„Það þýðir ekki að þú getir ekki lést“

Linda Pétursdóttir er menntaður lífsþjálfi og sérfræðingur í þyngdartapi. Hún …
Linda Pétursdóttir er menntaður lífsþjálfi og sérfræðingur í þyngdartapi. Hún aðstoðar konur við að ná þeirri þyngd sem þær dreyma um. mbl.is/Ásta Kristjánsdóttir

Þrítugasti og sjöundi hlaðvarpsþáttur Lindu Pétursdóttir fór í loftið nýverið. Þátturinn fjallar um töluna á vigtinni. 

„Þú heldur að þú sért að gera allt rétt. Þú ferð eftir hungurkvarðanum og drekkur daglega 2 lítra af vatni. Mataræðið þitt er nokkuð heilbrigt, þú ferð á skikkanlegum tíma að sofa og loksins ertu að vinna þig út úr andlega rússíbananum með því vera meðvituð um hugsanir þínar. Flestar vikurnar léttist þú en svo gerist það. Þú stendur í stað og vigtin hreyfist ekki. Í þrjár til fjórar vikur skiptist þú á að missa og fá á þig aftur sömu kílóin og þú skilur ekki hvernig í ósköpunum stendur á því,“ segir hún í þættinum. 

„Við skulum renna aðeins yfir það að standa í stað í þyngd; hvers vegna það gerist og hvað við getum gert í því. Í fyrsta lagi þá er eðlilegt að standa í stað og staðna þegar við erum að léttast. Sama hversu heitt þú þráir að talan á vigtinni lækki þá gerist það ekki í hverri einustu viku.

Þannig virkar bara venjulegur líkami ekki. Líkaminn þinn er hannaður til að halda stöðugleika í þyngd. Það skiptir ekki máli hvort þú sért með mörg kíló sem þú mátt missa eður ei, líkaminn telur að það sé óskynsamlegt að missa fitu. Hann telur að núverandi þyngd sé mikilvæg og að hana skuli vernda.

Það þýðir ekki að þú getir ekki lést. Það þýðir að líkaminn þinn fylgir sinni eigin tímalínu og hún passar sjaldnast við það sem þú vilt. Tímalínan þín byggist á því að vilja vera örugg um að þú getir grennst. Tímalína líkamans þíns er byggð á vísindum.  Þegar þú ert að léttast verður líkaminn þinn nefnilega að framkvæma ýmiss konar efnahvörf svo það losni um fituforðann.“

Vandinn sem hún sér oftast hjá fólki er óþolinmæði og pirringur. 

„Þér finnst að þú ættir að léttast hraðar. Sú hugsun pirrar þig og hrindir af stað hringrás af matarvenjum. Svekkt vegna þyngdarinnar? Nú þá sprettur upp löngun til að borða! Þú heldur að þú getir ekki grennst svo við skulum bara henda í matarveislu og borða á okkur gat, til að leysa vandamálið.

Sérðu hvað það er fáránlegt? Trúðu mér; ofát kemur vigtinni ekki á þann stað sem þú vilt.

Ef þú vilt brjóta upp stöðnunina skaltu nota grunnreglurnar fjórar til þess; ekki kók og súkkulaði.

Ég er að tala um þær sem eru að gera allt sem þarf til en léttast ekki. Leyfðu mér að rifja það upp fyrir þig hvað það þýðir að gera allt sem þarf til. Þú borðar eftir plani. Þú borðar ekki yfir þig. Þú ferð eftir hungurkvarðanum. Þú ert með vatnsskammtinn og svefninn á hreinu.

Ekki ákveða að nokkrar vikur án þess að léttast séu til marks um að mataræðið virki ekki. Ef þú ert að vinna að grunnreglunum fjórum þá mun það virka. Haltu áfram. Vertu þolinmóð og sýndu sjálfri þér kærleika á leiðinni,“ segir hún. 

Þátt­inn má nálg­ast í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is