Valgerður hefur hreyft sig á hverjum degi í 365 daga

Valgerður Jónsdóttir segir að fólk verði að setja hreyfingu inn …
Valgerður Jónsdóttir segir að fólk verði að setja hreyfingu inn í daglega rútínu til að líða betur.

Valgerður Jónsdóttir ákvað að taka heilsuna traustum tökum í október 2019 og fór að hreyfa sig á hverjum degi í það minnst 30 mínútur á dag. Hún segir að það hafi verið mikil áskorun að fara úr sófanum út að hlaupa. Eftir að hafa hreyft sig á hverjum degi í 100 daga ákvað hún að halda áfram og nú hefur þetta átak staðið yfir í ár. Hún er alls ekki hætt og hvetur fólk til að gera slíkt hið sama. 

„Áskorunin snýst í grunninn um að hreyfa sig í minnst 30 mín á dag í 100 daga. Í október 2019, tilkynnti góð vinkona mín, Þóra Ásgeirs, á Instagram að hún ætlaði að taka þátt í 100 daga áskorun. Ég hrósaði henni fyrir metnaðinn og þá manaði hún mig til að fara af stað með sér. Ég hafði nú ekki meiri trú á mér en það að ég ákvað að taka 30 daga til að byrja með. Í dag er ég að klára dag 331 og hef sett mér það markmið að klára 365 daga!

Hluti af áskoruninni fólst líka í því að telja dagana „opinberlega“, við settum sem sagt alltaf mynd af hreyfingunni okkar inn í „story“ áInstagram og töldum samviskusamlega dagana. Með þessu er markmiðið orðið áþreifanlegra og sýnilegra og einnig hvatti þetta okkur áfram. Það er alltaf erfiðara að sleppa æfingu ef einhver er með manni að æfa,“ segir Valgerður. 

Hvernig var hreyfingunni þinni háttað fram að þeim tíma?

„Ég hef svo sem alltaf verið í einhverri hreyfing. Ég æfði frjálsar íþróttir sem barn og langt fram á unglingsár, svo er ég alin upp í sveit og var iðulega hlaupandi út um brekkur og móa.  Ég er líka menntaður íþróttafræðingur þannig að áhuginn liggur aðeins í þessa áttina. Síðustu ár hef ég þó ekki verið nógu dugleg að hafa hreyfinguna ofarlega á lista, og varla hægt að segja að ég hafi verið að hreyfa mig reglulega. Mér fannst alltaf erfitt að hafa ekkert að stefna að. Þegar maður er að æfa keppnisíþrótt þá er maður að alltaf að æfa fyrir næsta keppnistímabil eða mót og það reyndist mér erfitt að finna metnaðinn til að æfa „bara“ fyrir mig. Ég var samt alltaf eitthvað að brölta og hlaupa annað slagið, hef aldrei stoppað alveg fyrr en ég varð fertug! Skondið að segja það en þá fékk ég bara nóg, nennti þessu alls ekki, sá enga ástæðu til þess að vera að hreyfa sig eitthvað. Það var ekki fyrr en rúmu ári seinna sem ég vaknaði í raun upp við vondan draum og áttaði mig á að svona vil ég ekki lifa lífinu. Ég var sem sagt búin að vera að brasa við að hreyfa mig aðeins áður en þessi áskorun birtist, en alls ekki reglulega, bara þetta klassíska hlaupa, og mæta í ræktina,“ segir hún.  

Hvað breyttist við að hreyfa sig í hálftíma á dag?

„Það að tileinka sér hreyfingu á hverjum degi er erfitt fyrst um sinn, fannst mér allavega. Þegar maður er vanur því að æfing, púl og puð sé það eina sem telst hreyfing þá finnst manni göngutúr ekki merkilegt fyrirbrigði og varla hreyfing. Ég var fljót að læra það að ég gæti ekki haft meira rangt fyrir mér. Öll hreyfing telur og skiptir máli, aðalatriðið er að þú tekur ákvörðunina um að taka frá tíma fyrir þig og velur að nýta tímann í hreyfingu. Rólegur göngutúr, einn eða með öðrum er ótrúlega gott fyrir sálina. Náttúran er svo mögnuð, það er einhver kraftur í henni sem smitast í mann þegar maður er úti.“

Hvernig fórstu að hreyfa þig?

