta þig máli – eins og að hlúa að gleði, endurnæringu, tilgangi eða til að rækta líkamann.

Það vilja allir vera virkir þátttakendur í lífi barna sinna og fjölskyldunnar, geta séð um sig sjálfir, vinna að verkefnum sem hafa tilgang og þýðingu, sinna félagslífi og vera einhverjum mikilvægur einhvers staðar. Stundum finnum við ekki leiðina þangað sjálf og þá getur iðjuþjálfun verið mikilvægt verkfæri. Af því að þátttaka í iðju og daglegu lífi er öllum mikilvæg. Þátttaka í lífinu gerir lífið einfaldlega þess virði að lifa því.

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál