Mikilvægt að fólk fái að deyja heima

Stofnun heimahlynningar fyrir krabbameinssjúklinga árið 1987 með Bryndísi Konráðsdóttur hjúkrunarfræðing í forsvari markaði tímamót í sögu krabbameinshjúkrunar á Íslandi. Heimahlynningin byggði á hugmyndafræði líknarmeðferðar (upphaflega kennd við Hospice) og var meginmarkmiðið að stuðla að því að krabbameinssjúklingar gætu verið heima hjá sér eins lengi og þeir óskuðu og aðstæður leyfðu. Lögð var áhersla á að byggja upp stuðning í umhverfi sjúklings á síðasta tímabili ólæknandi sjúkdóms, þar sem saman fóru einkennameðferð, umhyggja og næmi fyrir öllum þörfum sjúklings og aðstandenda. Þetta var byltingarkennd þjónusta sem við lítum á sem sjálfsagða í dag.

Heimahlynning Krabbameinsfélagsins veitti líknarmeðferð í þessum anda með mjög góðum árangri. Var þetta mikið brautryðjendastarf og starfið einstaklega þakklátt, enda gífurleg eftirspurn eftir þjónustunni sem þróaðist hratt yfir í sólarhringsþjónustu. í kjölfarið var stofnuð Heimahlynning í tengslum við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis.

Hjúkrunarþjónustan Karítas var stofnuð í sama anda árið 1994, Líknarteymi Landspítalans árið 1997 og Líknardeildin í Kópavogi tók til starfa árið 1999. Rekstur Heimahlynningarinnar fluttist til Landspítalans árið 2006 því þá hafði starfsemin fest rætur á Íslandi og tilgangi félagsins var náð.

Bryndís Konráðsdóttir er eitt af 70 andlitum Krabbameinsfélagsins á afmælisárinu 2021.

mbl.is