„Mér fannst strax skipta máli að hafa hreyfinguna fjölbreytta. Ég fór út að hlaupa, hjóla, ganga. Ég fór í ræktina og var að lyfta, prófaði jóga ogspinning. ÞegarCovid lokaði öllu þá tók við smá heimaæfingatímabil og það var svo frábært að sjá allt sem var í boði á netinu. Þá prófaði égZumba, Salsa, jóga ogFoamFlex, allt heima í stofu. Það er svo mikill bónus að hafa gaman af hreyfingunni, þá er maður líklegri til að halda henni áfram, og ekki veit maður hvað er gaman ef maður prófar það ekki. Í sumar bætti ég svo sundi við hreyfinguna mína, þar er auðvitað bónus að slaka á í pottinum á eftir.“

Var markmiðið að ná hámarkspúls?

„Alls ekki! Í þessari áskorun markmiðið að taka frá tíma fyrir sjálfan sig, meðvitað, og nýta þann tíma í hreyfingu. Hreyfingin getur verið hvað sem er, hvar sem er og hvenær sem er. Hlaupatúr á meðan maturinn er í ofninum, teygjuæfingar eftir að krakkarnir sofna, göngutúr í götunni þinni, jógatími á netinu með kertaljós og rólega tónlist, biluð lyftingaæfing með tónlistina í botni. Hreyfingin má vera eins róleg og þú vilt eða mikil ákefð, blóð sviti og tár. Ef þú ert að taka frá tíma fyrir þig, meðvitað, þá ertu á réttri leið.“

Þú ákvaðst að halda áfram eftir þessa 100 daga, hvers vegna var það ?

„Þegar ég átti um það bil tvær vikur eftir af 100 dögum þá fór ég að finna fyrir einskonar tómleika tilfinningu. Ég áttaði mig ekki strax á því hvað það var en var einmitt líka á þeim tíma mikið að velta fyrir mér hvað ég ætlaði að gera eftir 100 dagana. Ég tengdi þetta tvennt fljótlega saman og fann að mig langaði svo sannarlega ekki að hætta. Ég ræddi þetta strax við Þóru og hún var sama sinnis, við vorum bara ekki tilbúnar að hætta. Á degi 100 hittumst við og ákváðum að taka saman 100 daga í viðbót. Við vorum svo heilshugar í þessu verkefni að við ákváðum að stofna síðu áInstagram tileinkaða þessu verkefni og vorum með því að vonast til að ná fleirum af stað með okkur hvetja fólk markvisst áfram,“ segir hún. 

Hvað breyttist í lífi þínu eftir að þú hófst að hreyfa þig daglega ?

„Ávinningurinn hefur komið hægt og rólega. Þetta er ekki auðvelt, það er ekki hægt að stytta sér leið, vinnan er algerlega á þínum höndum. Þegar þú ert kominn á þann stað að geta staðið upp úr sófanum klukkan 22.00 eftir langan dag, úti er öskrandi stórhríð, en þú ætlar að taka frá tíma fyrir þig og fara út, eða hreyfa þig á annan hátt, það er staðfesting á því að þú ætlar að setja þig í fyrsta sæti. Sófinn verður þarna ennþá þegar þú ert búin. Ég var á þeim stað að láta gjarnan annað ganga fyrir, börnin, heimilið, hundinn, þvottinn en hef fundið mikla breytingu á þeim hugsunarhætti. Ég verð að hugsa fyrst um mig til að geta gefið af mér til annarra.

Fyrir utan líkamlega þáttinn, þolið er betra, styrkurinn meiri og slíkt þá er svo margt annað sem hefur fylgt með. Það er líklega það sem hefur komið mér mest á óvart í þessu ferðalagi hvað andlegi þátturinn hefur styrkst mikið. Ég kom sjálfri mér gífurlega á óvart fyrstu 100 dagana, að hafa klárað þetta verkefni sem virðist algerlega óyfirstíganlegt fyrst um sinn. Ég var alltaf jafn hissa á að klára þau skref sem ég setti mér, fyrst 30 daga svo 30 daga í viðbót og svo loks þorði ég að segja að ég ætlaði að klára 100 daga. Þetta sannaði fyrir mér að ég get það sem ég ætla mér, gífurlegur sigur. Þetta snýst algerlega um það að taka einn dag í einu og muna að hrósa sjálfum sér fyrir litlu sigrana, fara af stað þegar sófinn er að éta þig, fara í skó og úlpu þegar það er appelsínugul viðvörun! 

