Gaf kærastanum kost á að labba út við krabbameinsgreininguna

Hildur Eir Bolladóttir ræðir krabbameinsgreininguna í nýjasta tölublaði Vikunnar.
Hildur Eir Bolladóttir ræðir krabbameinsgreininguna í nýjasta tölublaði Vikunnar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, gaf kærastanum sínum Kristni Hreinssyni kost á að hætta með sér eftir að hún greindist með krabbamein í endaþarmi. Þegar hann þverneitaði að gera það sá hún úr hverju hann var gerður.

Hildur ræddi um krabbameinsgreininguna í forsíðuviðtali við Vikuna. Hildur greindist með endaþarmskrabbamein í apríl á síðasta ári. Það reyndist illkynja en staðbundið. 

„Ég hugsaði ekki fyrst um börnin mín eins undarlega og það hljómar af því ég var alveg viss um að ég myndi sigrast á þessu, þannig að ég hugsaði ekki: þeir verða móðurlausir, heldur meira: hvernig á ég að segja Kidda þetta,“ sagði Hildur en Kristinn missti fyrri eiginkonu sína úr heilakrabbameini árið 2016. 

Hildur segist ekki hafa getað hugsað sér að láta manninn sinn og dætur hans ganga í gegnum þetta aftur. „Ég sagði við sjálfa mig: Það er ekki í boði, Hildur. Þetta er bara eitthvert æxli í rassgatinu á þér og alveg hægt að vinna með það. Þú ferð ekki að leggjast í rúmið yfir því. Þannig að ég herti mig upp og fór í baráttuhug,“ sagði Hildur. 

„Auðvitað hafa margir hugsað að við parið myndum ekki vinna okkur út úr þessu áfalli, En það varð til þess að ég áttaði mig enn betur á úr hverju Kiddi er gerður og hverjir styrkleikar hans eru. Ég hafði auðvitað gert mér grein fyrir að ég væri hrifin af honum og að hann væri góð manneskja en ég áttaði mig þarna á því hversu mikil manneskja hann er. Krabbameinið styrkti okkur, það er enginn vafi um það,“ segir Hildur.

Hildur Eir Bolladóttir prýðir forsíðu Vikunnar.
Hildur Eir Bolladóttir prýðir forsíðu Vikunnar.
mbl.is