Lifði eins og hundur og varð hraustari

Dannielle Miller og hundurinn Aþena.
Dannielle Miller og hundurinn Aþena. Skjáskot/Instagram

Rithöfundurinn Dannielle Miller tók að sér flækingshund. Aldrei hefði henni dottið í hug að hundurinn myndi fá hana til þess að endurskoða mataræði sitt og stunda líkamsrækt. 

„Það var ást við fyrstu sýn þegar ég sá Aþenu fyrst í björgunarskýlinu. Hún var fyrst mjög máttfarin og var á sérstöku hráfæði fyrir hunda. Ég var staðráðin í að viðhalda þessu mataræði fyrir hana eftir heimkomu. Sjálf hökti ég í gegnum lífið. Lifði á skyndibita og kaffi og sat löngum stundum fyrir framan tölvuskjáinn. Ég var viss um að Covid-hitaeiningar teldust ekki með!

Ég nostraði hins vegar við hundinn eins og ég ætti lífið að leysa og dáðist að því hvernig hún dafnaði undir okkar umsjá. Allt í einu vissi ég að ég þyrfti að byrja að koma fram við mig líkt og hund. Ég lét vaða.

Að leyfa öðrum að hjálpa

Ég hef alltaf verið stolt af því að vera jákvæð en áttaði mig á að ég var alltaf bara jákvæð gagnvart styrk og þrautseigju. Hvað myndi gerast ef ég leyfði öðrum að hjálpa mér í stað þess að vera alltaf bara hjálparinn? Ég ákvað þess vegna að leyfa öðrum að bjóðast til þess að hjálpa,“ segir Miller.

Ánægjan í ferðalaginu

„Svo fór ég að ganga miklu meira. Það fékk mig til þess að átta mig á að ánægjan felst í ferðalaginu en ekki bara áfangastaðnum. Ég legg mig líka á daginn alveg eins og hundurinn. Við kúrum saman í sófanum og öndum í takt. 

Hugað að næringu

Ég var að elda mat eitt kvöldið og allt í einu laust þeirri hugmynd niður að hundurinn æti betri mat en ég. Núna drekk ég meira vatn og borða minni skyndibita. Ég passa upp á að næring sé í matnum rétt eins og í mat hundsins,“ segir Miller að lokum og er ánægð með hundalífið.

mbl.is