Ekki svíkja sjálfa þig, farðu af stað þegar þú nennir alls ekki, þegar maður gerir það aftur og aftur þá gerist eitthvað. Sjálfstraustið eykst, þú verður ákveðnari, og gengur betur að takast á við þau verkefni sem lífið færir þér. Það er mesta breytingin sem ég finn.“

Hvað með mataræðið, breyttist það eitthvað ?

„Ég hef alltaf fundið fyrir því að þegar ég hreyfi mig að einhverju leiti reglulega, þá fylgir því að maður velur gjarnan hollari kostinn. Ég er samt mikill nammigrís, elska súkkulaði og HuppuÍs. Ísköld nýmjólk og súkkulaðikaka er í algjöru uppáhaldi, og segi ég aldrei nei við slíku. Ég fylgi ekki neinu sérstöku mataræði og hef aldrei gert, reyni samt að vera skynsöm og velja hollari kostinn og í seinni tíð er það líka því að ég finn að það hefur betri áhrif á líkamann minn. Eina markmið sem ég hef sett mér í sambandi við mat er “allt er gott í hófi” og það hefur virkað fyrir mig.“

Komu aldrei upp dagar þar sem þú nenntir ekki að hreyfa þig ?

„Svo sannarlega, það komu líka hreinlega tímabil þar sem allir dagar voru erfiðir og mig langaði ekkert að hreyfa mig. Þá daga verður maður að grafa djúpt og það er bónus að eiga gamaldags þrjósku í bakpokanum. Þegar þessir erfiðu dagar koma þá er líka svo dýrmætt að geta talað um það við þá sem eru jafnvel í sömu sporum. Við Þóra fundum það svo sterkt þegar við stofnuðum síðuna á Instagram 30min100dagar, að þar gat maður leitað eftir stuðningi, fundið hvatningu og rifið sig af stað. Það sannaði sig algerlega að ef til dæmis ég átti dag þar sem mig langaði alls ekki að gera neitt, en sá svo á síðunni að það voru jafnvel einhverjir búnir að drífa sig af stað þá hvatti það mig til að gera eitthvað líka. Við vorum líka duglegar að hvetja hvor aðra áfram og ég á henni svo mikið að þakka. Hún hefur aðeins þurft að draga sig út úr verkefninu því hún á von á barni á næstum vikum þannig að það breyttust aðeins forsendur hjá henni, en ég hlakka svo mikið til að fá hana með aftur á fullri ferð.

Sama hversu mikið sem mig langaði ekki að hreyfa mig þá hef ég aldrei séð eftir því að hafa drifið mig af stað. Manni líður svo margfalt betur á eftir.

Það sem mig langar líka að koma að í sambandi við þetta er að, taktu alltaf ákvörðun um að fara af stað, ekki skrópa bara af því að þú nennir ekki. Um leið og við förum að gera þá þá förum við líka að rífa okkur niður. Hugsanir eins og „ég get aldrei staðið við neitt“, „ég er alltaf svo löt/latur“, „ég klúðra öllu“ eiga ekki heima í þessu verkefni. Þú ákveður fyrir þig að fara af stað. Kannski ertu tilbúin í það, en kannski ekki. Ef ekki þá hugsarðu betur málið og byrjar aftur seinna, byrjar aftur að telja. Það er 150% skilningur á því að það detti út dagur, en það er ekki allt ónýtt þó að það gerist, haltu áfram næsta dag.  Það hafa komið dagar hjá mér þar sem ég hef kannski bara náð 20 mín göngutúr, ég fór samt út, ég stóð með sjálfri mér og fór af stað. Alltaf fara af stað, alltaf standa með ákvörðuninni þinni – af hverju ætla ég að taka frá tíma fyrir mig?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál