„Tók ákvörðun um sykurlausan lífsstíl fyrir nokkrum árum“

Signý Eiríksdóttir er ein þeirra sem eru alltaf með eitthvað …
Signý Eiríksdóttir er ein þeirra sem eru alltaf með eitthvað spennandi á prjónunum. Hún hugar vel að heilsunni og segir að ný og spennandi tækifæri í lífinu haldi manni ungum í anda.

Signý Eiríksdóttir athafnakona er einstaklega jákvæð og skemmtileg. Hún er ein af þeim sem segja meira já en nei í lífinu sem færir hana á ókunnar slóðir og oft inn í óvæntar aðstæður. 

Signý er ein þeirra sem eru alltaf með eitthvað spennandi á prjónunum. Hún hugar vel að heilsunni og segir að ný og spennandi tækifæri í lífinu haldi manni ungum í anda.

Í nóvember opnaði hún Betri stofuna í Hafnarfirði ásamt eiginmanni sínum, Jóni Tryggvasyni, Hafsteini Hafsteinssyni og Geirþrúði Guttormsdóttur.

„Við ætluðum að opna í júní en sökum gámaskorts í heiminum biðum við í sjö mánuði eftir húsgögnum og sérsmíðuðum innréttingum. Þannig að við vorum miklu meira en tilbúin þegar við loksins fengum sendinguna í nóvember. Við erum gríðarlega stolt og ánægð með útkomuna og höfum fengið góð viðbrögð enda margir búnir að bíða eftir að hafa slíka aðstöðu hér í bænum.“

Hvernig lýsir þú árinu sem nú var að líða?

„Árið er búið að vera með besta móti, við Sigyn Eiríksdóttir systir mín eigum og rekum fyrirtækið Luxuria, sem svo á og leigir lúxuseignir í Reykjavík og á Suðurlandi. Það má segja að það sé mitt aðalstarf. Erlendar bókanir tóku heldur betur vel við sér þegar landamærin opnuðust síðastliðið vor. Það er að verða vinsælt hjá fólki að vera í sérgistingu með allt út af fyrir sig, þar sem það fær alla þjónustu á staðinn. Þannig að við erum bjartsýnar systurnar þrátt fyrir ástandið.“

Ertu búin að setja þér markmið fyrir nýtt ár?

„Já það er að fara ekki af stað í nýtt verkefni og fókusera á það sem ég er með. Mig langar að stunda áhugamál af meiri krafti, taka meira frí og njóta lífsins.“

Hefur að mestu staðið við sykurlausa lífsstílinn

Hvernig hugar þú að heilsunni?

„Ég tók ákvörðun um sykurlausan lífsstíl fyrir nokkrum árum og hef að mestu staðið við það, og almennt passa ég mataræðið og hreyfingu. Andleg heilsa er líka mikilvæg, enda getur stressið læðst aftan að manni. Ég vakna mjög snemma á morgnana og á þá rólega stund með kaffibolla, en ég drekk mögulega of mikið kaffi. Það er notalegt að vakna áður en allir vakna, því það eru bestu stundir dagsins, bara horfa á Hamarinn og náttúruna sem ég er svo heppin að hafa í bakgarðinum hjá mér. Það er mín hugleiðsla.“

Hvaðan færðu orkuna við að vera stöðugt í nýsköpun og að þróa nýjar viðskiptahugmyndir?

„Ég held að þetta sé bara partur af mér og því fólki sem er í kringum mig. Í raun er það eðlilegt fyrir mig að vera alltaf eitthvað að gera. Sennilega er orkan bara þarna og ég þekki ekkert annað, en ég held í alvörunni að nú ætli ég að einbeita mér að því sem ég hef og slaka meira á. Fólk fer að vísu að hlæja þegar það heyrir mig segja þetta, en ég ætla að standa við það á næsta ári.

Það er kominn tími til að staldra við og spyrja sig hvenær á að njóta afraksturs þess sem maður hefur byggt upp. Hver er annars tilgangurinn?“

Er spennt fyrir sykurlausum kokteilum

Betri stofan er opinnfrá níu á morgnana þannig að fólk getur komið með tölvuna sína þangað til að vinna.

„Hjá okkur getur fólk einnig hist í smærri og stærri hópum, leigt fundaraðstöðu og fleira. Á kvöldin er svo „lounge“-stemning. Þeir sem vilja nýta sér aðstöðuna greiða mánaðargjald en það er forsenda þess að geta haft opið allan daginn. Þannig að þetta er blanda af því að vera vinnustaður og svo staður til að njóta og slaka.

Við erum síðan að þróa með veitingastöðum í kringum okkur að fólk geti pantað sér mat. Í desember vorum við með smurbrauð og svo er alltaf heitt á könnunni fyrir þá sem eru í aðild hjá okkur. Svo eru alltaf hundrað hugmyndir í loftinu, sem dæmi sykurlausir kokteilar sem ég er vandræðalega spennt fyrir.“

Árið sem Signý varð fimmtug tók hún þá ákvörðun að segja meira já í lífinu.

„Ég ákvað að drífa mig af stað ef eitthvað stóð til í stað þess að vera með afsakanir um að vera of upptekin eða þurfa að gera eitthvað annað. Þetta var góð ákvörðun og hefur leitt mig á skemmtilegar brautir.

Ein skemmtileg frænka mín sagði mér að hún væri svona hvert-á-ég-að-mæta-og-hvað-á-ég-að-borga-týpan. Það virkar mjög vel. Systir mín, sem er slatta ofvirk líka, notaði tækifærið í „já“-vegferðinni og dró mig á gönguskíði og í golf og því fylgir líka nýr og skemmtilegur félagsskapur.“

Ætlar að tjúllast úr skemmtilegheitum á árinu

Ætlarðu að gera eitthvað ævintýralega skemmtilegt á nýju ári?

„Ég verð 55 ára á árinu og ætla alveg að tjúllast úr skemmtilegheitum! Ég er búin að vara fólk við því að þetta verði eitthvað. Ég er svo heppin að vera í nokkrum skemmtilegum vinahópum og er komin með lista yfir alls konar sem mig langar að gera. Það er eins gott að fólk segi „já“ við mig á næsta ári!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál